Fara í efni
Íþróttir

Margt í boði – Spennan í hámarki í fótboltanum

Næstu dagar verða rólegir hjá íþróttaáhugamönnum nema hugsanlega fyrir framan sjónvarpið en þeim mun meira verður í boði í vikulokin. Þá verður akureyrskt íþróttafólk í eldlínunni bæði heima og að heiman.

Handboltaliðin hófu leik um nýliðna helgi, svo og íshokkíkonur, og karlalið SA í íshokkí mætir til fyrsta leiks um næstu helgi. Kastljósið beinist þó fyrst og fremst að fótboltanum um næstu helgi því spennan er í algleymingi á þeim vettvangi. Þór/KA mætir Þrótti í mjög mikilvægum leik í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á föstudagskvöldið í Boganum og daginn eftir eigast karlalið Þórs og Þróttar við í Reykjavík. Sigurliðið í þeirri viðureign tryggir sér sæti í Bestu deildinni að ári en geri liðin jafntefli gætu Njarðvíkingar laumast upp fyrir bæði. Á sunnudaginn tekur KA svo á móti Vestra en liðin eru í harðri baráttu um að leika í efri hluta Bestu deildarinnar eftir að henni verður skipt í tvennt.

FÖSTUDAGUR 12. SEPTEMBER - fótbolti, handbolti

Spennan magnast um miðbik Bestu deildar kvenna í knattspyrnu þar sem nú eru tvær umferðir eftir þar til deildinni verður tvískipt í sex efri og fjögur neðri lið. Þór/KA hefur sigið úr fjórða sætinu niður í það sjötta að undanförnu og þarf nauðsynlega á stigum að halda í lokaumferðunum til að halda sér í efri hlutanum.

  • Besta deild kvenna í knattspyrnu
    Boginn kl. 18
    Þór/KA - Þróttur

Næstu lið fyrir neðan Þór/KA eru Víkingur með 19 stig, Fram með 18 og Tindastóll með 17. Þór/KA á eftir leikinn á móti Þrótti og útileik gegn Breiðabliki. Að loknum 16 umferðum er Þór/KA með 21 stig í 6. sætinu. Stjarnan fór upp í 5. sætið með sigrinum á Þór/KA í síðustu umferð. 

- - -

Karlalið KA í handknattleik hóf keppni í Olísdeildinni með þriggja marka útisigri á Selfossi í fyrstu umferðinni, 33-30. Þjálfarar og fyrirliðar liðanna í deildinni spáðu Selfyssingum falli, neðsta sætinu, og KA 10. sætinu, næsta sæti fyrir ofan fallsætin. Spáin gefur auðvitað engin stig, en sigur í fyrsta leik gegn liði sem mögulega verður á svipuðum slóðum í töflunni, ef spár ganga eftir, gefur dýrmæt stig og sjálfstraust í framhaldið.

  • Olísdeild karla í handknattleik
    KA-heimilið kl. 19
    KA - Haukar

Andstæðingar KA í næsta leik, Haukar, enduðu í 5. sæti deildarinnar í fyrra og er spáð 2. sætinu í ár.  Haukar unnu báðar viðureignir þessara liða í Olísdeildinni í fyrra, 38-31 á Ásvöllum og 34-26 á Akureyri.

LAUGARDAGUR 13. SEPTEMBER - handbolti, fótbolti, blak, íshokkí

Konurnar í handboltanum fóru vel af stað í fyrstu umferðinni, unnu Stjörnuna með tveggja marka mun, 24-22. Þær fá annan heimaleik strax í 2. umferðinni þegar þær taka á móti liði ÍBV. 

Þjálfarar og fyrirliðar liðanna í Olísdeild kvenna spáðu ÍBV 4. sætinu og KA/Þór 7. sæti. ÍBV endaði í 6. sæti Olísdeildar kvenna í vor og féll úr leik eftir tap gegn Haukum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. KA/Þór vann Grill 66 deildina án þess að tapa leik og mætir nú aftur til leiks í Olísdeildinni.

  • Olísdeild kvenna í handknattleik
    KA-heimilið kl. 13:30
    KA/Þór - ÍBV

Þessi lið mættust á KG sendibílamótinu sem haldið var í KA-heimilinu í ágúst. Eyjakonur unnu þann leik með tíu marka mun.

- - -

Ögurstund er í uppsiglingu á laugardag þegar lokaumferð Lengjudeildar karla í knattspyrnu verður leikin.  Svo skemmtilega vill til að tvö efstu lið deildarinnar, Þór og Þróttur, mætast í lokaumferðinni. 

Þór er í efsta sætinu fyrir lokaumferðina með 42 stig, stigi meira en Þróttur. Það þýðir þó ekki að Þórsurum nægi jafntefli í leiknum því með sigri á grönnum sínum í Grindavík geta Njarðvíkingar tekið efsta sætið á markamun ef Þór og Þróttur gera jafntefli. Þórsarar og Þróttarar eygja því báðir möguleika á að fara beint upp í Bestu deildina með sigri á laugardaginn og senda þá hitt liðið í umspilsleiki. 

Eitt þessara þriggja liða, Þór, Þróttur eða Njarðvík, mun enda í toppsætinu og fara beint upp í Bestu deildina, en hin tvö fara í umspilsleiki. Að auki eru það svo HK, ÍR og Keflavík sem berjast um tvö sæti í umspilinu.

  • Lengjudeild karla í knattspyrnu
    AVIS-völlurinn í Laugardal kl. 14
    Þróttur - Þór

Þróttarar höfðu betur þegar liðin mættust í Boganum í byrjun júlí, unnu þann leik 2-1. Leikurinn á laugardaginn fer fram á heimavelli Þróttar og hefur knattspyrnudeild Þórs auglýst ókeypis rútuferð á leikinn.

- - -

Blakvertíðin er að hefjast og komið að því að spila um fyrsta bikar tímabilsins í leikjum um meistara meistaranna. Sem Íslandsmeistarar fær lið KA heimaleik og mætir Þrótti á laugardag.

  • Meistarar meistaranna í blaki karla
    KA-heimilið kl. 16
    KA - Þróttur

Þar sem KA varð bæði Íslands- og bikarmeistari síðastliðið vor mæta þeir Þrótturum, en þessi lið léku til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. 

- - -

Eftir æfingabúðir A-landsliðs karla í íshokkí sem haldnar voru á Akureyri um liðna helgi er komið að upphafi Íslandsmótsins, Toppdeildarinnar. Lið SA sækir Fjölni heim í Egilshöllina á laugardag, en þessi lið enduðu í 2. og 3. sæti deildarinnar í fyrra og SA tapaði síðan í úrslitaeinvígi gegn Skautafélagi Reykjavíkur.

  • Toppdeild karla í íshokkí
    Egilshöllin kl. 16:45
    Fjölnir - SA

Athygli vekur að Skautafélag Hafnafjarðar sendir ekki lið til leiks í karlaflokki. Stutt er síðan félagið var stofnað og spilaði liðið í fyrsta skipti í Íslandsmótinu 2024-25, en félagið er ekki skráð til leiks í ár. Það eru því aðeins þrjú lið sem í raun keppa um Íslandsmeistaratitil karla, eins og hjá konunum. 

SA og Fjölnir mættust sex sinnum í deildarkeppninni í fyrra og höfðu Akureyringar betur í fimm skipti. 

- - -

Þórsarar hófu leik í efstu deild í fyrsta skipti frá vorinu 2021 með öruggum sex marka sigri á ÍR-ingum á heimavelli og tylltu sér á topp deildarinnar með besta markamuninn eftir fyrsta leik. Verkefni þeirra í 2. umferð verður heldur erfiðara því komið er að því að heimsækja Íslands- og bikarmeistara Fram í Úlfarsárdalinn. 

  • Olísdeild karla í handknattleik
    Lambhagahöllin í Úlfarsárdal kl. 17
    Fram - Þór

Frammarar enduðu í 4. sæti Olísdeildarinnar í vor, en fóru síðan alla leið og unnu Íslandsmeistaratitilinn eftir að hafa lagt Hauka, FH og Val nokkuð örugglega í úrslitakeppninni. Þórsarar unnu sem kunnugt er Grill 66 deildina í vor, en þeim er spáð fallbaráttu í vetur, eins og hinu Akureyrarliðinu. Þjálfarar og fyrirliðar settu Þórsara í 11. sætið, en Fram er spáð 5. sætinu. Frammarar unnu fjögurra marka sigur á FH í fyrstu umferðinni.

- - -

Kvennalið KA í blaki vann allt sem hægt var að vinna á síðasta tímabili. KA-konur hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn fjögur ár í röð og eru því orðnar vanar því að spila fyrsta leik tímabilsins þar sem keppt er um titilinn meistarar meistaranna. 

  • Meistarar meistaranna í blaki kvenna
    KA-heimilið kl. 19
    KA - Völsungur

Þar sem KA vann tvöfalt í vor mætast KA og Völsungur, eins og í úrslitakeppni Íslandsmótsins í vor. 

SUNNUDAGUR 14. SEPTEMBER - fótbolti

Það skýrist næsta sunnudag og mögulega á mánudag hvaða lið verða fyrir ofan strik þegar Bestu deild karla verður skipt í tvennt, sex efstu og sex neðstu, áður en lokaspretturinn hefst. KA fær Vestra í heimsókn, en bæði liðin eru fyrir neðan strik þegar einni umferð er ólokið. 

  • Besta deild karla í knattspyrnu, 22. umferð
    Greifavöllurinn kl. 14:00
    KA - Vestri

Vestramenn fóru ekki vel af stað í fyrsta deildarleik eftir að þeir urðu bikarmeistarar, töpuðu stórt fyrir Víkingum, en gerðu síðan jafntefli við KR í síðustu umferð. KA fékk blauta tusku í andlitið á lokamínútum leiks gegn Stjörnunni í síðustu umferð og tapaði 3-2. Vestri vann fyrri viðureignina gegn KA í sumar, 1-0, á Ísafirði.

Þau lið sem berjast um sæti í efri hlutanum eru FH með 29 stig í 5. sætinu, Fram og ÍBV með 28 í 6. og 7. sæti, síðan Vestri með 27 og KA með 26 stig í 9. sætinu. Í lokaumferðinni eru tveir innbyrðis leikir liðanna á þessu svæði því á sunnudag mætast KA og Vestri annars vegar og FH og Fram hins vegar. Eyjamenn spila við Breiðablik á mánudag.