Fara í efni
Fréttir

Magnús Guðmundsson er látinn, 88 ára

Magnús Guðmundsson, einn af kunnustu íþróttamönnum Akureyringa, er látinn 88 ára að aldri. Magnús, sem varð margfaldur Íslandsmeistari bæði í golfi og á skíðum, lést á heimili sínu í Bandaríkjunum í gær, 16. janúar. Hann hafði verið búsettur vestanhafs í áratugi og starfaði lengstum sem skíðakennari.

Magnús fæddist 30. maí 1933 á Siglufirði en ólst upp á Akureyri. Hann varð fyrst Íslandsmeistari á skíðum 19 ára að aldri; sigraði þá í svigi þegar mótið var haldið á Akureyri árið 1953. Magnús flutti til Bandaríkjanna 1955 og var þar í tvo vetur, kom þá aftur heim og starfaði meðal annars við skíðakennslu um tíma en fluttist alfarinn út á ný um miðjan sjöunda áratuginn.

Magnús bjó lengst af í Sun Valley í Idaho ríki, þar sem hann var skíðakennari í fjöldamörg ár. Síðasta áratuginn var hann búsettur í Montana ríki.

  • Magnús varð fimm sinnum Íslandsmeistari á skíðum: 1952 í alpatvíkeppni, 1953 í svigi, 1954 í stórsvigi og 1958 í bruni og alpaþríkeppni.
  • Magnús varð einnig fimm sinnum Íslandsmeistari í golfi, fyrst 1958 og síðan var hann ósigrandi fjögur ár í röð, 1963 til 1966.
  • Magnús varð sem sagt bæði Íslandsmeistari á skíðum og í golfi árið 1958!
  • Eftirminnilegasta sigurinn á Íslandsmótinu í golfi vann Magnús árið 1964 í Vestmannaeyjum þegar hann lék á 10 höggum undir pari vallarins og sigraði með fáheyrðum yfirburðum. Magnús lék á 270 höggum og vann með 25 högga mun. Næstu tveir léku á 295!  Íslandsmót vannst ekki með sama glæsibrag á ný fyrr en tæpri hálfri öld síðar; Birgir Leifur Hafþórsson lék þá einnig á 10 höggum undir pari, þegar hann varð Íslandsmeistari 2013.

Magnús Guðmundsson var tvígiftur. Fyrri eiginkona hans var Vicky Guðmundsson, börn þeirra eru Erika og Markus. Síðari eiginkona Magnúsar er Susy Guðmundsson, sem lifir mann sinn.

Frásögn Tímans af glæsilegum sigri Magnúsar á Íslandsmótinu í golfi í Vestmannaeyjum árið 1964.

 Magnús Guðmundsson, fimmti frá hægri, ásamt fjölskyldu og gömlum vinum í heimsókn til Akureyrar árið 2015. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.