Fara í efni
Íþróttir

Loksins aftur alvöru nágrannaslagur!

Bjarni Ófeigur Valdimarsson, til vinstri, hefur verið lykilmaður í sóknarleik KA í vetur og Brynjar Hólm Grétarsson er sömuleiðis einn mikilvægasti leikmaður Þórs. Til hægri er hann í síðasta deildarleik Þórs, það er Árni Bragi Eyjólfsson sem þarna reynir að stöðva hann en Árni Bragi lék einmitt með KA síðasta Akureyrarliðin mættust í deildarleik, í maí 2021.

Loksins! í kvöld rennur upp stund sem margir hafa beðið lengi eftir – komið er alvöru nágrannslag á Akureyri í efstu deild karla í handbolta. KA fær Þór í heimsókn í KA-heimilið kl. 19.30 og verður það í fyrsta sinn í fjögur ár sem félögin eigast við á Íslandsmótinu.

Þórsarar sigruðu í næst efstu deild Íslandsmótsins í vor og ekki er útilokað að eitt það fyrsta sem einhverjir hugsuðu þá, bæði Þórsarar og KA-menn, að eitt væri a.m.k. öruggt í vetur: nágrannaslagur í tvígang og þá yrði vonandi boðið upp á mikla skemmtan.

KA hefur vegnað mun betur í vetur, liðið er fimmta sæti með 12 stig að loknum 10 leikjum en Þórsarar í 10. sæti með sjö stig. Samt er ógerningur að spá um úrslit í leik kvöldsins því allt virðist geta gerst í leikjum sem þessum.

Jón Heiðar Sigurðsson, núverandi formaður handboltadeildar KA, í dauðafæri í síðasta deildarleik KA og Þórs í maí 2021. Mynd: Skapti Hallgrímsson

  • Olísdeild karla í handknattleik
    KA-heimilið kl. 19:30
    KA - Þór

Troðfullt verður út úr dyrum í KA-heimilinu í kvöld og færri komast að en vilja. Þórsarar hafa því auglýst að opið hús verði í félagsheimilinu Hamri; í fyrsta lagi mun Birkelund þjálfari leggja ræða við stuðningsmenn fyrir leik, hægt verður að kaupa veitingar og þeim sem eiga miða á leikinn boðin rútuferð í KA-heimilið. Leikurinn verður síðan sýndur á stórum skjá í Hamri.

Skemmtileg myndasyrpa af umdeildu atviki á lokasekúndum leiksins í KA-heimilinu í maí 2021 sem lýst er hér neðan.

Hitabylgja úti, við suðumark inni

Liðin mættust síðast í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta í KA-heimilinu í maí árið 2021. Fyrirsögn umfjöllunar akureyri.net var Hitabylgja úti, við suðumark inni; það var sögurleg viðureign og eftirminnilega eins og margar rimmur félagana síðustu áratugi. Til gamans má rifja upp hluta þess sem akureyri.net sagði um leikinn, sem endaði með jafntefli, 19:19:

KA-menn, sem voru á heimavelli, áttu í harðri baráttu um að ná sem bestu sæti fyrir úrslitakeppnina, en Þórsarar voru fallnir þannig að þeir léku bara upp á heiðurinn. Úrslitin þýða að KA endar í 6. sæti deildarinnar og mætir Val í fyrstu umferð úrslitakeppninnar, átta liða úrslitunum.

Akureyrarfélögin hafa oft mæst í skrautlegum kappleikjum í gegnum áratugina en þessi fer án nokkurs vafa í sögubækurnar. Til dæmis kom fyrsta markið eftir 10 mínútur! Skyldi það vera met? Karolis Stropus braut ísinn fyrir Þór en þegar 10 mínútur og 55 sekúndur voru liðnar jafnaði Árni Bragi Eyjólfsson metin, 1:1. Hann var markahæsti maður KA í leiknum eins og svo oft áður, og eftir leikinn kom í ljós að hann er markakóngur deildarinnar í vetur, gerði 163 mörk – 7,4 að meðaltali í leik.

Sá sem þetta skrifar sagði einnig um leikinn:

Sumir hitamæla bæjarins sýndu yfir 20 gráður í dag og í KA-heimilinu var hitinn við suðumark; baráttan gríðarleg inni á vellinum og í lokin var einum stuðningsmanna Þórs vísað úr húsi fyrir að velta auglýsingaskilti um koll. Hann reiddist mjög þegar „mark“ Þórðar Tandra Ágústssonar af línunni 10 sekúndum fyrir leikslok stóð ekki heldur fengu Þórsarar aukakast! Svo virtist sem dómararnir hafi metið það svo að Þórður væri lentur áður en hann skaut en það var rangt hjá þeim svartklæddu. Enn standa því flestir á gati yfir dóminum.

Leiktíminn rann út og Þórsarar áttu aukakast. Karolis Stropus var falið það verkefni að skjóta, hann náði að koma boltanum framhjá varnarvegg KA-manna en einnig framhjá markinu.

Þetta er gott dæmi um að sjaldnast skiptir staða lið í deildinni máli þegar þau mætast; barist er til síðasta blóðdropa, miklu máli skiptir að vinna í hvert skipti sem íþróttamenn mæta til leiks, en líklega aldrei jafn miklu máli og þegar andstæðingarnir eru nágrannarnir! Eftir að flautað verður til leiksloka verða þó vonandi allir vinir á ný – akureyri.net hvetur alla til að fylgjast með í kvöld. Góða skemmtun og megi betra liðið vinna!

Staðan í deildinni