Fara í efni
Íþróttir

Léttir og gleði eftir langþráðan sigur

Sigurinn innsiglaður. Leikmenn Þórs/KA fagna fjórða marki liðsins. Mynd: Ármann Hinrik.

Þór/KA vann mikilvægan sigur á grönnum sínum úr austri, FHL, þegar liðin mættust í 14. umferð Bestu deildar kvenna, efstu deild Íslandsmótsins, í Boganum í gærkvöld. Blanda af hæfileikum og hugarfari skilaði baráttuglöðu Þór/KA-liði inn á völlinn í gærkvöld og greinilegt í leikslok að leikmönnum og þjálfurum var nokkuð létt eftir þennan fyrsta sigur liðsins í of langan tíma. 

Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir, Karen María Sigurgeirsdóttir, Sandra María Jessen og Bríet Fjóla Bjarnadóttir skoruðu mörkin, en Sandra María brenndi einnig af víti í leiknum.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni

Eftir þrjá tapleiki í röð náði Þór/KA að ýta sér aðeins frá svæðinu þar sem barist er um sæti í efri hlutanum. Þór/KA er nú með 21 stig, en á eftir koma Stjarnan með 16 stig, eftir jafntefli við FH í gærkvöld, Fram með 15 stig, Tindastóll með 14 stig og mætir Breiðabliki í kvöld í lokaleik 14. umferðarinnar, og síðan Víkingur með 13 stig eftir sigur á Fram í fyrradag.

Kröftug byrjun heimakvenna

Þór/KA hóf leikinn af krafti og greinilegt að stelpurnar voru hungraðar í sigur eftir þrjú töp í röð. Að EM-hléinu meðtöldu voru í gær sléttir tveir mánuðir síðan liðið vann síðasta leik, heimaleik gegn Víkingi 21. júní. 

Það voru ekki liðnar tvær mínútur af leiknum þegar fyrsta markið kom. Karen María tók þá hornspyrnu og upp úr henni skaut Kimberley Dóra í slá og niður, boltinn inni að mati aðstoðardómara. Margar hornspyrnur Karenar Maríu sköpuðu hættu við mark FHL í leiknum.

Um 17 mínútum síðar var svo komið að Karen Maríu sjálfri að skora, en hún átti þá frábært skot fyrir utan vítateig. Sonja Björg Sigurðardóttir átti þá skot á markið, sem var varið, en Þór/KA náði boltanum strax aftur og Karen María hlóð í skot vel fyrir utan vítateig. Virkilega fallegt mark. 

Þór/KA hélt áfram góðum tökum á leiknum, liðið átti hvort tveggja góðar sóknir sem skiluðu færum sem ekki nýttust, eða vantaði lokasendinguna upp á að skapa færi, en liðið vann einnig boltann af gestunum með öflugri pressu og náði nokkrum sinnum að ógna marki þeirra með þeim hætti.

FHL átti líka sína spretti í fyrri hálfleiknum enda er liðið með öfluga og hraða leikmenn sem voru nokkrum sinnum nálægt því að gera heimakonum skráveifu. Hættulegasta vopn þeirra voru skyndisóknirnar, en varnarlínu Þórs/KA tókst að stöðva þær flestar. Jessica var svo þar fyrir aftan, örugg í markinu og átti nokkrar góðar vörslur.

Tveggja marka forysta eftir fyrri hálfleikinn var sanngjörn, en öflugt lið FHL gaf þó ekkert eftir og hélt áfram að ógna með skyndisóknum.

Mörkin hefðu getað orðið fleiri

Seinni hálfleikurinn var álíka fjörugur og sá fyrri og ekki nema átta mínútur liðnar þegar Þór/KA náði góðri sókn þar sem Hulda Ósk Jónsdóttir fékk boltann á hægri kantinum, æddi af stað upp að vítateig og átti frábæra fyrirgjöf á fjærstöng, þar sem Sandra María kom á ferðinni og skoraði með fallegum skalla. Þarna kom samvinnan sem svo oft var talað um í leikjum liðsins í fyrrasumar þegar Hulda Ósk lagði upp ófá mörkin með því að finna Söndru Maríu í námunda við fjærstöngina. 

Sandra María fékk svo kjörið tækifæri til að skora sitt annað mark og 11. mark sitt í deildinni í sumar þegar dæmd var vítaspyrna á gestina. Brotið var á Söndru Maríu eftir horn og fór hún sjálf á vítapunktinn, en 18 ára markvörður FHL, Embla Fönn Jónsdóttir, varði vítið. Upp úr því komst FHL í hraða sókn sem endaði með hornspyrnu og svo marki eftir hornspyrnuna, en það var þó ekki dæmt gott og gilt vegna rangstöðu. Í fljótu bragði virtist þó sem boltinn hafi mögulega verið inni eftir skot í slá áður en sú sem dæmd var rangstæð náði að skalla boltann í markið.

Hömruðu járnið meðan heitt var

Þrátt fyrir þriggja marka forystu héldu Þór/KA-stelpurnar áfram að þjarma að gestunum, meðal annars með aukakrafti frá varamönnum þegar leið á seinni hálfleikinn. Þær Amalía Árnadóttir og Ellie Moreno komu með kraft inn í sóknarlínuna þegar um 20 mínútur lifðu leiks og sköpuðu usla í vörn gestanna. Ellie nýtti hraðann og komst í álitlegar stöður, meðal annars í dauðafæri eftir vel útfærða og hraða sókn, útspark frá Jessicu, Amalía tók við boltanum og kom honum á hægri kantinn þar sem Ellie endaði á fallegu svigi framhjá varnarmönnum FHL, en henni brást svo bogalistin þegar hún átti aðeins eftir að koma boltanum framhjá markverðinum. Mætti jafnvel segja að auðveldara hefði verið að skora en ekki.

Tíu mínútum síðar kom svo sú yngsta í leikmannahópi Þórs/KA, Bríet Fjóla Bjarnadóttir, inn fyrir fyrirliðann og þá elstu í hópnum, Söndru Maríu Jessen. Sandra María var 15 ára og um það bil að komast inn í meistaraflokkinn hjá Þór/KA þegar Bríet Fjóla fæddist. Það mætti því segja að þessi innáskipting þegar um tíu mínútur lifðu leiks hafi verið hálfgerð kynslóðaskipting hjá Jóhanni þjálfara Þórs/KA. 

Það var nánast komið að lokum viðbótartíma leiksins þegar Bríet Fjóla fékk boltann fyrir utan teig eftir aukaspyrnu og skoraði glæslilegt mark, upp í markhornið. Ármann Hinrik var okkar maður með myndavélina á leiknum og náði meðal annars þessari skemmtilegu syrpu af marki Bríetar Fjólu. Mögulega fá fleiri myndasyrpur af mörkum liðsins að líta dagsins ljós hér á vefnum síðar í dag eða á morgun.

  • 4-0 - Bríet Fjóla Bjarnadóttir hleður í skot rétt utan vítateigs og sendir boltann í fallegum boga upp í markhornið þar sem Embla Fönn Jónsdóttir, markvörður FHL, náði ekki til hans.


Tvær verðlaunaðar fyrir leikjaáfanga

Fyrir leikinn fengu þær Margrét Árnadóttir og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir afhentar Þór/KA-treyjur í tilefni af leikjaáföngum sem þær náðu í síðasta leik. Margrét spilaði þá sinn 200. meistaraflokksleik fyrir Þór/KA og Kimberley sinn 100. leik með Þór/KA. Margrét á einnig að baki leiki í efstu deild á Ítalíu og Kimberley með Hömrunum í 2. deild.

Margrét Árnadóttir og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir með verðlaunatreyjurnar skömmu fyrir leik, en það voru Birgir Örn Reynisson varaformaður og Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður félagsins sem afhentu þeim treyjurnar. Mynd: Ármann Hinrik.