Lesa ljóð Jónasar Þ. í Svörtum bókum

Í kvöld, fimmtudagskvöldið 16. október kl. 20.00 verður ljóðakvöld í Svörtum bókum. Arnar Már Arngrímsson og Þórður Sævar Jónsson ætla að tileinka Jónasi Þorbjarnarsyni kvöldið, og lesa vel valin ljóð eftir hann. Jónas var Akureyringur, fæddur 1960 og lést árið 2012. Hann gaf út níu ljóðabækur. Ljóðakvöldið er öllum opið og enginn aðgangseyrir.
„Mér varð ljóst að þarna var komið skáldið sem mig vantaði þegar ég var unglingur. Skáld sem orti um krakka að leik við Glerá, ljóð sem gerðust í Hlíðarfjalli, Dagverðareyri og Hjalteyri. Ljóð sem fjölluðu um mína daga sem urðu dálítið merkilegri fyrir vikið,“ segir Arnar Már Arngrímsson í pistli sem birtur var í morgun á Akureyri.net um kynni sín af ljóðum Jónasar.
- Pistill Arnars Más: Skáldið Jónas Þorbjarnarson (1960-2012)
Hér má sjá viðburðinn á Facebook.
Þrjár af bókum Jónasar, Tímabundið ástand, Hvar endar maður? og Hliðargötur.