Fara í efni
Íþróttir

„Langaði eiginlega ekkert að spila“

Steinþór Már Auðunsson markvörður KA. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.
Steinþór Már Auðunsson markvörður KA. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Steinþór Már Auðunsson, sem stóð í marki knattspyrnuliðs KA í sumar, kom mörgum á óvart með frábærri frammistöðu, þar á meðal sjálfum sér!

Stubbur, eins og Steinþór er gjarnan kallaður, gekk til liðs við uppeldisfélag sitt snemma þessa árs eftir langa fjarveru. Gert var ráð fyrir honum sem varamarkverði liðsins, og það gerði hann raunar sjálfur. Vegna meiðsla Kristijan Jajalo skömmu áður en flautað var til leiks á Íslandsmótinu kom það hins vegar í hlut Steinþórs, 31 árs nýliða í efstu deild, að verja mark liðsins. Það gerði hann svo í hverjum einasta leik sumarsins og var í haust valinn leikmaður ársins hjá KA og besti markvörður leiktíðarinnar af ýmsum sérfræðingum.

Markmiðið var einn leikur

Jajalo handleggsbrotnaði fáeinum dögum fyrir fyrsta leik á Íslandsmótinu í vor og ekki var annað í stöðunni en láta Steinþór spila, að minnsta kosti fyrst um sinn. En var hann tilbúinn í slaginn?

„Nei, alls ekki!“ svarar Steinþór hreinskilningslega í samtali við Akureyri.net. „Ég ætla ekki að spila mig einhvern stóran karl. Mig langaði eiginlega ekkert að spila!“ Líkamlega segist hann þrátt fyrir allt hafa verið tilbúinn. „Við æfðum eins og skepnur í vetur, komumst ekki upp með neitt annað,“ segir hann. En það kom mjög flatt upp á hann að þurfa að spila.

Eftir á að hyggja segir Steinþór sennilega betra að vera hent út í djúpu laugina með stuttum fyrirvara, eins og raunin varð. Þá hafi ekki gefist neinn tíma til að kvíða fyrir eldskírninni í efstu deild.

„Markmið mitt þegar ég fór í KA var eiginlega ekki stærra en að ná mögulega einum leik í efstu deild með uppeldisfélaginu,“ segir Steinþór. „Að ganga inn á völlinn í fyrstu umferð Íslandsmótsins var því ekki eitthvað sem ég hafði átt von á, eftir að hafa leikið í neðri deildunum í mörg ár. Það kom mér mjög á óvart – ég ætla ekki að reyna að ljúga öðru. Þetta var ekki það sem ég lagði upp með þegar ég skrifaði undir samning við KA snemma á árinu.“

Komst ekki í liðið í 2. flokki

Steinþór lék með KA í yngri flokkunum og náði að spila tvo leiki með meistaraflokki 17 ára, sumarið 2007. KA lék þá í næst efstu deild. „Það fyndna er að ég komst ekki einu sinni í liðið hjá 2. flokki þetta sumar, en eftir að Sandor [Matus, markvörður] var rekinn af velli gegn Fjarðabyggð fyrir austan spilaði ég tvo leiki.“

Ferillinn í meistaraflokki byrjaði ekki með glæsibrag, rifjar Steinþór upp. „Ég hafði verið meiddur í fjóra mánuði og held ég hafi bara verið búinn að æfa í 10 daga, þegar ég spilaði á móti Leikni fyrir sunnan,“ segir hann. KA tapaði þeim leik 4:0 og næst tapaði liðið 4:2 fyrir Stjörnunni á heimavelli.

Leikirnir urðu ekki fleiri, Steinþór réri á önnur mið fyrir sumarið 2010 og sneri ekki heim fyrr en liðlega áratug síðar – fyrir nýliðið keppnistímabil. „Ég var í fótbolta til að spila, ekki sitja á bekknum. Sandor var frábær markmaður og enginn átti séns í hann,“ segir Steinþór. Hann kom víða við, lék með Völsungi, Dalvík/Reyni, Þór og Magna á Grenivík, þar sem hann var síðustu þrjú ár.

Steinþór segist nánast hafa verið hættur í fótbolta, eftir sumarið 2014 þegar hann lék með Dalvíkingum. „Ég æfði ekkert um veturinn en var að vinna með Guðmundi Óla Steingrímssyni frænda mínum og þegar hann fór í Þór sagði Guðmundur mér að Aron Birkir [Stefánsson, þá aðeins 16 ára] væri eina markmaðurinn fyrir utan Sandor [Matus, sem var kominn frá KA]. Ég fann að mig langaði að fá að æfa fótbolta aftur, talaði við Sandor og fékk að koma.“

Ógleymanleg stund

Mörgum er enn í fersku minni þegar Steinþór kom inn á í fyrsta skipti með Þór. Það var laugardaginn 11. júlí 2015 eftir að Sandor var rekinn út af snemma leiks – gegn KA; auðvitað var handritið skrifað þannig!

„Aron var að spila með 2. flokki svo ég var settur á bekkinn,“ segir Steinþór og rifjar upp að hann var enginn veginn tilbúinn þegar Sandor fékk rauða spjaldið. „Ég átti ekki von á að þurfa að spila og það tók mig langan tíma að koma inn á. Ég þurfti að klæða mig í búninginn, var ekki einu sinni í sokkum eða stuttbuxum.“ Hann arkaði inn á Akureyrarvöll eftir drjúga stund og hélt hreinu, en KA vann 1:0.

„Það er óneitanlega skrýtið að labba inn á völlinn í Þórstreyju á móti KA, en þegar allt kemur til alls verða menn að hugsa um sjálfa sig, hvað sé best fyrir þeirra feril hverju sinni.“

Leikurinn er honum eftirminnilegur og ekki bara vegna hins augljósa; að spila, og halda markinu hreinu gegn KA. „Í fyrsta lagi var ég allt of þungur, það sáu allir. En ég sá líka utandeildina hverfa! Eftir að ég kom inná í Íslandsmótinu mátti ég ekki spila meira í utandeildinni, þar sem ég var að leika mér.“

Steinþór lék einnig gegn Þrótti, leik sem Þór vann 2:1 á heimavelli, og stóð einnig í markinu þegar Þór tapaði 2:1 heima fyrir Víkingi frá Ólafsvík. Svo fór að Víkingur vann deildina, Þróttur varð í öðru sæti, KA í því þriðja og Þór í fjórða sæti. Stubbur lék sem sagt gegn toppliðunum þremur.

Fæturnir eins og gúmmí!

Eftir að Aron Dagur Birnuson gekk til liðs við Grindvíkinga í vetur sýndi KA Steinþóri óvænt áhuga og hann ákvað að slá til. „Margir þeirra sem ég þekkti best og var mest með í Magnaliðinu fóru að týnast í burtu og þegar KA vildi fá mig spurði ég sjálfan mig hvers vegna ég tæki ekki eitt sumar á Brekkunni, til að sjá hve allt væri orðið flott hjá KA.“

Þar með var grunnurinn lagður að einu mesta öskubuskuævintýri sumarsins.

„Það var auðvitað gaman en ég ætla ekki að reyna að ljúga því að ég hafi ekki verið stressaður. Ég fann varla fyrir fótunum fyrstu 20 mínúturnar – þær voru eins og gúmmí!“ segir Stubbur þegar hann hugsar til baka um leik KA og HK í Kórnum, í fyrstu umferð Pepsi Max deildarinnar í vor.

Svo greip Steinþór eina og eina fyrirgjöf, eins og hann orðar það, og varði eitt og eitt skot. „Þá jókst sjálfstraustið og ég fann fyrir meira trausti frá öðrum í liðinu. Strákarnir voru duglegir að hjálpa mér. Við Binni [Brynjar Ingi Bjarnason] þekktumst því við spiluðum saman hjá Magna á sínum tíma þar sem hann var í láni, og svo var Hrannar frændi minn bakvörður.“

Toppurinn að halda hreinu

„Mér fannst gaman að halda hreinu með uppeldisklúbbnum í fyrsta leiknum í efstu deild,“ segir Steinþór þegar spurt um hápunkta sumarsins hjá honum. „Það er svo sem ekkert sérstakt annað sem stendur upp úr; þetta var bara nokkuð jafnt og gott hjá mér, fyrir utan síðasta leikinn á móti FH. Ég veit ekki hvað gerðist þar,“ segir hann. FH skoraði eftir slæm og mjög sjaldgæf mistök markvarðarins. „Það var leiðinlegt að gera svona mistök í síðustu umferðinni þegar mikið var undir. Það hefði sennilega skipt minna máli ef þetta hefði gerst í 10. umferð. Í heildina kom það mér á óvart hvað þetta gekk vel, en segja má að sumarið hafi verið súrsætt miðað við hvernig það endaði. Að við skulum ekki hafa spilað betur í síðasta leiknum gegn FH, sem var úrslitaleikur fyrir okkur.“

KA þurfti að vinna FH í lokaumferðinni til að ná þriðja sæti og eiga þar með möguleika á sæti í Evrópukeppni á næsta ári, en lauk keppni í fjórða sæti.

Steinþór er mjög ánægður með frammistöðu KA-liðsins í sumar, þótt vonbrigðin hafi verið mikil í lokin. „Við lentum í miklum áföllum vegna meiðsla og svo var Binni seldur snemma í sumar. En við spiluðum yfirleitt mjög vel sem lið, frá fremsta manni til þess aftasta. Arnar Grétarsson er með sínar áherslur og ef menn gera ekki það sem hann vill þá hikar hann ekki við að taka þá úr liðinu og setja á bekkinn. Mín tilfinning er sú að menn beri það mikla virðingu fyrir Arnari sem þjálfara að þeir reyni alltaf af gera það sem hann segir. Það er ekki hægt að komast upp með neitt bull hjá honum, sem er frábært. Þá fara allir í sömu átt. Og þótt menn hafi verið sárir og fúlir strax eftir leikinn við FH má ekki gleyma því að árangurinn er framför frá því í fyrra. Þetta var stigamet hjá KA í 12 liða efstu deild.“

Gott frí og svo allt á fullt

„Nú ætla ég í gott frí á Tenerife, í þrjár til fjórar vikur, og svo byrja æfingar á fullu þegar ég kem heim. Ég hef alltaf gaman af því að æfa,“ segir hann og hrósar Branislav Radakovic, markmannsþjálfara KA, í hástert. Segist heppinn með þjálfara í gegnum tíðina því Sandor Matus hafi verið frábær. „Það er frekar mataræðið sem er ekki í lagi. Ég veit að ég er of feitur sem fótboltamaður í efstu deild en hef þó aldrei verið léttari síðan 2010. Menn átta sig kannski ekki á því en ég er 10 til 15 kg léttari en oft áður.“

Steinþór segir að það hafi að sjálfsögðu verið mikil vonbrigði fyrir Jajalo að meiðast rétt fyrir mót, en þar sem hann hafi sjálfur staðið sig vel í sumar megi geri ráð fyrir harðri samkeppni um sæti í liðinu næsta sumar. „Næsta markmið hjá mér er að minnsta kosti að gefa í og gera enn betur en áður,“ segir leikmaður ársins hjá KA.

Steinþór í liði ársins hjá sérfræðingum

Steinþór Már bestur hjá KA

Steinþór ver vítaspyrnu frá Dananum Patrick Pedersen, framherja Vals, á Dalvíkurvelli í sumar. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Steinþór í leiknum eftirminnilega, þeim fyrsta með Þór - gegn KA sumarið 2015.

Steinþór með Magna á Grenivíkurvelli sumarið 2019.

Steinþór grípur knöttinn í leiknum gegn Stjörnunni á Akureyrarvelli (Greifavellinum) í sumar.