Fara í efni
Íþróttir

Steinþór Már bestur, Þorri Mar efnilegastur

Þorri Mar Þórisson, Steinþór Már Auðunsson og Hallgrímur Mar Steingrímsson. Mynd af heimasíðu KA.

Steinþór Már Auðunsson, markvörður, var valinn besti leikmaður knattspyrnuliðs KA í sumar. Valið var tilkynnt á lokahófi knattspyrnudeildar um helgina. Þorri Mar Þórisson var valinn sá efnilegasti og Hallgrímur Mar Steingrímsson var verðlaunaður fyrir að vera markahæsti leikmaður liðsins.

Þetta kemur fram á heimasíðu KA. Þar segir ennfremur:

„Steinþór Már Auðunsson var valinn besti leikmaður KA en Steinþór sló í gegn í sumar. Steinþór sem er uppalinn hjá KA gekk aftur til liðs við liðið frá Magna fyrir tímabilið og nýtti heldur betur tækifærið til fulls. Hann lék alla leiki KA í sumar og vakti verðskuldaða athygli en hann var valinn besti markvörður tímabilsins af leikmönnum Pepsi Max deildarinnar.

Hallgrímur Mar Steingrímsson var markahæsti leikmaður KA í sumar en hann gerði alls 11 mörk í Pepsi Max deildinni. Grímsi átti frábært sumar og var meðal annars valinn í lið ársins af leikmönnum deildarinnar sem og hjá Fótbolta.net. Grímsi er í dag markahæsti leikmaður í sögu KA með 77 mörk og er auk þess leikjahæsti leikmaður félagsins með 251 leik.

Þorri Mar Þórisson var valinn efnilegasti leikmaður liðsins en Þorri sem er 22 ára gamall hefur bætt sig gríðarlega í bakverðinum og var ákaflega traustur í sumar. Hann lék alla leiki sumarsins fyrir utan einn og skilaði sínu hlutverki svo sannarlega bæði í vörn og sókn.“

Á lokahófinu verðlaunuðu leikmenn liðsins Jón Arnar Jónsson sem hefur farið fyrir trommusveit KA undanfarin ár „og er heldur betur ómetanlegur þáttur í starfi félagsins,“  segir á heimasíðunni. 

Jón Arnar Jónsson og Ásgeir Sigurgeirsson, fyrirliði KA. Leikmenn færðu Jóni Arnari áritaða treyju að gjöf.