Fara í efni
Íþróttir

Körfubolti: Þórsarar með fyrsta sigurinn

Þrír öflugustu leikmenn Þórs í leiknum, Francisco "Paco" del Aquilla, Axel Arnarsson og Christian Caldwell. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.

Þór vann sinn fyrsta sigur í 1. deild karla í körfuknattleik í gærkvöld þegar lið KV sótti Þórsara heim í Íþróttahöllina á Akureyri. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann, en Þórsarar sterkari á lokakaflanum og unnu átta stiga sigur, 85-77.

Þórsarar byrjuðu betur og leiddu allan fyrsta leikhlutann, lengst af með þremur til fimm stigum, en juku muninn í níu stig alveg í lokin. Gestirnir hleyptu þeim ekki lengra frá sér og náðu reyndar að jafna í 40-40 á lokamínútu fyrri hálfleiksins, en síðasta karfan var þó Þórsara og tveggja stiga forysta eftir fyrri hálfleikinn.

Áhugaverð tölfræði úr fyrri hálfleiknum: Pétur Cariglia, 16 ára í byrjunarliði Þórs, með 100% skotnýtingu, átta stig, eitt tveggja stiga og tvö þriggja stiga skot. Þessar þrjár körfur komu reyndar allar á fyrstu fimm mínútum leiksins. Andri Már Jóhannesson reyndar einnig með 100% í fyrri hálfleiknum, tvö víti og eitt tveggja stiga skot.

Pétur Cariglia var öflugur í upphafi leiks og hitti vel, skoraði átta stig á fyrstu fimm mínútum leiksins. Hér sækir hann að Reyni Barðdal Róbertssyni, fyrrum leikmanni Þórs. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.

Þriðji leikhlutinn var hnífjafn og komust gestirnir fljótlega yfir í fyrsta skipti, 44-45. KV náði fimm stiga forystu, en Þórsarar sigu fram úr á ný, náðu fimm stiga forystu en leiddu með þremur stigum fyrir lokafjórðunginn. Þeir létu forystuna ekki aftur af hendi, bættu smátt og smátt í og voru komnir með leikinn í sínar hendur á lokamínútunum, 11 stiga forystu, og náðu að klóra sig í gegnum lokamínútuna. Unnu að lokum átta stiga sigur, sinn fyrsta sigur í deildinni í haust.

Þór - KV (22-13) (20-27) 42-40 (26-25) (17-12) 85-77

Christian Caldwell skoraði flest stig Þórsara, en Axel Arnarsson og Paco Del Aquilla voru líka öflugir, sérstaklega í seinni hálfleiknum, Axel með 14 í plús og Paco 12 í plús og 32 framlagspunkta. 

Francisco "Paco" Del Aquilla var öflugur í liði Þórs með 16 stig, 15 fráköst og 32 framlagspunkta í leiknum. Hér reynir hann smá danstakta til að verjast sendingu Arnórs Hermannssonar. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.

Helstu tölur úr leik Þórsliðsins:

  • Christian Caldwell 23/13/2
  • Axel Arnarsson 19/5/4
  • Paco del Aquilla 16/15/4 - 32 framlagspunktar
  • Týr Óskar Pratiksson 10/3/1
  • Pétur Cariglia 9/2/3
  • Smári Jónsson 4/3/3
  • Andri Már Jóhannesson 4/3/2
  • Arngrímur Friðrik Alfreðsson 0/1/0
  • Páll Nóel Hjálmarsson 0/1/0

Skallagrímur, Þór, Hamar og KV hafa öll unnið einn leik af fyrstu fjórum, en Fylkir er á botninum án sigurs.

Tölfræði leiksins

Staðan í deildinni