Fara í efni
Íþróttir

Heimaleikir í blaki, fótbolta og handbolta

Vikan fram undan býður upp á heimaleiki í blaki, fótbolta og handbolta, en útileiki í blaki og körfubolta. Þegar þetta er skrifað er ekki búið að gefa út dagsetningar á næstu leikjum um sæti í karladeildum Kjarnafæðimótsins í knattspyrnu þannig að á listann gætu bæst við fleiri leikir í vikunni eða um komandi helgi. Á meðal þess sem er á dagskrá í vikunni er heimsókn kvennaliðs KA í blaki til Neskaupstaðar þar sem barist verður um sæti í undanúrslitum bikarkeppninnar.  

MIÐVIKUDAGUR 21. JANÚAR - blak

Kvennalið KA í blaki er í 2. sæti í Unbroken-deildinni með 28 stig úr 12 leikjum, níu stigum á eftir HK sem hefur þó leikið einum leik meira. Á miðvikudagskvöldið tekur KA á móti nágrönnum sínum frá Húsavík. Völsungur er í 3. sæti deildarinnar með 21 stig úr 13 leikjum.

  • Unbroken-deild kvenna í blaki
    KA-heimilið kl. 20
    KA - Völsungur

FÖSTUDAGUR 23. JANÚAR - blak

Fram undan eru átta liða úrslit í Kjörísbikarkeppni kvenna í blaki. KA sækir Þrótt Fjarðabyggð heim til Neskaupstaðar og í húfi er sæti í undanúrslitum, lokahelginni sem fram fer síðar í vetur. Miðað við stöðuna í deildinni, sem skiptir þó auðvitað ekki máli þegar komið er í bikarkeppni, ætti KA að vinna nokkuð örugglega. Þróttur Fjarðabyggð er í neðsta sæti deildarinnar með eitt stig, en KA í 2. sæti.

  • Kjörísbikar kenna í blaki, átta liða úrslit
    Íþróttahúsið í Neskaupstað kl. 20:15
    Þróttur Fjarðabyggð - KA

LAUGARDAGUR 24. JANÚAR - körfubolti

Kvennalið Þórs í körfuknattleik er enn ósigrað í 1. deildinni, hefur unnið fyrstu tíu leiki sína á leiktíðinni. Þór sækir Njarðvík heim á laugardag, mætir B-liði félagsins. Fyrri leik liðanna lauk með 67 stiga sigri Þórs á Akureyri í október, 112-45.

  • 1. deild kvenna í körfuknattleik
    IceMar-höllin í Njarðvík kl. 16
    Njarðvík b - Þór

- - -

Þórsarar hafa verið í basli í neðri hluta 1. deildar karla í körfuknattleik, hafa unnið þrjá leiki af 14. Á laugardag sækja þeir KV heim í Vesturbæ Reykjavíkur, en KV er einmitt eitt þeirra þriggja liða sem Þór hefur unnið. Fyrri leik liðanna í vetur lauk með sigri Þórs, 85-77, á Akureyri í október. KV er í 7. sæti deildarinnar, hefur unnið sex leiki, en Þór í 10. sætinu með þrjá sigra.

  • 1. deild karla í körfuknattleik
    Meistaravellir kl. 19
    KV - Þór

SUNNUDAGUR 25. JANÚAR - handbolti

Keppni í kvennadeild Kjarnafæðimótsins í knattspyrnu heldur áfram og á sunnudag er komið að Þór/KA2 að sækja Dalvíkinga heim. Þór/KA2 hefur spilað einn leik, vann Völsung, en Dalvík er með eitt jafntefli og eitt tap til þessa. 

  • Kjarnafæðimótið í knattspyrnu, kvennadeild
    Dalvíkurvöllur kl. 14
    Dalvík/Reynir - Þór/KA2

- - -

KA/Þór tekur á móti Fram í 14. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik á laugardag. KA/Þór er í 7. sæti deildarinnar með 11 stig, en Fram er í 4. sætinu með 13. stig. KA/Þór vann fyrri viðureignina við Fram, 30-29, þegar liðin mættust syðra í október.

  • Olísdeild kvenna í handknattleik
    KA-heimilið kl. 15:30
    KA/Þór - Fram

- - -

Það verða að vísu ekki Akureyrarlið sem mætast í leik í kvennadeild Kjarnafæðimótsins í knattspyrnu í Boganum á sunnudag, en þó ekki ólíklegt að annað liðið eða bæði fái lánaða leikmenn úr Þór/KA til að fylla í hópinn. Tindastóll og Völsungur mætast í Boganum á sunnudag.

  • Kjarnafæðimótið í knattspyrnu, kvennadeild
    Boginn kl. 17
    Tindastóll - Völsungur