Fara í efni
Íþróttir

Körfubolta-Þórsarar bjóða upp á „tvíhöfða“

Hrefna Ottósdóttir og Reynir Róbertsson verða bæði í eldlínunni með samherjum sínum í Höllinni í dag. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Kvenna- og karlalið Þórs í körfubolta eiga bæði mikilvægan leik fyrir höndum á Íslandsmótinu í dag. Leikið verður í Íþróttahöllinni á Akureyri; kvennaliðið fær Grindavík í heimsókn kl. 17.00 og karlarnir mæta liði Skallagríms kl. 19.15.

Grindavík vann fyrsta leikinn gegn Þór í átta liða úrslitum Íslandsmótsins á heimavelli sínum, Smáranum í Kópavogi, með sjö stiga mun, 94:87. Sigra þarf í þremur leikjum til þess að komast áfram í undanúrslit.

Liðin mættust í undanúrslitum bikarkeppninnar á dögunum þar sem Þór sigraði og fór í úrslit. Grindvíkingar eru sterkari á pappírnum því lið þeirra varð í öðru sæti deildarinnar en Þórsarar í því sjöunda, en spennandi verður að sjá hvað Stelpurnar okkar gera í dag; liðið er þekkt fyrir mikla baráttu, stemningu og leikgleði, og sýndi í Laugardalshöllinni um daginn að það getur sigrað Gríndvíkinga.

Staðan er jöfn í einvigi karlaliðs Þórs og Skallagríms eftir tvo leiki í úrslitakeppni 1. deildar. Skallagrímur vann fyrsta leikinn með tveggja stiga mun á Akureyri, 95:97, en Þórsarar svöruðu í sömu mynt og unnu með tveggja stiga mun í Borgarnesi, 89:87.

Þegar Þórsstrákarnir ná sér á strik standa þeir hvaða liði sem er í deildinni snúning og ekki er síður mikilvægt fyrir þá en stelpurnar að sigra í kvöld. Það lið sem sigrar í þremur leikjum kemst áfram í undanúrslit keppninnar um sæti í efstu deild næsta vetur.