Fara í efni
Íþróttir

Handbolti: Þórsarar töpuðu heima gegn ÍBV

Brynjar Hólm Grétarsson var áberandi bæði í sókn og vörn Þórs í dag. Hann gerði sex mörk í leiknum. Myndir: Ármann Hinrik

Þórsarar fengu ÍBV í heimsókn í fyrsta leik 15. umferðar OIísdeildar karla í handknattleik í dag. ÍBV náði ágætri forystu í fyrri hálfleik og Þórsarar þurftu að elta allan tímann. Þrátt fyrir ágæta spretti Þórsara á köflum voru slæmu kaflarnir lengri og forskot gestanna var í lítilli hættu. Lokatölur 32:27 ÍBV í hag, í leik þar sem vítakast var dæmt á 200 sekúndna fresti!

Jafnt var á flestum tölum framan af leik en í stöðunni 9:8 fyrir ÍBV náðu þeir að skora fimm mörk í röð og ná þægilegri sex marka forystu. Þórsarar fóru illa með góð færi, misnotuðu meðal annars tvö vítaköst og þá vörðu markverðir liðsins ekki bolta á meðan starfsbróðir þeirra í Eyjamarkinu sýndi góða takta. En Þórsarar voru ekki á þeim buxunum að leggja árar í bát alveg strax og á síðasta þriðjungi hálfleiksins nöguðu þeir forskot gestanna niður smám saman. Nikola fór að verja í Þórsmarkinu og þegar þrjár mínútur voru til leikhlés var munurinn aðeins eitt mark, 15:14. ÍBV skoraði síðasta mark hálfleiksins úr víti og staðan 16:14 í hléi.

Halldór Kristinn Harðarson gerði fimm mörk í dag. Hér brunar hann í átt að marki ÍBV.

Þórsarar náðu ekki að bíta frá sér í seinni hálfleik

Þórsurum tókst ekki að halda uppteknum hætti eftir hlé og þjarma að gestunum. Vestmanneyingar byrjuðu betur og eftir 5 mínútna leik var forskotið orðið 5 mörk. Því forskoti héldu Eyjamenn fram yfir miðjan seinni hálfleik og bættu síðan aðeins í. Þegar rúmar sjö mínútur lifðu leiks var ÍBV 29:21 yfir og vonin orðin lítil hjá Þór. En eins og oft áður tóku þeir þá við sér en það var bara orðið of seint. Eins og oft áður. Þó að þeim tækist að minnka muninn niður í 3 mörk, 30:27 þegar tvær mínútur voru eftir, þá voru það gestirnir sem skoruðu tvö síðustu mörkin og tryggðu sér öruggan sigur, 32:27.

Þórsurum tókst því ekki að fylgja á eftir góðum leik gegn Valsmönnum, sem þeir töpuðu mjög ósanngjarnt, og liðið er ennþá í næstneðsta sæti deildarinnar. Of margir tapaðir boltar í dag og einnig segir það sína sögu að gestirnir fengu samtals tíu vítaköst og skoruðu úr þeim öllum. Þórsarar fengu litlu færri, eða 8 víti, en nýttu bara 6 þeirra. 

Oddur Gretarsson brýst í gegnum vörn ÍBV í dag. Hann gerði níu mörk í dag, þar af fjögur af vítalínunni.

Landsleikjahlé framundan fyrir lokasprettinn í deildinni

Næsti leikur Þórs er ekki fyrr en í byrjun febrúar og þennan tíma verður liðið að nýta til að ná vopnum sínum. Botnbaráttan í deildinni er hörð og mikilvægt fyrir Þór að hala inn stig þennan síðasta þriðjung deildarkeppninnar sem eftir er.

Mörk Þórs: Oddur Gretarsson 9 (5 víti), Brynjar Hólm Grétarsson 6, Halldór Kristinn Harðarson 5 (1 víti), Þórður Tandri Ágústsson 4, Arnór Þorri Þorsteinsson 2, Hákon Ingi Halldórsson 1.

Varin skot: Nikola Radovanovic 10, Patrekur Guðni Þorbergsson 0.

Mörk ÍBV: Dagur Arnarsson 12 (10 víti), Daníel Þór Ingason 8, Haukur Leó Magnússon 5, Andri Erlingsson 4, Ívar Bessi Viðarsson 2, Anton Frans Sigurðsson 1.

Varin skot: Morgan Goði Garner 10 (1 víti).

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz

Staðan í deildinni

Daniel Birkelund þjálfari Þórs og Gunnar Líndal Sigurðsson aðstoðarþjálfari liðsins ræða saman í Höllinni í dag. Lengst til vinstri er Sigurður Ringsted Sigurðsson, til hægri situr Þormar Sigurðsson og Igor Chiseliov stendur fyrir aftan varamannabekkinn.