Íþróttir
Komist KA áfram fer liðið til Serbíu eða Póllands
21.07.2025 kl. 12:28

Hallgrímur Mar Steingrímsson, til hægri, eftir að hann skoraði seinna mark KA í sigrinum á ÍA um helgina. Til vinstri er Guðjón Ernir Hrafnkelsson. Mynd: Ármann Hinrik.
Komist KA-menn áfram í Sambandsdeild Evrópu í knattspyrnu, eftir tveggja leikja einvígi við danska liðið Silkeborg, mæta þeir annað hvort Novi Pazar frá Serbíu eða Jagiellonia frá Póllandi, í 3. umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar. Dregið var í morgun í höfuðstöðvum Knattspyrnusambands Evrópu í Sviss.
Fyrri leikur KA og Silkeborg verður í Danmörku á miðvikudaginn og sá seinni á Akureyri á fimmtudagskvöld í næstu viku.
Keppni í efstu deild í Danmörku hófst um helgina. Silkeborg, sem KA mætir á miðvikudaginn, tapaði 3:0 fyrir Bröndby á útivelli í gær.