Fara í efni
Íþróttir

Keppa til úrslita í bogfimi í Slóveníu

Anna María Alfreðsdóttir á æfingu ásamt föður sínum, Alfreð Birgissyni, í pínulítilli aðstöðu bogfimifólks í Íþróttahöllinni á Akureyri. Mynd: HarIngo

Anna María Alfreðsdóttir, bogfimikona úr íþróttafélaginu Akri, keppir í fyrramálið ásamt liðsfélögum til úrslita í liðakeppni kvenna á Veronika's Cup 2023 í Kamnik í Slóveníu. Íslenska liðið mætir liði Lúxemborgar í úrslitaviðureigninni. 

Stelpurnar í íslenska liðinu unnu til silfurverðlauna á Evrópubikarmóti ungmenna í U21 árs flokki fyrir viku síðan og eru nú að standa sig vel á heimslistamóti fullorðinna. Ásamt Önnu Maríu eru í liðinu Freyja Dís Benediktsdóttir og Þórdís Unnur Bjarkadóttir. Þær eru allar ungar að árum, 15-20 ára, og hafa stundað bogfimi í 2-4 ár. 

Keppnisaðstæður hafa verið erfiðar á mótinu að því er fram kemur í frétt á archery.is. Keppnisdagarnir hafa verið langir, um 12-14 tímar af keppni á hverjum degi, aðstæður krefjandi og fjölbreyttar. Mikil rigning á keppnissvæðinu olli töfum á keppninni og hægði á öllu. Erfiðara var að komast um svæðið þar sem það var á floti eða orðið að leðju og keppendur skutu hægar þar sem erfiðara var að fóta sig og miða. 


Anna María (fremst á mynd) ásamt liðsfélögum. Mynd: Archery.is.

Stelpurnar unnu yfirburðasigur á Slóvakíu í undanúrslitum liðakeppninnar, 216-191, og mæta liði Lúxemborgar í úrslitaviðureign klukkan sjö í fyrramálið að íslenskum tíma. Viðureignin verður í beinni á YouTube-rás Evrópska bogfimisambandsins (World Archery Europe).