Kennarinn setur sig í spæjarahlutverkið

„Kannski er ég búinn að lesa yfir mig af glæpasögum en einhvern veginn finnst mér eins og kennarastarfið hafi síðustu ár þróast æ meira yfir í löggu- og bófahasar þar sem kennarinn þarf að setja sig í spæjarahlutverkið og reyna að fletta ofan af meintum misyndismönnum. Inntakið fer að snúast um glæp og refsingu en minna um uppfræðslu, hvatningu og leiðsögn.“
Þetta segir Stefán Þór Sæmundsson í pistli dagsins fyrir Akureyri.net. Stefán, sem hefur kennt íslensku við Menntaskólann á Akureyri í ríflega 30 ár.
„Flestir kannast nú við það að nemendur skili ritgerðum sem afi þeirra hefur skrifað, mamma þeirra las aðeins of vel yfir eða verkið var hreinlega fengið „að láni“ hjá öðrum nemanda, jafnvel frá fyrra ári. Í heimildaritgerðum hefur svo stundum borið við að texti er tekinn orðréttur eða of lítið breyttur inn án þess að geta heimilda og hafa jafnvel doktorsnemar og virtir fræðimenn brennt sig á þessu þannig að framhaldsskólanemum er nokkur vorkunn,“ segir Stefán og snýr sér síðan að kjarna málsins – „njósnum í æðra veldi með útbreiðslu gervigreindar. Hvernig getum við séð hvort textinn sem nemandinn skilar kemur frá gervigreind?“
Hann segir: „Í dag er staðan svo orðin þannig að pólarnir tveir, kennarinn og nemandinn, eru komnir í harðsnúið hernaðarbrölt með nýjustu vopnum gervigreindar og hvað verður þá um hina eftirsóknarverðu gagnvirkni í tímum og gefandi samveru? Og hvað verður um nám nemenda?“
Pistill Stefáns Þórs: Njósnir í skólastofunni