Fara í efni
Íþróttir

KA-ÍBV í dag og mikil spenna framundan

KA-maðurinn Ingimar Torbjörnsson Stöle og Guðjón Ernir Hrafnkelsson leikmaður ÍBV þegar liðin mættust síðast í Bestu deildinni á Greifavellinum, í september 2023. Þeir eru nú samherjar því Guðjón Ernir gekk til liðs við KA fyrir þetta keppnistímabil. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA tekur á móti ÍBV í dag í 18. umferð Bestu deildar karla, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Óhætt er að segja að spennan sé mikil því þegar fimm umferðir eru eftir þar til deildinni verður skipt í tvennt er staðan svo jöfn að með ólíkindum er.

Að 22 umferðum loknum halda sex efstu liðin áfram keppni um Íslandsmeistaratitilinn en sex þau neðri mætast einnig innbyrðis og tvö neðstu falla.

Valur, Víkingur og Breiðablik skera sig nokkuð úr í efstu sætunum en Fram, sem er í fjórða sæti með 25 stig, hefur aðeins sex stigum meira en KA í 10. sæti og KA er einungis fjórum stigum á eftir Vestra sem er í sjötta sæti þegar 15 stig eru enn í pottinum. Staða liðanna getur því gjörbreyst.

  • Besta deild karla í knattspyrnu, 18. umferð
    Greifavöllurinn kl. 16:30
    KA - ÍBV

Fyrri leik KA og ÍBV í sumar lauk með markalausu jafntefli í Eyjum en síðast þegar þau mættust í deildarleik á Akureyri sigruðu KA-menn 2:1. Það var í september 2023, Eyjamenn féllu um haustið en komu aftur upp í efstu deild fyrir þessa leiktíð.

ÍBV er í sjöunda sæti deildarinnar með 21 stig í sjöunda sæti, einu sæti frá efri hlutanum en einnig er stutt niður á botninn.

Þrír aðrir leikir eru á dagskrá í dag:

  • Vestri - Fram
  • Valur - Breiðablik
  • Víkingur - Stjarnan

Síðustu tveir leikir umferðarinnar verða á morgun:

  • FH - ÍA
  • KR - Afturelding

Staðan í deildinni

Leikir sem KA á eftir í hinni hefðbundnu deildarkeppni:

  • KA - ÍBV
  • Afturelding - KA
  • KA - Fram
  • Stjarnan - KA
  • KA - Vestri