Jafntefli KA-manna í sex marka leik

KA og Afturelding gerðu jafntefli í bráðskemmtilegum sex marka leik í Mosfellsbæ í dag, í 19. umferð Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. KA-menn náðu þrisvar forystu í leiknum, Hallgrímur Mar Steingrímsson gerði þriðja mark þeirra þegar fimm mínútur voru eftir en aðeins leið um mínúta þar til Afturelding hafði jafnað enn einu sinni og þar við sat. Lokatölur 3:3.
KA er í níunda sæti deildarinnar þegar þrjár umferðir eru eftir af hefðbundinni deildarkeppni; áður en deildinni verður skipt í tvennt. KA-menn eru þó einungis tveimur stigum á eftir FH-ingum, sem eru í sjötta sæti, því síðasta í efri hlutanum, og Fram sem er í sjöunda sæti. Raunar mætti segja að KA sé þremur stigum á eftir því markamunur liðsins er svo mikið lakari en liðanna tveggja og vert að geta þess að Fram á leik við KR annað kvöld til góða.
KA-menn byrjuðu miklu betur og Ásgeir Sigurgeirsson hafði skotið í þverslá og Ívar Örn Árnason í stöng áður en Guðjón Ernir Hrafnkelsson braut ísinn eftir rúmlega 20 mínútur. Guðjón skoraði þá með föstu skoti frá vítateigslínu.
Staðan var 1:0 í hálfleik en strax á upphafsmínútum seinni hálfleiks jafnaði Georg Bjarnason og skömmu síðar fékk Benjamin Stokke kjörið tækifæri til að ná forystunni fyrir Aftureldingu þegar liðið fékk vítaspyrnu. En þá var Steinþóri Má Auðunssyni að mæta; Stubbur, eins og KA-menn kalla hann, er ótrúlega naskur við slíkar aðstæður, hann varði víti í Evrópuleiknum gegn Silkeborg fyrir skemmstu og í dag las hann hug Stokkes eins og opna bók og varði vítaspyrnuna snilldarlega.
Ekki leið á löngu þar til dæmt var víti við hinn enda vallarins og Hallgrímur Mar Steingrímsson var öryggið uppmálið þegar hann skoraði og kom KA í 2:1.
Nýr leikmaður Aftureldingar, Luc Kassi, skoraði með glæsilegum skalla þegar um það bil 10 mínútur voru eftir þannig að aftur varð staðan jöfn, en þegar aðeins fimm mín. voru eftir komst KA enn yfir eins og fram kom í upphafi. Sérlega vel var að því marki staðið. Afturelding fékk hornspyrnu en KA-menn náðu boltanum og sneru vörn í sókn – og það var alvöru skyndisókn. Guðjón Ernir Hrafnkelsson brunaði fram hægri kantinn með boltann, sendi inn á vítateig á Ingimar Stöle sem átti stutta en hárnákvæma sendingu á Hallgrím Mar og hann þakkaði kærlega fyrir sig með því að skora úr miðjum vítateignum. Glæsilega gert en þetta annað mark Hallgríms dugði illu heilli ekki til sigurs því aðeins einni mínútu síðar lá boltinn í þriðja sinn í markneti KA. Aron Jóhannsson skoraði þá með hörkuskalla eftir fyrirgjöf.
KA á þessa leikir eftir í deildinni:
- KA - Fram
- Stjarnan - KA
- KA - Vestri