Fara í efni
Íþróttir

Íslandsmót golfklúbba hefst á fimmtudag

Nýkrýndir Akureyrarmeistarar, þau Víðir Steinar og Lilja Maren, verða í eldlínunni með sveitum GA í 1. deild. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Íslandsmót golfklúbba í 1. deild hefst á fimmtudag og stendur fram á laugardag. Lið frá Golfklúbbi Akureyrar eru meðal sveita sem etja kappi um Íslandsmeistaratitilinn, bæði í kvenna- og karlaflokki. Karlasveitirnar leika á Leirdalsvelli Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar en kvennasveitirnar spila á Jaðarsvelli á Akureyri. Kvennasveit GA öðlaðist þátttökurétt í 1. deildinni eftir að hafa borið sigur úr býtum í 2. deild í fyrra.

Átta lið keppa í hvorri deild og er þeim skipt í 2 fjögurra liða riðla þar sem allir leika við alla. Tvö efstu liðin í hvorum riðli komast í undanúrslit og leika um sæti 1.-4. en tvö neðstu liðin leika um sæti 5.-8. Liðin sem hafna í sætum 7 og 8 falla síðan í 2. deild.

Í hverri viðureign í karlaflokki leika 7 keppendur hvers liðs hverju sinni en 6 keppendur hjá konunum. Keppt er í holukeppni, bæði í fjórmenningi (tveir spila saman gegn tveimur) og tvímenningi (einn spilar gegn einum). Þetta keppnisfyrirkomulag er mjög skemmtilegt fyrir áhorfendur og ástæða til að hvetja fólk til að gera sér ferð upp á Jaðar til að fylgjast með bestu kvenkylfingum landsins eigast við.

Lið GA eru þannig skipuð að í kvennasveitinni eru þær Björk Hannesdóttir, Ragnheiður Svava Björnsdóttir, Lilja Maren Jónsdóttir, Andrea Ýr Ásmundsdóttir, Kara Líf Antonsdóttir, Amanda Guðrún Bjarnadóttir og Arna Rún Oddsdóttir. Liðsstjóri kvennasveitarinnar er Ólafur Gylfason. Karlasveitina skipa síðan Mikael Máni Sigurðsson, Óskar Páll Valsson, Eyþór Hrafnar Ketilsson, Tumi Hrafn Kúld, Víðir Steinar Tómasson, Veigar Heiðarsson, Valur Snær Guðmundsson og Heiðar Davíð Bragason, sem er spilandi liðsstjóri.

Eins og akureyri.net hefur greint frá er Veigar í Bandaríkjunum að keppa á sterkasta unglingamóti heims og má búast við að hann missi e.t.v. af fyrsta keppnisdegi Íslandsmótsins.

Keppni hefst í bæði kvenna- og karlaflokki árla fimmtudags. Á Jaðarsvelli hefur kvennasveit GA leik kl. 8, gegn sveit Golfklúbbs Mosfellsbæjar og leikur síðan gegn GKG eftir hádegi.