Fara í efni
Fréttir

Ingvar hættur eftir 35 ár á Sjúkrahúsinu

Mynd af vef SAk

„Ég hef starfað hér í 35 ár og hálfu ári betur. Það hefur langoftast verið bæði gaman og gefandi,“ segir Ingvar Teitsson gigtarlæknir á vef Sjúkrahússins á Akureyri í morgun, en hann lætur nú af störfum eftir farsælan feril við stofnunina. Ingvar hefur sinnt sjúklingum með gigtarsjúkdóma og sykursýki.

Á vef SAk kemur fram að Ingvar lauk prófi í læknisfræði árið 1978 og tók kandídatsár sitt á Íslandi. Hann fékk lækningaleyfi árið 1980, að lokinni héraðsskyldu sem þá var í gildi. Árið 1983 varði hann doktorsritgerð sína við Lundúnaháskóla, byggða á rannsóknum á iktsýki. Þremur árum síðar, árið 1986, lauk hann MRCP-sérfræðiprófi í lyflækningum.

Ingvar starfaði sem læknir í fimm og hálft ár í Skotlandi, fyrst við Royal Infirmary í Glasgow og síðar sem aðstoðarsérfræðingur við Aberdeen Royal Infirmary. Sumrin 1986–1988 starfaði hann jafnframt á Akureyri.

Árið 1989 flutti Ingvar aftur heim og tók við lektorsstöðu við Háskólann á Akureyri, samhliða störfum á Kristnesspítala og í sérfræðiþjónustu SAk við Eyrarlandsveg. Hann gegndi kennslustörfum við Háskólann frá 1989 til 2016, fyrst sem lektor og síðar sem dósent – alls í 27 ár. „Ég naut þess að kenna, lýsa hlutum og ræða við nemendur,“ segir Ingvar um sinn kennsluferil.

Um starfið sem læknir á SAk segir hann: „Það hafa skipst á skin og skúrir í starfinu – það eru ekki alltaf jólin – en langoftast hefur þetta verið gefandi og gaman. Ég vann að mestu einn. Sumir sjúklingar hafa verið lengi hjá mér – ég kvaddi nýverið einstakling sem kom fyrst til mín árið 1989. Í sumum tilvikum þarf að horfa lengra en frá ári til árs – jafnvel frá áratugi til áratugar.“

Ingvar verður kvaddur formlega við hátíðlega athöfn á Sjúkrahúsinu á Akureyri í haust. Þar mun hann flytja heiðurserindi, þar sem hann lítur yfir farinn veg og deilir reynslu sinni – með sérstakri áherslu á það sem aðrir gætu lært af.

„Sjúkrahúsið á Akureyri þakkar Ingvari innilega fyrir sitt framlag í þágu sjúklinga og samfélagsins á Norðurlandi,“ segir á vef stofnunarinnar.