Fara í efni
Íþróttir

Ice Cup: Heimsþekktur krullusvellsmaður keppti

Mark Callan er ágætur í krullu þó hann verji meiri tíma í að útbúa krullusvell fyrir aðra en að spila sjálfur. Hér rennir hann steininum og Kristján Bjarnason gerir sig kláran fyrir næsta stein. Mynd: Sigurjón Pétursson

Skotinn Mark Callan er að heiman um 280 daga á ári vegna vinnu sinnar, en hann er í fullu starfi hjá Alþjóða krullusambandinu (WCF) og fer víða um heim til að undirbúa og sjá um svell á stærstu krullumótum heims á hverju ári. Hann á meðal annars að baki þrenna Ólympíuleika, sem ísgerðarmaður, en ekki sem krulluspilari.

Í fyrri umfjöllun okkar um Ice Cup krullumótið ræddum við meðal annars við Camillu Jensen, silfurverðlaunahafa á HM 2007. Mark Callan er góðvinur Camillu og liðsfélagi hennar á Ice Cup sem fram fór í Skautahöllinni á Akureyri um liðna helgi. Mark er krullufólki á Akureyri að góðu kunnur. Hann er nýkominn frá Suður-Kóreu þar sem hann sá um að útbúa svellið fyrir Heimsmeistaramótið í tvenndarleik (mixed doubles). „Núna á ég nokkurra daga frí og hvað er betra en að verja þeim á Íslandi?“ segir Mark um heimsókn sína hingað. Hann segir það alltaf áskorun að útbúa gott krullusvell og að mörgu að hyggja í frekar þröngum tímaramma.

Callan sem kyndir ofninn minn

Mark er kannski eins og konan sem kyndir ofninn minn því hann er í fullu starfi hjá Alþjóða krullusambandinu, WCF, og vinnur við að útbúa svell fyrir krullufólk í fremstu röð um allan heim, sem hann spilar svo aldrei á sjálfur. Hann segist aðspurður oft hafa verið að heiman um 280 daga á ári, fyrir heimsfaraldurinn, en það sé aðeins minna núna.

„Ég nýt þess að spila krullu, þetta er flótti fyrir mig. Ég vinn við að útbúa svell, það er mitt fag. En ég fæ ekki að njóta þess, ekki samt misskilja mig, ég vil alltaf gera mjög gott krullusvell fyrir fólk að spila á. Yfirleitt fæ ég ekki tækifæri til að spila á því, en þegar það gefst er það mjög gaman.“

Hann er líklega hættur að telja öll mótin sem hann hefur unnið við, en segir aðspurður að Ólympíuleikarnir séu eftirminnilegastir. „Ég hef verið á þrennum Ólympíuleikum. Fyrst í Sochi 2014, síðan Pyongyang 2018 og svo Beijing 2022. Ólympíuleikarnir eru mjög sérstakir. Það er mikil vinna, en mjög gefandi,“ segir hinn skoski Mark Callan, ísmaður og krullari sem er sjaldnast heima hjá sér.

Gólfplatan var á hreyfingu

Mark kom fyrst til Akureyrar fyrir 11 árum og aðstoðaði heimamenn þá við að undirbúa svellið fyrir Ice Cup, kenndi þeim heilmikið um tækni og aðferðir í því sambandi. Hann glottir líka þegar hann er spurður um muninn á svellinu núna og þá, eða fyrir og eftir að byggð var ný gólfplata undir svellið. Ice Cup féll reyndar niður 2016, einmitt vegna framkvæmda við gólfplötuna.

Mark segir sannarlega mikinn mun fyrir og eftir framkvæmdirnar. „Ég kom hingað síðast fyrir 11 árum og okkur grunaði þegar við vorum að vinna við svellið að gólfplatan væri á hreyfingu. Allir andmæltu því þá, en nokkrum árum síðar sögðu þeir jú, kannski er það rétt hjá þér. Það kostaði mikið að laga það, en gólfið er gott og gæðin á krullusvellinu núna eru mikil. Undirbúningsnefndin fær mikið hrós fyrir að vinna gott verk,“ segir einn þekktasti ísmaður heims.

Hvað sem góðri gólfplötu líður í Skautahöllinni þá er það draumur krullufólks að eignast sitt eigið hús þar sem aðeins yrði spiluð krulla, en skautar kæmu aldrei þar inn. Við höfum áður fjallað um Gwen Krailo, bandaríska krullukonu, sem vill hjálpa akureyrsku krullufólki við að láta þann draum rætast.


Ben Wiegers sendir steininn eftir svellinu. Miklu skiptir að svellið sé slétt svo steinarnir fari ekki út og suður. Liðsfélagarnir í Team Ótrúlegt, Freddy Frost og Ungbarn (!) Koko, sópa. Mynd: Þóra Hrönn Njálsdóttir.