Fara í efni
Íþróttir

Ice Cup krullumótið: 70 erlendir keppendur

Árni Grétar Árnason og Hallgrímur Valsson hefla svellið og gera það klárt fyrir alþjóðlega krullumótið Ice Cup sem fram fer 4.-6. maí í Skautahöllinni á Akureyri. Myndir: Haraldur Ingólfsson

Um 70 erlendir krullarar – ekki þó hárgreiðslufólk – er á leiðinni til Akureyrar. Fólkið kemur hingað til að taka þátt í alþjóðlega krullumótinu Ice Cup sem fram fer í Skautahöllinni á Akureyri 4.-6. maí. Mótið verður sett í kvöld og keppni hefst í býtið í fyrramálið. Spilað verður á morgun, föstudag og fram á miðjan dag á laugardag þegar úrslitaleikir fara fram.

Mótið hefur verið haldið undir heitinu Ice Cup og hefur aðsókn erlendra liða aldrei verið meiri en nú. Von er á 17 erlendum liðum með um 70 leikmönnum á mótið, en að auki taka sjö innlend lið þátt. Samtals etja því 24 lið kappi í Skautahöllinni á Akureyri á fimmtudag, föstudag og laugardag og keppendur um 100 talsins. Keppendur að þessu sinni koma flestir frá Bandaríkjunum, eins og á flestum mótunum hingað til, en einnig er von á keppendum frá Danmörku, Englandi, Hollandi, Kanada og Sviss.

Sérstakur íshefill er notaður þegar breyta þarf skautasvelli í krullusvell. Árni Grétar Árnason og Hallgrímur Valsson, félagar í krulludeild Skautafélags Akureyrar kunna þetta allt upp á tíu.

Nokkur erlendu liðanna sem taka þátt eru að koma í annað eða þriðja skiptið og eitt lið er að mæta hingað í sjötta skipti. Sem dæmi um áhugann á mótinu má nefna að í ár voru tíu lið á biðlista eftir að fá að taka þátt og nokkur þeirra hafa þegar óskað eftir að bóka pláss á mótinu á næsta ári.

Tuttugu ár frá fyrsta mótinu

Í ár eru 20 ár frá því að Krulludeild Skautafélags Akureyrar hélt sitt fyrsta mót þar sem erlendir keppendur tóku þátt. Þetta er þó ekki 20. mótið því þrisvar hefur það fallið niður, fyrst vorið 2016 vegna framkvæmda við gólfplötuna undir svellinu. Krullan fékk svo að finna fyrir heimsfaraldrinum eins og fleiri og mótið var ekki haldið vorin 2020 og 2021.

Fyrsta mótið undir heitinu Ice Cup var haldið í maíbyrjun 2004, en áður hafði krulludeildin haldið hálfalþjóðlegt mót vorið 2003 undir heitinu Gimli Cup. Þá kom til landsins krullufólk úr dönskum klúbbi, Tårnby Curling Club, sem akureyrskt krullufólk hefur verið í góðu sambandi við æ síðan og oft tekið þátt í mótum hjá danska klúbbnum.

Hallgrímur Valsson er yfirbólari þegar kemur að því að undirbúa svellið fyrir Ice Cup krullumótið og þá 100 keppendur sem taka þátt. 

Einn þátttakandinn að þessu sinni er einmitt frá danska klúbbnum, Camilla Jensen, en hún hefur áður komið hingað og tekið þátt, fyrst 2007 þegar hún og félagar hennar í danska landsliðinu höfðu þá nýlega unnið til silfurverðlauna á Heimsmeistaramótinu. Með Camillu í liði er maður að nafni Mark Callan, en hann er þekktari í krulluheiminum fyrir að vinna við undirbúning á krullusvelli en að spila íþróttina sjálfur. Hann hefur verið yfirísgerðarmaður á fjölmörgum stórmótum um allan heim í mörg ár. Eitt vorið mætti hann snemma á Ice Cup og aðstoðaði heimamenn og kenndi þeim réttu tökin og tæknina við að undirbúa svellið sem best.

Mikil vinna við undirbúning á svellinu

Ice Cup krullumótið er haldið í lok vertíðar hjá Skautafélaginu því krulluíþróttinn þarfnast sléttara og betra svells en þörf er á fyrir skautaíþróttirnar. Meðlimir í krulludeild SA fengu svellið til umráða eftir að síðasta almenningstíma vetrarins lauk á laugardag. Það sem gera þarf fyrir krullumótið er að jafna svellið og er þá fyrst heflað með Zamboni-heflinum og notaður leiserbúnaður til að ná svellinu jöfnu. Að því loknu er svellið svo flætt tvisvar til þrisvar til að ná því alveg jöfnu og eftir það fara krullumenn yfir það með sérstökum ísheflum til að ná því sem bestu.

Þegar svo kemur að því að spila krullu þarf að úða vatni yfir svellið með sérstökum stútum, kallað að „bóla“, því þannig myndast klakabólur á svellinu sem krullusteinarnir renna eftir. Þau eru því mörg skrefin og handtökin, margar vinnustundir sjálfboðaliða sem fara í að undirbúa svellið – breyta því úr skautasvelli í krullusvell. Á milli leikja þarf svo einnig að hefla, moppa og bóla, hreinsa snjó, lausan ís og óhreinindi sem berast á svellið og gera það klárt fyrir næsta leik.

Árni Grétar Árnason stýrir Icemaster-ísheflinum. 

Það er nákvæmnisverk að útbúa krullusvell.