Fara í efni
Umræðan

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Árið 2022 ákvað ég að skrá mig í nám í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Strax í upphafi námsins var fjallað um þjóðhætti og daglegt líf í íslensku sveitasamfélagi fyrri tíma. Þar var rit Jónasar frá Hrafnagili, Íslenzkir þjóðhættir, grunnurinn að lesefni námskeiðsins „Lúsakambar, hlandkoppar og kynlíf: Þjóðhættir og daglegt líf í sveitasamfélaginu“. Það kom sér vel að eiga eintak af bók Jónasar en hana hafði ég fengið fyrir góðan námsárangur þegar ég var í unglingaskólanum að Hrafnagili fyrir tæpum 40 árum. Bókinni hafði lítið verið flett enda þjóðlíf og þjóðhættir fyrri tíma ekki á áhugasviði unglingsins. Síðar sómdi skreyttur kjölur hennar sér vel í hillu heimilisins en hún sjaldan tekin niður til flettingar. Núna eftir nokkrar annir í náminu er bókin orðin töluvert slitnari enda má segja að hún sé eitt af höfuðritum þjóðfræðinnar. Áhugi minn kviknaði líka á því hver höfundur bókarinnar var, hann var jú kenndur við Hrafnagil sem er í Eyjafirði, mínum heimaslóðum. Ekki varð áhuginn minni þegar ég komst að því að hann var fæddur og uppalinn innst í Eyjafirði, ekki svo langt frá mínu eigin bernskuheimili.

Jónas fæddist 7. ágúst 1856 á Úlfá í Eyjafirði sem var bær innan við Hólsgerði sem núna er innsti bær í Eyjafirði]. Þar ólst hann upp fram á unglingsár þegar hann flytur með foreldrum sínum að Tungnahálsi í Skagafirði. Í Skagafirði fékk hann góða handleiðslu fyrir Prestaskólann í Reykjavík þaðan sem hann útskrifaðist 1880 með fyrstu einkunn. Honum var þá veitt Landsprestakall í Rangárvallasýslu þar sem hann var í eitt og hálft ár en þá var honum veitt Grundarþing í Eyjafirði þar sem hann var prestur næsta aldarfjórðunginn eða til 1910. Þá bjó hann lengst af á Hrafnagili sem hann var kenndur við. Kona Jónasar var Þórunn Stefánsdóttir og eignuðust þau 8 börn en aðeins 4 synir þeirra komust á legg. Jónas var kennari á Akureyri síðustu starfsárin en meðfram preststörfunum og kennslunni sinnti hann rit- og fræðastörfum. Eftir hann liggja þónokkur skáldverk ásamt þýðingum og fræðaskrifum og má sjá áhrif þeirrar þekkingar sem hann hafði á þjóðlífi og þjóðháttum í skáldverkum hans. Jónas virðist hafa verið fróðleiksfús frá unga aldri og haft góða námshæfileika. Hann bjó vel að því að vera sonur fróðs bændafólks sem bæði studdi hann til náms og lét honum í té ýmsan fróðleik sem nýttist honum í fræðastörfunum. Skömmu fyrir aldamótin 1900 tók Jónas þátt í að svara spurningalista frá þýskum manni, Max Bartels, um trú og siði sem tengdust fæðingu og bernsku á Íslandi. Ef til vill hefur sú þátttaka sáð því fræi sem vakti áhuga Jónasar á að fara að safna áþekku efni síðar meir. Árið 1907 sendir hann sjálfur boðsbréf um allt land þar sem hann falast eftir efni um þjóðlegan fróðleik. Í framhaldinu fer hann að setja efnið saman sem síðar varð að hinu merka riti, Íslenzkir þjóðhættir. Því miður entist Jónasi ekki aldur til að sjá sitt helsta verk koma út. Hann hafði verið heilsulítill frá því hann veiktist á námsárunum og 1917 lét hann af störfum vegna heilsubrests og fluttist til sonar síns, Friðriks Rafnars, sem þá var prestur á Útskálum á Suðurnesjum. Heilsu Jónasar hrakaði og leitaði hann sér lækninga í Reykjavík þar sem hann lést rétt fyrir 62ja ára afmælisdaginn sinn, þann 4. ágúst 1918. Lík hans var flutt til Eyjafjarðar þar sem það var jarðsett.

Eftir að hafa kynnt mér æfi og störf Jónasar fann ég þörf fyrir að vita hvar hann væri jarðaður og hvort þar væri eitthvað minningarmark um hann. Þjóðfræðinámið hefur opnað augu mín á ýmis sjónarhorn bæði í fortíð og samtíð. Þekking mín á lífsháttum forfeðranna og skilningur á lífsháttum þeirra, siðum, venjum, kjörum og hugarfari er önnur en var. Verk Jónasar, Íslenzkir þjóðhættir, höfuðrit þjóðfræðinnar um íslenskt þjóðlíf og þjóðhætti fyrri tíma er einn af þeim máttarstólpum sem sú þekking hvílir á. Mér fannst því eðlilegt sem þjóðfræðinema að sýna honum þá virðingu að vitja legstaðar hans. Að auki langaði mig að sjá með eigin augum hvar hann lægi og hvernig minningarmark væri yfir honum. Það er eitthvað heillandi við það að koma að hinsta hvílustað fólks, ekki síst þeirra sem tilheyra löngu liðinni tíð. Ég lagði því einn fagran sumardag í ferð að finna legstað Jónasar frá Hrafnagili.

Í Eyjafjarðarsveit að austan, gengt hinu stórbrotna fjalli Kerlingu er Munkaþverá, fornt höfuðból og kirkjustaður. Í Munkaþverárkirkjugarði er legstaður séra Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili. Handan árinnar við rætur fjallsins og eilítið norðar er Hrafnagil sem Jónas er kenndur við. Það tekur ekki nema um það bil 20 mínútur að keyra frá Akureyri að Munkaþverá og því ekki löng bílferð þaðan. Þegar komið er að afleggjaranum að Munkaþverá er ekið niður að kirkjunni sem stendur inn í kirkjugarðinum. Garðurinn er gamall og gróin með trjágróðri og þar er bæði fallegt og friðsælt. Legsteinn Jónasar er hár og áberandi og ekki langt frá kirkjunni. Á honum er nafn Jónasar ásamt nafni Þórunnar konu hans og þeirra fjögurra barna sem þau misstu og minnir átakanlega á erfið lífsskilyrði fyrri tíma og barnadauða. Fimm önnur nöfn eru á steininum sem bendir til að þarna hafi nokkur legstæði fengið sameiginlegt minningarmark við endurbætur á garðinum.

Kirkjan er falleg lítil sveitakirkja sem var byggð 1844 og er því 180 ára á þessu ári. En það er fleira áhugavert undir torfu á Munkaþverá en bein Jónasar. Á Munkaþverá var, eins og nafnið gefur til kynna, munkaklaustur í kaþólskum sið. Þar hafa verið gerðar fornleifarannsóknir með það að markmiði að kanna áhrif klaustursins á miðöldum. Fundist hafa minjar sem líklega eru rústir klausturbygginga, áður óþekktur kirkjugarður og mannvistarleifar allt frá landnámsöld. Í kirkjugarðinum er Sturlungareitur þar sem talið er að Sighvatur Sturluson og fleiri Sturlungar sem féllu í Örlygsstaðabardaga hvíli. Einnig má benda á að í trjálundi sunnan við kirkjugarðinn er minnismerki um Jón Arason biskup sem var alinn upp á Grýtu skammt frá Munkaþverá og hlaut menntun í klaustrinu.

Það er því góð hugmynd að fara í bíltúr um Eyjafjörð og heimsækja Munkaþverá, skoða sig um og upplifa þennan sögustað í hjarta Eyjafjarðar. Ég mæli ekki síst með því fyrir þjóðfræðinema, þjóðfræðinga og aðra sem þekkja til fræðastarfa og verka séra Jónasar frá Hrafnagili.

Höfundur er fjarnemi í þjóðfræði við Háskóla Íslands

Heimildaskrá

Jónas Jónasson. (1961). Íslenzkir þjóðhættir. (3. útg.). (Einar Ól. Sveinsson bjó undir prentun). Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.

Minjastofnun Íslands. (e.d.). Munkaþverárkirkja, Eyjafjörður. https://www.minjastofnun.is/is/byggingararfur/fridlyst-hus-og-mannvirki/munkathverarkirkja

Steinunn Kristjánsdóttir, Vala Gunnarsdóttir og Helga Jónsdóttir. (2016). Kortlagning klaustra á Íslandi. Munkaþverá. [Vettvangsskýrsla XVI]. https://steinunn.hi.is/files/2022-09/MUNK_2016.pdf

Þjóðháttadeild Þjóðminjasafns Íslands:

Sarpur. Menningarsögulegt gagnasafn. (sótt 27.mars 2024). Biskup, Minnismerki, Stytta, Trjálundur: (ÞÞ KIRK-262 [myndefni og textalýsing]). https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1984521

Sarpur. Menningarsögulegt gagnasafn. (sótt 27.mars 2024). Fjall, Kirkja: (ÞÞ KIRK-478 [myndefni og textalýsing]). https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1994742

Myndaskrá 

Bókin.is. (e.d.). Jónas Jónasson frá Hrafnagili. [mynd 1]. https://www.bokin.is/index.php?manufacturers_id=2910&osCsid=gkercvcfsjfdh712o3gmreut66

Myndir 2 og 3 eru í eigu höfundar.

Almenningssamgöngur við flugvelli

Þóroddur Bjarnason skrifar
20. júní 2024 | kl. 20:00

Hjúkrunarheimili á Akureyri: Óþolandi staða

Hilda Jana Gísladóttir skrifar
20. júní 2024 | kl. 13:50

Ert þú í tengslum?

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar
14. júní 2024 | kl. 08:58

Lærðu að nota nalaxone nefúða, það getur bjargað lífi

Ingibjörg Halldórsdóttir skrifar
07. júní 2024 | kl. 11:15

Þingmenn opnið augun ­og finnið kjarkinn

Jón Hjaltason skrifar
05. júní 2024 | kl. 15:10

Hvað er að frétta í lífi án frétta?

Skúli Bragi Geirdal skrifar
05. júní 2024 | kl. 12:00