Hundur sem beit konu er í vörslu MAST

Eins og greint var frá í frétt á akureyri.net í gærkvöld varð kona á reiðhjóli fyrir því að laus hundur hljóp að henni og glefsaði í hana. Konan þurfti að leita á bráðamóttöku SAk til að fá stífkrampasprautu og aðhlynningu. Hundurinn er í vörslu Matvælastofnunar (MAST) en ekki hefur verið tekin ákvörðun hjá stofnuninni um næstu skref í málinu.
Hrönn Ólína Jörundsdóttir forstjóri MAST staðfestir í skriflegu svari til akureyri.net að fulltrúar MAST hafi verið í eftirlitsferð á staðnum þegar hundurinn slapp laus og hljóp að konunni. Eftir atvikið hafi hundurinn verið tekinn í þeirra vörslu og verið sé að meta næstu skref, ásamt því að starfsmenn MAST séu í samskiptum við eigandann.
„Það hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun í máli hundsins og eigandans en allar okkar ákvarðanir byggjast á að tryggja velferð hundsins og hvað honum er fyrir bestu. Almennt í málum sem þessum þá byggist ákvörðun okkar á því hvort dýrinu sé er óhætt að snúa aftur heim eða því verði fundið annað heimili,“ segir Hrönn ennfremur.
Hrönn segist harma það innilega að hundurinn skyldi hafa sloppið, það hafi vissulega verið mjög óheppilegt. „Mjög slæmt að hann skyldi glefsa í konu á hjóli. Ég vona innilega að hún jafni sig og geti haldið áfram að hjóla,“ segir að lokum í svari Hrannar.