Fara í efni
Fréttir

Æstur hundur beit konu á reiðhjóli

Konan þurfti að leita til bráðamóttöku SAk eftir atvikið en þakkar buxnaskálm sinni fyrir að sárið varð ekki enn dýpra. Ljósmynd: Aðsend.

Kona sem var á ferð á reiðhjóli í Sandgerðisbótinni á Akureyri síðdegis í gær varð fyrir því að laus hundur hljóp að henni og glefsaði í hana þegar hún hjólaði upp Dvergaholtið. Eftir atvikið þurfti hún að leita á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri, þar sem hún fékk stífkrampasprautu og aðhlynningu.

„Þetta var hræðilegt,“ segir konan í samtali við blaðamann akureyri.net þegar hún rifjar atvikið upp. Andlega áfallið situr ennþá meira í henni heldur en líkamlegu áverkarnir, enda hafi hún verið hrædd við hunda fyrir. Hún lýsir því hvernig hundurinn hafi hlaupið að henni þegar hún hjólaði upp Dvergaholt, verið mjög æstur og endað á því að glefsa í hana. Hún þakkar buxnaskálminni fyrir að sárið skyldi ekki hafa orðið enn dýpra.

Starfsmenn MAST voru á staðnum

Allmörg vitni voru að aðförunum,  auk fólks úr nærliggjandi húsum voru þarna m.a. staddir tveir fulltrúar Matvælastofnunar (MAST). Þeir voru mættir að heimili eiganda hundsins, eftir kvartanir nágranna. Lögregla var einnig kölluð til eftir atvikið og tók skýrslu. Engar frekari upplýsingar fengust um atvikið hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra í dag aðrar en að útkallið vegna hundsins var staðfest.

Konan fékk aðstoð hjá nágrönnum við að ná áttum og jafna sig, enda var henni verulega brugðið. „Ég hjóla mjög mikið og er oft smeyk þegar ég mæti lausum hundum, meðal annars á stígnum meðfram Eyjafjarðarbraut. Ég er ekki viss um að ég þori að hjóla þar núna,“ segir hún.

Starfsmenn MAST tóku hundinn í sína vörslu en ekki tókst að afla upplýsinga um það í dag hvernig afskipti stofnunarinnar af málinu munu þróast.