Fara í efni
Fréttir

Hótel Akureyri teygir sig í norður

Eitthvað í þessa áttina mun götumyndin væntanlega líta út þegar framkvæmdum er lokið við hótelbyggingar að Hafnarstræti 69, 73 og 75. Mynd: Landslag ehf.

Fyrirhugað er að reisa hótelbyggingu á lóð nr. 75 við Hafnarstræti og tengja hana við núverandi hús á lóð nr. 73 með tengibyggingu og hefur skipulagsráð veitt Landslagi ehf., fyrir hönd Hótels Akureyrar, heimild til að leggja fram tillögu um breytingu á deiliskipulagi fyrir Drottningarbrautarreit í samræmi við þau áform.

Nú standa yfir framkvæmdir vegna nýrrar hótelbyggingar á lóð nr. 69 sem tengd verður við núverandi Hótel Akureyri á lóð nr. 67. Fram kom í Morgunblaðinu í gær að í þeirri byggingu sé ætlunin að hefja starfsemi fyrir jól, en þar verði ný móttaka, kaffibar og 52 herbergi. Eigendur hótelsins hyggja nú á enn frekari framkvæmdir örlitlu norðar við götuna. Áform eru um að byggja nýja hótelbyggingu með svipuðu útliti á lóð nr. 75 og tengja hana við núverandi hús á lóð nr. 73 með tengibyggingu, sameina lóðirnar á sama hátt og gert hefur verið með lóðir 67 og 69.

Hér er um sögufræg hús að ræða. Byggingin í Hafnarstræti 67, sem hýsir Hótel Akureyri, er einnig þekkt undir heitinu Skjaldborgarhúsið. Byggingin að Hafnarstræti 73 þekkja lesendur líklega flestir í tengslum við nafnið Dynheima. Því var skipulagsfulltrúa falið að leita umsagnar Minjastofnunar um tillöguna sem um ræðir.

Í umfjöllun Morgunblaðsins er rætt við Daníel Smárason, eiganda Hótels Akureyrar, sem segir spennandi að „geta verið kyndilberar klassískra sjónarmiða hvað varðar útlit og hönnun í þessum nýja hluta miðbæjarins.“ Hann segir húsin glæsileg og eigi sér einstaka sögu sem ætlunin sé að varðveita og því sé vilji til þess að nýbyggingarnar sem rísa verði í takt við þá sögu, en hækki jafnframt þjónustustigið, bæði fyrir heimamenn og gesti.

Fróðleiksmolar um húsin

  • Hafnarstræti 67
    • Húsið er þekkt undir heitinu Skjaldborg. Á bloggsíðu Arnórs Blika Hallmundssonar er fróðleikur um þetta hús. að var reist 1926 sem samkomuhús fyrir Góðtemplarastúkurnar og Ungmennafélag Akureyrar, sem notuðu húsið í nokkra áratugi sem samkomuhús og voru þar meðal annars með kvikmyndasýningar. 
    • Síðar eignaðist Prentsmiðja Björns Jónssonar húsið og þar hóf bókaútgáfan Skjaldborg starfsemi sína. 
    • Skjaldborgarhúsið var tekið til gagngerra endurbóta 1985-90, kvistirnir fjórir þá byggðir á húsið og það byggt upp sem hótel, fyrst undir heitinu Hótel Óðal.
  • Hafnarstræti 73
    • Í blaði sem var hluti af sýningunni Tónlistarbærinn Akureyri skrifaði Skapti Hallgrímsson þetta um húsið að Hafnarstræti 73:
      Snemma á fimmta áratugnum hófu menn að ræða nauðsyn þess að kórinn (Geysir) eignaðist húsnæði. Hann hafði m.a. æft í Menntaskólanum en var oft á hrakhólum, 1944 var kosin nefnd um byggingu æfingahúss og ári síðar festi kórinn kaup á húseigninni Hafnarstræti 73, þar sem m.a. hafði verið bíó, smjörlíkisgerð og samkomusalur Frímúrara. Þorsteinn frá Lóni, lengi ein helsta driffjöður í starfsemi kórsins og einn helsti hvatamaður að kaupunum, lést árið áður en kórinn eignaðist húsið, og var húsið nefnt Lón, í virðingarskyni við Þorstein. Síðar kallaðist Hafnarstræti 73 Dynheimar, þá félagsmiðstöð á vegum Akureyrarbæjar fyrir unglinga, enn síðar Rýmið, þegar Leikfélag Akureyrar hafði það til umráða en þar er nú hótel. Þess má geta að Tónlistarskólinn á Akureyri var stofnaður 1946 og fékk þá inni í Lóni. Rekstur hússins reyndist kórnum erfiður þegar frá leið, húsið var leigt Akureyrarbæ 1971 og selt bænum fjórum árum síðar. Kórinn keypti þá minna húsnæði í Glerárgötu 34 en félagsheimili Karlakórs Akureyrar – Geysis í dag er við Hrísalund, og heitir Lón.“ (Frá því að Skapti skrifaði þennan texta hefur kórinn farið annað, en Hjálpræðisherinn á Akureyri flutti starfsemi sína í Hrísalund 1 (Lón) í byrjun árs 2022.)

Skjaldborgarhúsið, núverandi bygging Hótels Akureyrar. Myndir: HarIngo


Jarðvegsvinna í gangi á lóðinni nr. 69, þar sem mun rísa ný hótelbygging sem tengjast mun Skjaldborgarhúsinu.

Núverandi götumynd. Hótel Akureyri næst á myndinni til vinstri, auð lóð (framkvæmdir) nr. 69, hvítt hús nr. 71, Dynheimahúsið nr. 73 og hvíta húsið með rauða þakinu fjærst á myndinni nr. 77. Á milli þess og Dynheimahússins er áformað að rísi hótelbygging í stíl við Skjaldborgarhúsið, með tengibyggingu við hús nr. 73.