Heimili er ekki „fjárfestingarvara“
„Húsnæðismál og öruggt heimili eru stóru mál allra tíma - bæði samtímans og framtíðarinnar.“
Þannig hefst grein Benedikts Sigurðarsonar um húsnæðismarkaðinn sem akureyri.net birtir í dag. Benedikt, „eftirlaunamaður á Akureyri og fv. framkvæmdastjóri Búfestis hsf.“ eins og hann er kynntur til leiks, hefur skrifað fimm greina flokk sem hann kallar Húsnæðismarkaður í klessu. Fyrsta greinin birtist í dag og hinar næstu daga.
Benedikt segir það gleðiefni að núverandi ríkisstjórn hafi stigið inn í „hörmulegt ástand á yfirverðlögðum markaði - með verðtryggð okurlánakjör frá Helvíti - og viðurkennt í orði að réttur til öruggs heimilis eigi ekki að skoðast sem einhver útgáfa af spákaupmennsku með fjárfestingar – eins og íbúðir séu hver önnur „vara“ til að innleysa hagnað af fjármagninu.“
Fullkomlega óþolandi ástand
í greininni segir Benedikt meðal annars: „Í næstum 100 ár hefur húsnæðiskreppum á Íslandi einungis verið mætt með tímabundnum „átaksverkefnum“ en aldrei hefur tekist að koma á varanlegu og hagkvæmu/fjölskylduvænu kerfi – þar sem breytilegir valkostir hafa staðið öllum til boða – bæði bjargálna fjölskyldum og lakar settum. Nú er ástandið fyrir löngu orði fullkomlega óþolandi fyrir meira en helming landsmanna - eftir markvissan yfirgang viðskiptavæðingar og pólitískrar kreddu frjálshyggjunnar. Öll form neytendalausna eru meira og minna alveg blokkeruð í stærri þéttbýlisstöðum landsins. Samvinnufélög og sjálfseignarfélög fá ekki lóðir eða viðunandi fjármögnun og geta því ekki varið hagsmuni almennings gagnvart fákeppni og yfirgangi fjármagnseigenda.“
Fyrsta grein Benedikts: Heimili er ekki „fjárfestingarvara“