Fara í efni
Íþróttir

Heimaleikjadagskráin: Handbolti og karfa

Þessa vikuna eru aðeins tveir heimaleikir á dagskrá hjá meistaraflokksliðum Akureyrar, handbolti hjá karlaliði KA á fimmtudag og körfubolti hjá karlaliði Þórs á sunnudag. Aðrir leikir akureyrsku liðanna næstu vikuna eru útileikir í íshokkí, blaki, handbolta og körfubolta.

ÞRIÐJUDAGUR 25. NÓVEMBER - íshokkí

Lið Skautafélags Akureyrar og Skautafélags Reykjavíkur hafa mæst tvisvar í A-hluta Toppdeildar karla í íshokkí það sem af er vetri og höfðu Akureyringar betur í bæði skiptin, 9-4 í Egilshöllinni á fyrstu ofurhelginni af þremur og svo 5-4 á Akureyri um miðjan nóvember. Reykvíkingar mættu fámennir norður í þann leik og verður forvitnilegt að sjá hvernig næsti leikur þróast ef bæði lið verða svo gott sem með alla eða flesta sína bestu menn.

  • Toppdeild karla í íshokkí
    Skautahöllin í Laugardal kl. 19:45
    SR - SA

SA Víkingar eru á toppi deildarinnar með 12 stig úr fimm leikjum, hafa unnið fjóra og tapað einum. SR er í 2. sætinu með sex stig úr fjórum leikjum.

MIÐVIKUDAGUR 26. NÓVEMBER blak

Nágrannaslagur er á dagskrá í Unbroken-deild kvenna í blaki í vikunni þegar KA sækir Völsung heim á miðvikudag. KA er í harðri baráttu við HK á toppi deildarinnar, bæði liðin með 25 stig að loknum níu leikjum. Völsungur er í 3. sætinu, reyndar nokkuð langt á eftir í stigum talið, með 11 stig eftir átta leiki. 

  • Unbroken-deild kvenna í blaki
    PCC höllin á Húsavík 19:30
    Völsungur - KA

KA sótti Völsung heim snemma í október og vann þá viðureign 3-1.

FIMMTUDAGUR 27. NÓVEMBER – handbolti

KA er í 4. sæti Olísdeildar karla í handknattleik að loknum 11 umerðum, hefur unnið sjö leiki og er með 14 stig. KA fær Selfyssinga í heimsókn á fimmtudag, lið sem er í næstneðsta sæti deildarinnar með sjö stig.

  • Olísdeild karla í handknattleik
    KA-heimilið kl. 19
    KA - Selfoss

Selfyssingar unnu nokkuð óvæntan sigur á Aftureldingu í síðustu umferð, 29-28 á útivelli, en KA vann Þór á heimavelli, 32-28.

LAUGARDAGUR 29. NÓVEMBER  handbolti

Þórsarar eru í harðri baráttu í neðri hluta Olísdeildar karla í handknattleik og sækja neðstaliðið, ÍR, heim í Skógarselið á laugardag. Þórsarar hafa náð sér í sjö stig í fyrstu 11 leikjunum, en ÍR er í botnsætinu með þrjú stig. Það er því óhætt að segja að leikurinn á laugardaginn sé sérlega mikilvægur fyrir Þórsara. 

  • Olísdeild karla í handknattleik
    Skógarsel í Breiðholti kl. 18:30
    ÍR - Þór

ÍR-ingar töpuðu heima fyrir FH með átta marka mun í síðasta leik, en Þór tapaði útileik gegn KA með fjórum mörkum.

SUNNUDAGUR 30. NÓVEMBER – körfubolti

Kvennalið Þórs í körfuknattleik hefur unnið alla leiki sína til þessa í 1. deildinni og er eina taplausa lið deildarinnar. Á sunnudag er komið að því að sækja Ísfirðinga heim, en lið þeirra, Vestri, er án sigurs eftir sex leiki. 

  • 1. deild kvenna í körfuknattleik
    Íþróttahúsið á Ísafirði kl. 13
    Vestri - Þór

- - -

Karlaliði Þórs hefur ekki gengið eins vel og kvennaliðinu. Þórsarar eru í neðsta sæti deildarinnar að loknum sjö umferðum, hafa unnið einn leik. Hamar og Fylkir eru í sætunum fyrir ofan, einnig með aðeins einn sigur í fyrstu sjö umferðunum, en örlítið hagstæðari stigamun. 

  • 1. deild karla í körfuknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 16:45
    Þór - Fjölnir 

Þórsarar taka á móti liði Fjölnis á sunnudag, en Grafarvogsliðið er í 2. sæti deildarinnar, hefur unnið sex leiki af sjö. 

- - -

Lesendur eru hvattir til að minna á íþróttaviðburði hvers kyns sem fram undan eru í meistaraflokkum, sérstaklega ef eitthvað verður út undan og gleymist í þessari vikulegu yfirferð í vikubyrjun hér á akureyri.net - sendið tölvupóst í haraldur@akureyri.net ef koma þarf slíkum upplýsingum á framfæri.