Fara í efni
Mannlíf

Heiðraði minningu mömmu sinnar í Kína

Mamma Örnu Valsdóttur listakonu lést skömmu fyrir ferð dótturinnar til Kína, en hún hafði þróað með sér mikinn áhuga á landi og þjóð. Arna fléttaði vídeóklippur af mömmu sinni á ljóðrænan hátt í verk sitt fyrir lokasýninguna. Mynd úr einkasafni

Arna Valsdóttir og Aðalsteinn 'Steini' Þórsson, listamannapar frá Akureyri, sneru heim eftir listamannabúsetu í Xiamen í Kína í maí síðastliðnum. Þeim var boðið þangað af Sigurði Guðmundssyni, sem hefur rekið menningarmiðstöðina og listamannabústaðinn CEAC í u.þ.b. 30 ár með konu sinni Ineke Guðmundsson. Þau urðu sammála um það fyrir ferðina, að vera ekki of vel undirbúin, ef svo mætti taka til orða. Þau ákváðu að láta það ráðast, hverju þau vildu vinna að, þegar þau kæmu á staðinn.

Þetta er annar hluti viðtalsins við Örnu og Steina um dvölina í Kína. Fyrri hlutinn var birtur á Akureyri.net í gær.

 

„Við vorum búin að ákveða að okkur langaði að mæta, anda inn og sjá hvaða áhrif staðurinn hefði á okkur,“ segir Steini. „Við getum samt held ég bæði sagt að við höfum haldið áfram að vinna út frá því sem við höfum verið að skapa áður, með nýrri sýn og öðruvísi nálgun.“ Arna tekur undir það, og minnist á að þarna hafi þau sýnt afraksturinn saman, sem þau hafa ekki gert áður, þó þau hafi iðulega aðstoðað hvort annað við að setja upp sýningar.

 

T.v. Auglýsingin fyrir lokasýningu Örnu og Steina, Tvö – Ein. T.h. listaverk parsins fléttuðust meira saman en oft áður, en Steina brá gjarnan fyrir í vídeóverki Örnu, til dæmis. Myndir: steini.art

Einkasafnið á faraldsfæti

„Við vorum alveg með sitt hvort verkið, en þau fléttuðust saman,“ bætir Arna við. „Það voru snertifletir og við hjálpuðumst að við þetta líka.“ Steini tók upp hanskann í verkinu sínu, Einkasafnið, sem hann hefur í rauninni verið að vinna að síðan 2001, þar sem hann safnar því sem til fellur í daglegu lífi og í staðinn fyrir að henda því er það geymt sem menningarminjar. „Á veröndinni í íbúðinni byggði ég bambushvolf sem var u.þ.b. 5 metrar í þvermál. Þar byggði ég skúlptúr inni í hvolfinu úr þeim hlutum sem ég safnaði. Þetta var í raun útbú Einkasafnsins í Kína!“

Ég gæti gert heilt verk bara af kettinum Mimi og Steina

Dótið sem hann safnaði í Kína, sem var til sýnis í hvolfinu, er í þessum skrifuðu orðum á leiðinni til Steina yfir hafið, og hann gantast með að halda kannski sýningu hér heima sem myndi bera heitið 'The China Collection'. „Bambusinn var ekki sendur heim, en dótið er á leiðinni, ég veit ekki betur! Nema tollurinn skipti sér af, þetta er kannski skrítinn samtíningur að þeirra mati!“

 

Einkasafnið snýst um að halda upp á allt sem fellur til í daglegu lífi Steina. Inni í bambushvolfinu sem Steini reisti á veröndinn var skúlptúr með öllum vatnsflöskum sem eftir sátu. Kranavatnið er ekki til drykkju, þannig að nóg safnaðist upp af flöskum! Myndir úr einkasafni

Kom sér í listræna krísu

Arna tók upp aragrúa af vídeóklippum sem hún segir að gætu verið efniviður í nokkur verk. „Ef ég hefði allan heimsins tíma, þá yrðu þetta að minnsta kosti þrjú verk,“ segir Arna og hlær. „Það má alveg segja að ég hafi komið mér í listræna krísu, ég átti svo mikið efni. Ég safnaði upptökum dagsdaglega hjá okkur, að hluta til tók ég upp það sem Steini var að gera, svo umhverfið í kring um galleríið, það var köttur þarna sem hafði mikinn áhuga á því að aðstoða Steina við byggingu hvolfsins. Ég gæti gert heilt verk bara af kettinum Mimi og Steina.“

Upplifði draum mömmu sinnar

„Það segir svo mikið um þennan stað, hvað ég tók mikið upp,“ segir Arna. „Þetta var svo marglaga, svo margt sem greip athygli mína.“ Verk Örnu, sem hún svo sýndi í lok dvalarinnar, samanstóð af þessum nýju klippum frá Kína annars vegar, og klippum af mömmu hennar hins vegar. „Mamma hafði óvænt orðið mikil áhugakona um Kína, síðustu árin sín,“ segir Arna, en móðir hennar lést stuttu áður en þau héldu af stað til Xiamen.

Hún var með okkur, hún var þriðja hjólið undir þessum vagni

„Mamma var 88 ára þegar hún dó, en hún hafði veikst og í kjölfarið missti hún hreyfigetu og heyrnina að hluta til,“ segir Arna. „Hún hafði lítið getað farið sökum veikindanna og tók upp á því að fara að horfa á sjónvarpið og langaði að finna stöð þar sem hún gæti horft á eitthvað áhugavert og fallegt. Vegna heyrnarleysis varð hún að finna eitthvað sem var með texta og hún gæti þá lesið. Þannig rakst hún á kínverska sjónvarpsstöð með fræðsluefni og heimildamyndum um Kína, sem greip athygli hennar. Þar var allskyns efni um menningu, listir, náttúru, gróður, ræktun og allt mögulegt á dagskrá.“

„Þarna sat hún löngum stundum, með landabréfabók systur minnar úr barnaskóla og þvælda ensk-íslenska orðabók,“ rifjar Arna upp. Hún var farin að þekkja héruðin og sérkenni þeirra, og talaði um fólkið eins og það væru vinir hennar. Hún var eldklár, fróðleiksfús og hún var frekar nýlega búin að segja mér að það væri svo margt sem hana langaði enn að gera. Hún sagðist þó ekki þurfa að ferðast til Kína, þangað ferðaðist hún í huganum.

 

Ströndin sem Arna og Steini gengu nærri daglega, en mamma Örnu var með í hverju skrefi. Mynd úr einkasafni

Fléttaði klippur af frásögnum mömmu í lokaverkið

„Ég fór fyrir hana til Kína, og ég viðurkenni alveg að í mínu tilfelli þá hafði þetta mikil áhrif á það hversu spennt ég varð fyrir boðinu sem við fengum, að ég gæti farið fyrir mömmu,“ segir Arna. „Hún var með okkur, hún var þriðja hjólið undir þessum vagni. Þetta kom náttúrulega upphaflega til tals fyrir tveimur árum þannig að hún vissi allt um þessa ferð og var búin að benda okkur á svo margt sem við gætum skoðað og upplifað.“

Þar með var hún loksins komin til Kína

„Ég átti upptökur af henni að segja mér frá og ég var svolítið tvístígandi með það, hvort ég vildi nota þær, en svo langaði mig svo að sýna Kínverjunum hvað hún hafði verið áhugasöm um líf þeirra. Þarna var einhver eldri kona á Íslandi, sem vissi meira en margir um lífið í Kína. Þannig að ég fléttaði þessar klippur á ljóðrænan hátt inn í verkið mitt,“ segir Arna, en hún gerði tvö verk. Annað þeirra var minna og byggði einungis á myndefni af mömmu hennar, og svo fléttaði hún þær líka inn í stærra verkið.

Fróðleiksmolarnir um Kína stóðu heima

„Ég varpaði tökum af mömmu á þunnar gardínur sem hreyfðust hægt í glugganum okkar í íbúðinni. Þar með var hún loksins komin til Kína. Hún var þó ekki bara með mér þar, heldur veit ég að mjög mikið af upptökunum sem ég tók á ferðum mínum, voru af einhverju sem ég veit að henni hefði þótt heillandi,“ segir Arna. „Svo kom í ljós, að það var mjög margt að því sem hún hafði frætt okkur um, sem stóð algjörlega heima,“ bætir Steini við.

 

Hönd Siggu, móður Örnu, bendir á skjáinn í vídeóverki dótturinnar. Áhugi hennar á Kína var ótvíræður. Mynd úr einkasafni

CEAC hefur verið rekið í u.þ.b. 30 af Ineke Guðmundsson og Sigurði Guðmundssyni. Hér er Sigurður hjá prentaranum, en Sigurður er einn þekktasti íslenski listamaðurinn á heimsvísu. Mynd úr einkasafni

Draumurinn að byggja líka hvolf við Einkasafnið

Steini prófaði sig líka áfram með kínverskar aðferðir í vatnslita- og blekmálun á kínverskan pappír. „Þessar myndir urðu líka partur af sýningunni, meðal annars voru þar myndir af því, hvernig ég sé Einkasafnið í Eyjafjarðarsveit fyrir mér komandi ár. Það er draumurinn að byggja einhverskonar hvolf þar líka og ég málaði myndir af því. Svo málaði ég líka myndir, sem voru ekki sýndar þarna úti, en ég sýni þær í Dyngju listhúsi núna í júlí. Þær eru af því hvernig ég mundi eftir fjallinu Kerlingu, hugsað frá Kína,“ segir Steini.

Þetta er allt bara ferðalag, og við erum alltaf að byggja ofan á það

Arna prufaði sig líka áfram með vatnsliti, blek og þrykk og segir að hún ætli að halda áfram með það eftir heimkomu. Næsta sýning verður svo hjá Örnu, en hún ætlar að sýna í Dyngju - listhúsi í ágúst. Hún er líka að vinna að heimildarmyndinni 'Dansandi línur', um Karl Guðmundsson og listsköpun hans, sem væntanleg er í lok árs.

 

Frá opnun sýningarinnar. Bambushvolfið vakti athygli. Mynd úr einkasafni

Njóta þess mikið að vinna saman

Tvímælalaust mun þessi dvöl hafa áhrif á listsköpun þeirra beggja héðan í frá, taka þau bæði undir, aðspurð hvaða þýðingu Kína og verkefni þeirra þar hafi í stóra samhenginu. „Þetta er allt bara ferðalag, og við erum alltaf að byggja ofan á það,“ segir Steini, og Arna tekur undir það. „Okkur þykir líka bara svo gaman að vinna saman að því að setja upp sýningar og þetta var ofboðslega skemmtilegur tími fyrir okkur. Við höfum áhuga á því að gera kannski sýningu um dvölina, sem vonandi verður að veruleika áður en langt um líður.“

Ég hugsa að Kína gæti alveg lifað þó að það væru ekki nein önnur lönd

„Ég held að ég geti alveg sagt að þessi dvöl okkar í Kína muni standa upp úr sem einhver afgerandi tími í lífinu,“ segir Arna. „En maður þarf tíma til þess að melta það. Þetta var bara svo mikil og margvísleg upplifun.“ Steini tekur undir og segir að það hafi verið dýrmætt líka, fyrir þau sem einstaklinga, að fara í svona langan tíma á framandi stað. „Kína hefur svo stóra sögu. Ég hugsa að Kína gæti alveg lifað þó að það væru ekki nein önnur lönd. Þetta er svo sérstakt og heillandi samfélag, og það var svo áhugavert fyrir mig að upplifa þetta. Auðvitað upplifaði maður samt bara yfirborðið, á svona stuttum tíma,“ segir hann.

 

Það gaf Örnu og Steina mikið, að halda vídeólistahátíðina Heim í íbúð sinni í Xiamen. Að bjóða heimafólki að koma og sýna, en stór hluti upplifunar þeirra snerist um að kynnast listamönnum á svæðinu og upplifa eitthvað nýtt. Mynd úr einkasafni

Öfugt menningarsjokk

„Það stendur kannski upp úr að átta sig á því, hvað maður veit lítið,“ bætir Arna við að lokum. „Ég er spurð um menningarsjokk, en ég upplifði eiginlega öfugt menningarsjokk. Það er þetta sem maður rekur sig eiginlega alltaf á, að fólk er bara eins, í grunninn. Við mættum kannski hópi af unglingum, og ég sagði við Steina; sjáðu, þarna eru nemendur mínir. Þau voru bara eins og unglingarnir okkar.“

Að lokum vilja Aðalsteinn og Arna koma á framfæri þökkum til Erasmus, Eyjafjarðarsveitar, Zontaklúbbsins Þórunnar Hyrnu og Muggs (ferðasjóður SÍM, Myndstefs og Reykjavíkurborgar), sem veittu þeim styrki til dvalarinnar.

 

Sýningargestir á opnun lokasýningar Örnu og Steina í CEAC. Mynd úr einkasafni