Listamannadvöl í Kína var mikið ævintýri

Listamannaparið Arna Valsdóttir og Aðalsteinn Þórsson, Steini, eru nýlega komin heim eftir fjögurra mánaða listamannadvöl í Xiamen í Kína. Á þeim tíma bjuggu þau og störfuðu við CEAC (Chinese European Art Center), sem hefur verið rekin í u.þ.b. 30 ár af Ineke Guðmundsson og manni hennar, myndlistarmanninum Sigurði Guðmundssyni sem auk þess stendur á bak við Ars Longa safnið á Djúpavogi. Sigurður er einn þekktasti listamaður Íslendinga á heimsvísu. Á þennan stað kemur listafólk alls staðar að úr heiminum, til þess að búa og starfa að list sinni, en Örnu og Steina var boðið sérstaklega að koma. Þau tóku vel á móti blaðamanni Akureyri.net í kaffispjall á heimili sínu í Vanabyggð, til þess að segja frá tíma sínum í Kína.
Þetta er fyrri hluti viðtalsins við Örnu og Steina, sá seinni verður birtur á Akureyri.net á morgun.
- Á MORGUN – HEIÐRAÐI MINNINGU MÖMMU SINNAR Í KÍNA
Þegar Arna og Steini komu til Kína 15. janúar var nýársfögnuður landsins rétt að hefjast. Mynd úr einkasafni.
Kynntust Sigurði á A! Gjörningahátíð á Akureyri
Arna og Aðalsteinn, sem gjarnan er kallaður Steini, komust í kynni við Sigurð þegar hann tók þátt í A! Gjörningahátíð á Akureyri 2023 og þurfti aðstoð við uppsetningu gjörnings þar. „Gjörningurinn hét Fyrsti performansinn í sögu mannkynsins, en þetta var tengt Biblíunni og snerist eiginlega um Adam og Evu í Paradís. Þegar hún tekur eplið af skilningstrénu. Það var lykilatriði í gjörningnum, en lesinn var texti eftir Sigurð og ég lék í þessu,“ rifjar Steini upp. „Ég lék dýrið, eða manninn. Held að við höfum kallað hann 'apann', en þetta var í raun Adam. Arna tók gjörninginn upp, en Sigurður var ekki sjálfur á staðnum. Hann fór svo að minnast á það í kjölfarið, hvort við myndum vilja koma á þennan stað í Kína einhverntíma.“
Það tók svolítinn tíma að vinna í því að hafa rými fyrir þetta ævintýri
„Okkur fannst þetta strax mjög spennandi hugmynd,“ segir Steini, og Arna tekur undir það. „Þegar okkur var boðið að koma árið 2023, þá var ekki nægur tími til þess að undirbúa það að geta stokkið af stað. Það tók svolítinn tíma að vinna í því að hafa rými fyrir þetta ævintýri, og það var svo núna á vorönn 2025 sem við létum slag standa.“ Arna tók sér leyfi frá kennslu, en hún kennir við listnámsbraut í VMA og Steini starfar hjá Akureyrarbæ auk þess sem þau sinna bæði eigin listsköpun.
Mai Li og kötturinn Mimi eru hér með Örnu og Steina á veröndinni þar sem Arna og Steini bjuggu og unnu að list sinni. Mai Li er framkvæmdastjóri CEAC. Mynd úr einkasafni
Lifað og starfað í sama rýminu
„Fyrirkomulagið er þannig, þarna úti, að við fengum íbúð sem er mjög rúmgóð og fín, og hún er í rauninni líka aðstaðan til listsköpunar,“ segir Arna. „Það er aðeins misjafnt hvað það eru margir listamenn þarna í einu, þarna var til dæmis annar Íslendingur, Kjartan Ari Pétursson, þegar við komum. Margir mjög sterkir listamenn hafa dvalið þarna og verið hluti af 'fjölskyldunni', eins og þau kalla hópinn. Við erum held ég fyrstu listamennirnir sem koma frá Akureyri.“
„Framkvæmdastjóri CEAC heitir May Li og mikill hluti starfssviðs hennar er að vera listamönnum á svæðinu innan handar, sem betur fer,“ segir Steini og hlær. „Maður skilur hvorki ritað né talað mál þegar maður kemur, þekkir ekki stafina og veit lítið um það hvernig hlutirnir eru. Almennt tala mjög fáir ensku á þessu svæði, en hún var mjög fær í ensku og gat lóðsað okkur um.“
Steinsnar frá CEAC er falleg og stór strönd. Hér er fólk þó fullklætt yfirleitt og engum dettur í hug að leggjast í sólbað. Mynd úr einkasafni.
Upplifðu sig ekki í miklu fjölmenni
„Xiamen er strandborg alveg syðst í Kína og þar búa 5 milljón manns, en Taiwan er bara rétt hinum megin við sundið,“ segir Arna, sem tekur samt fram að upplifunin hafi ekki verið að það væri svona mikið fjölmenni þar sem þau voru stödd á eyju. Þar var heilmikil náttúrufegurð og falleg strönd. „Það var frekar kalt þegar við komum þann 15. janúar. Við vorum yfirleitt mikið klædd og það var kalt innandyra á nóttunni. Það var svo ekki fyrr en í byrjun apríl sem fór loksins að hitna og svo undir lokin var orðið mjög heitt, en dvöl okkar lauk 15. maí.“
„Það er falleg, hvít strönd rétt hjá húsinu sem við bjuggum í,“ segir Arna. „Þar var fólk allan daginn, en það var engin sólbaðsmenning eins og við erum vön. Fólk var bara að leika sér, rölta um og njóta útiveru. Öll fullklædd! Það voru einstaka sem fóru út í sjó og syntu, en mörg voru að stunda hreyfingu í sandinum líka.“
Útsýnið út um gluggann á galleríi CEAC. Mynd úr einkasafni
Samstarf við háskólann á svæðinu
„Xiamen er háskólabær, og þar er til dæmis mjög sterkt listnám“, segir Arna, en hún var sérstaklega spennt fyrir deild sem kennir stafrænar aðferðir til listsköpunar, en hún vinnur mikið með vídeó, til dæmis. „Ég hugsaði strax hvað það væri spennandi að koma á einhverju samstarfi við listnámið heima í VMA! Við vorum staðsett mjög nálægt skólanum og það er til dæmis flott samstarf á milli skólans og CEAC. Á meðan dvöl okkar stóð fórum við þangað tvisvar. Fyrst til að skoða sýningar kennara og nemenda og fá innsýn í starfsemina og námið og seinna fluttum við fyrirlestur fyrir nemendur.“
Ég fékk fullt af hugmyndum fyrir kennsluna í VMA og hlakka til að byrja að kenna aftur í haust
„Þegar við fórum til þess að halda þennan fyrirlestur, fengum við skilaboð um að við þyrftum að búa glærusýninguna til fyrirfram og senda hana til yfirlestrar, áður en fyrirlesturinn færi fram,“ segir Arna. „Þau breyttu nú samt engu, en það þurfti greinilega að ritskoða þetta eitthvað. Þetta var eina skiptið sem við upplifðum einhverja stjórnun.“
„Það er svolítið skemmtileg og áhugaverð stemning í samtímalistinni á þessum stað,“ segir Arna. „Það ríkir húmor og einhver absúrdismi, eitthvað svolítið glit í auga. Mikið af ungu fólki og kraftmiklir listamenn í þessum hópi sem við fengum að hitta. Ég fékk fullt af hugmyndum fyrir kennsluna í VMA og hlakka til að byrja að kenna aftur í haust. Einnig héldum við vídeólistahátíðina 'Heim', sem ég hef haldið á Akureyri, í íbúðinni okkar, þar sem við buðum kínverskum listamönnum að vera með. Það var rosalega gaman.“
Arna og Steini héldu vídeólistahátíðina Heim í Kína þetta árið og buðu listamönnum af svæðinu að taka þátt. Mynd úr einkasafni
Mikil friðsæld þrátt fyrir mannhafið
„Samfélagið var miklu opnara og frjálslegra en við kannski bjuggumst við,“ segir Arna. „Það var mikið glaðlyndi, stutt í hlátur og húmor. Við lentum eiginlega beint inn í kínverska nýárið, sem býður upp á gríðarleg hátíðarhöld og mikinn mannfjölda, sem var rosaleg upplifun. Ég hef aldrei séð annað eins mannhaf. En það var allt svo friðsælt, ég upplifði ekki neina streitu í kring um það.“ Steini tekur undir þetta og nefnir að það sé bersýnilegt, að fólkið þarna kunni að vera í stórum hópum.
Enduðu dvölina á listasýningu
„Allt sem við vildum gera tók aðeins lengri tíma en við erum vön hérna heima,“ segir Arna. „Við fórum kannski í myndlistarvörubúð og þurftum að kaupa eitthvað ákveðið, það var oft erfitt að finna það og við oft alveg tungumálalaus. Stundum gátum við stuðst við app til þess að túlka, en svona hlutir voru bara aðeins meira bras. Til dæmis þurftum við að kaupa sérsaumaðar gardínur fyrir lokasýninguna og það var erfitt ferli. Þegar gardínunar komu loksins, þá var búið að sauma einhverjar svona follur og fellingar á þær eins og í leikhúsi. Þar hafði eitthvað misfarist í samskiptunum á ólíkum tungumálum, en þetta blessaðist allt!“
Dvöl Örnu og Steina lauk semsagt á sýningu verkanna sem þau höfðu unnið, þar sem Arna sýndi vídeóverk og Steini bjó til einskonar útibú Einkasafnsins í Kína. „Við vorum frekar montin með okkur,“ segir Arna brosandi. „Þetta gekk svo vel og við vorum mjög ánægð með opnunina og viðtökurnar. Og gardínurnar voru bara fínar!“
Japanskir nágrannar Örnu og Steina mættu á sýningaropnunina. Mynd úr einkasafni
Þetta var fyrri hluti viðtalsins við Örnu og Steina, á morgun birtum við seinni hlutann og heyrum um listaverk hjónanna sem þau sköpuðu og sýndu í Xiamen og fleira.
- Á MORGUN – HEIÐRAÐI MINNINGU MÖMMU SINNAR Í KÍNA