Handbolti: Stórt tap hjá KA/Þór í Eyjum
Áttundu umferðinni í Olísdeild kvenna í handknattleik lauk í dag þegar KA/Þór beið lægri hlut gegn ÍBV í Eyjum. Eftir tiltölulega jafnan fyrri hálfleik völtuðu heimastúlkur yfir gestina í seinni hálfleik og unnu þrettán marka sigur, 37:24.
Leiknum var flýtt um hálftíma frá áður auglýstum leiktíma og því var langt liðið á fyrri hálfleik þegar blaðamaður kveikti á sjónvarpinu og hugðist horfa á leikinn. Þá voru Eyjakonur með naumt forskot og þegar flautað var til leikhlés var staðan 18:15 þeim í vil. Norðanstúlkur sáu hins vegar aldrei til sólar eftir hlé. ÍBV breytti varnarleik sínum og KA/Þór fann engin svör. Hver sóknin á fætur annarri rann út í sandinn og forskot Eyjakvenna jókst hratt. Engu skipti þótt Jonni þjálfari tæki tvisvar leikhlé fyrrihluta hálfleiksins til að reyna að endurskipuleggja leik liðsins.
Ekkert gekk og leikurinn leystist eiginlega upp í vitleysu vegna fjölda mistaka. Eyjakonur voru með leikinn algerlega í hendi sér en sjónvarpsáhorfendur fengu hins vegar ekki að vita hvernig hann endaði - því útsendingin rofnaði áður en leikurinn kláraðist. Enginn fjölmiðill var með textalýsingu frá leiknum og vegna bilunar í tengingum við mótakerfi HSÍ eru engar tölulegar upplýsingar að hafa um leikinn á vef sambandsins. Upplýsingar um endanleg úrslit leiksins og lokatölur eru fengnar frá vefsíðunni handbolti.is sem náði að fá sent afrit af leikskýrslunni frá Vestmannaeyjum. Lokatölur urðu sem sé 37:24 en áðurnefndur skortur á upplýsingum og umfjöllun um leikinn er ekki sæmandi fyrir viðureign í efstu deild.
Mörk KA/Þórs: Tinna Valgerður Gísladóttir 6, Trude Häkonsen 3, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 3, Susanne Pettersen 3, Unnur Ómarsdóttir 3, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 1, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 1, Herdís Eiríksdóttir 1, Lydía Gunnþórsdóttir 1, Anna Petrovic 1.
Mörk ÍBV: Sandra Erlingsdóttir 10, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 5, Amelía Dís Einarsdóttir 5, Agnes Lilja Styrmisdóttir 4, Ásdís Halla Hjarðar 4, Birna Berg Haraldsdóttir 4, Britney Cots 2, Ásta Björt Júlíusdóttir 1, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 1, Klara Káradóttir 1.