Fara í efni
Íþróttir

Hagnaður golfklúbbsins átjánfaldast milli ára

Golfklúbbur Akureyrar hagnaðist um 18,5 milljónir króna á rekstrarárinu sem lauk 31. október. Hagnaður síðasta rekstrarárs var liðlega ein milljón þannig að hagnaður klúbbsins átjánfaldast milli ára. Þetta má sjá í ársreikningi klúbbsins, sem lagður hefur verið fram. Geri aðrir betur!

Jaðarsvöllur var mun meira notaður en árið áður og aukningin er í raun ótrúleg: alls voru spilaðir um 27.000 hringir, sem er 25% meira en árið 2019. Vegna kórónuveirufaraldursins fóru Íslendingar lítið úr landi í frí en ferðuðust þeim mun meira innanlands, eins og frægt er orðið. Augljóst er að margur hefur dvalið á Akureyri og spreytt sig á Jaðarsvelli, enda veður prýðilegt og völlurinn góður.

Mikil óvissa ríkti snemma árs en golfsumarið fór mjög vel fram þrátt fyrir ýmsar takmarkanir á samkomuhaldi. „Auðvelt var að halda leik áfram innan settra reglna,“ eins og segir á heimasíðu GA.

Tekjur Golfklúbbs Akureyrar voru 179,5 milljónir króna á árinu samanborið við 152 milljónir árið 2019, sem er aukning um 18%. Rekstrargjöld voru 154 milljónir samanborið við 143 árið áður - hækkuðu um 7,6%.

„Við erum afar stolt af okkar miklu uppbyggingu á starfsemi GA síðustu ár. Það er ljóst að sú erfiðisvinna hefur skilað sér í aukinni ánægju meðlima, ferðamönnum og bættum grunni til betri reksturs,“ segir Steindór Kristinn Ragnarsson, framkvæmdastjóri GA, á heimasíðu klúbbsins.

„Við getum m.a. horft stolt á Klappir æfingasvæðið sem er að skila okkur rúmum 10 [milljónum króna] á ári sem segir okkur að Klappir borga sig upp á 7 árum að meðtöldum rekstrarkostnaði, einnig erum við að uppskera eftir mikla endurbyggingu á vellinum síðustu ár sem skilar sér í aukinni notkun og bættum aðstæðum hér á Jaðri. Framundan er áframhaldandi viðhald á velli, fasteignum og endurnýjun á vélarflota GA. Reksturinn á árinu gekk vel og er mikil tilhlökkun til sumarsins 2021 þar sem hápunkturinn verður Íslandsmótið í golfi dagana 5.- 8. ágúst,“ segir Steindór Kristinn.

Aðalfundur Golfklúbbs Akureyrar verður haldinn eftir helgi.