Fara í efni
Fréttir

Hafirðu ekkert gott að segja er betra að þegja

„Það er óhætt að segja það að þú komir með hvelli inn í nýtt embætti. Það þarf ekki að vera slæmt ef fólk hefur þekkingu á því sem það lætur frá sér. Þegar ég hlustaði á Kastljóssviðtalið við þig fyrr í vikunni fór ýmislegt í gegnum kollinn á mér, ég gat ekki gert það upp við mig hvort ég ætti að hlæja eða gráta.“

Þetta segir Hlín Bolladóttir, grunnskólakennari til áratuga, í harðorðu opnu bréfi til Ingu Sæland, menntamálaráðherra sem akureyri.net birtir í dag. Hlín, sem ólst upp á Laufási við Eyjafjörð, hefur starfað við kennslu í 38 ár. Hún segir meðal annars í bréfinu til Ingu:

„Ég er ansi hrædd um að það færi um sjómenn ef það birtist skipstjóri með hvelli um borð í skip ef hann svo reyndist ekki kunna á stjórntækin um borð eða ef flugstjóri kæmi á sömu forsendum um borð í flugvél, þá færi trúlega um áhöfn og farþega! Þetta var það sem rann í gegnum höfuðið á mér þegar ég hlustaði á viðtalið við þig.“

 
Nokkrir fleiri punktar úr grein Hlínar:
 
  • Þú fórst með rangt mál í ýmsu og ég hefði ráðlagt þér að þiggja ekki boð í þetta viðtal fyrr en þú hefðir aflað þér haldbærrar vitneskju.
  • Ég vona líka að minnisblöðin sem þú rótaðir ákaft í fyrir framan þig hafi ekki verið skrifuð af sérfræðingunum sem eiga að aðstoða þig í ráðuneytinu.
  • Þú hengdir þig á skyndilausnir og fullyrtir að öllu yrði bjargað með því að innleiða læsisverkefnið Kveikjum neistann í alla íslenska skóla því það væri hluti af finnsku leiðinni sem þú ætlar líka að innleiða. Vonandi veistu núna að þetta læsisverkefni er ekki hluti af þeirri leið, það er íslenskt verkefni.
  • Vonandi veistu líka núna að verkefnið Byrjendalæsi er þróað á Íslandi og hefur ekkert með Breta að gera. Íslenskir kennarar og fræðimenn hafa nefnilega í gegnum tíðina verið að gera frábæra hluti.

Grein Hlínar Bolladóttur: Hafirðu ekkert gott að segja er betra að þegja!

Kastljóssþátturinn sem um ræðir