Fara í efni
Fréttir

Grunur um vopnaburð og frelsissviptingu

Frá aðgerðum lögreglu í Skipagötunni í gærkvöld. Fjöldi fólks fylgdist með.

Aðgerðir lögreglu í miðbæ Akureyrar í gærkvöld þar sem fimm voru handtekin tengdust gruni um frelsissviptingu. Þetta kemur fram í frétt Ríkisútvarpsins.

Börkur Árnason, varðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri, staðfesti þetta samkvæmt frétt RÚV, en þar kemur fram að svo virðist sem einstaklingur hafi verið færður inn í bíl gegn vilja sínum. Fimm voru handtekin, þremur sleppt strax í kjölfarið, en tveir gistu í fangageymslum og hefur öðrum þeirra þegar verið sleppt.

Í frétt Vísis er einnig haft eftir Berki Árnasyni varðstjóra að grunur hafi verið um vopnaburð og því hafi lögreglan fengið aðstoð sérsveitar við aðgerðirnar. Einn hnífur fannst í aðgerðunum, en ekkert hinna handteknu bar hann á sér. Sérsveitin er með starfsstöð á Akureyri.

Í frétt RÚV kemur jafnframt fram að ekki sé gert ráð fyrir að farið verði fram á gæsluvarðhald yfir þeim sem enn situr í fangageymslu. Umræddir einstaklingar eru sagðir góðkunningjar lögreglunnar, en að ekki sé grunur að málið tengist skipulagðri glæpastarfsemi.

Frétt Akureyri.net í gærkvöld: Sérsveitin kölluð til og nokkur handtekin