Fara í efni
Fréttir

Sérsveitin kölluð til og nokkur handtekin

Í Skipagötu í kvöld: Einn hinna handteknu færður í lögreglubíl í handjárnum.

Nokkrir voru handteknir í aðgerðum sérsveitar ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á Norðurlandi eystra í miðbæ Akureyrar í kvöld. Engar upplýsingar fást um málið hjá lögreglu. Aðgerðin stóð í drjúga stund og fjöldi fólks fylgdist með; sjónarvottur sagði að einn hefði verið hlaupinn uppi og snúinn niður á stóra bílastæðinu við Skipagötu og tvö sáust teymd út úr porti við Skipagötu 6, a.m.k. annað í handjárnum, og flutt brott í lögreglubílum. Akureyri.net er ekki kunnugt um hve margir voru handteknir.

 

Fjöldi fólks fylgdist með í miðbænum í kvöld þegar lögreglumenn eltust við fólkið sem var handtekið og flutt á brott í járnum.