Fara í efni
Fréttir

Grímsey: Vindmyllur og sólarorkuver

Grímsey. Ljósmynd: Auðunn Níelsson.

Á næstu mánuðum er stefnt að því að stíga stór skref í orkuskiptum í Grímsey. Fyrirhugað er meðal annars að setja upp vindmyllur og sólarorkuver. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akureyrarbæ.

Fallorka á Akureyri annast verkefnið í samstarfi við Vistorku og Orkusetur með stuðningi úr Evrópuverkefninu SMARTrenew og Orkusjóði. Orkuframleiðsla og -notkun í Grímsey er í dag byggð á ósjálfbæru jarðefnaeldsneyti. Heildarolíunotkun er um 400 þúsund lítrar á ári, enda er olía bæði notuð til raforkuframleiðslu og til húshitunar. Ætla má að losun koltvísýrings (CO₂) vegna orkunotkunar í Grímsey sé um 1.000 tonn  á ári. Ofan á þetta bætist svo eldsneytisnotkun farartækja og fiskibáta.

Íslenska ríkið og Akureyrarbær hafa sett metnaðarfull markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og í nýrri orkustefnu landsins er stefnt að því að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2050. Orkuskipti í Grímsey eru hluti af nauðsynlegum aðgerðum til að ná þessum markmiðum.

LED-væðing og nýorkuver

Ýmislegt hefur nú þegar verið gert í Grímsey til að draga úr orkunotkun og þar með brennslu jarðefnaeldsneytis. Má nefna stuðning við heimili til að bæta einangrun í þaki og gluggum sem dregur úr upphitunarþörf. Auk þess hefur lýsingu í ljósastaurum verið skipt út fyrir LED sem skilar bæði betri lýsingu og miklum orkusparnaði. Einn liður í þeirri aðgerðaáætlun sem nú liggur fyrir er áframhaldandi LED-væðing og mun Orkusetur bjóða heimilum upp á slíkar perur til uppsetningar.

Stefnt er að uppsetningu á tveimur vindmyllum sem samtals framleiða um 30.000 kílóvattstundir á ári. Samið hefur verið við skoska framleiðendur sem framleiða smáar en mjög sterkar vindmyllur, enda skiptir veðurþol miklu máli. Einnig eru áform um að setja upp sólarorkuver við Múla sem gæti framleitt allt að 10.000 kílóvattstundir á ári. Stefnan er að nýta reynsluna til að þróa lausnir fyrir íbúa sem gæfist þá kostur á að setja upp sólarsellur á og við hús sín án kostnaðar.

Þessar fyrstu aðgerðir eiga að minnka olíunotkun um 20 þúsund lítra og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50 tonn á ári. Fólksbíll á Íslandi brennir að meðaltali um 1.000 lítrum ári þannig að þessar aðgerðir draga úr olíunotkun á við ársnotkun 20 slíkra bíla.

Ef reynslan af þessum nýju kerfum verður góð er markmiðið að auka hlut grænna orkugjafa enn frekar í náinni framtíð. Unnið er að undirbúningi og ef allt gengur samkvæmt áætlun gætu framkvæmdir í Grímsey hafist í byrjun sumars.

Félögin sem standa að verkefninu eru þessi:

  • Fallorka, sem starfrækir fjórar vatnsaflsvirkjanir við Eyjafjörð og selur raforku um allt land. Félagið er í eigu Norðurorku sem aftur er í eigu Akureyrarbæjar og fimm nágrannasveitarfélaga.
  • Vistorka er verkefnastofa á sviði umhverfis- og loftslagsmála og er í eigu Norðurorku.
  • Orkusetur, sem stofnað var af Orkustofnun í samstarfi við iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið. Verkefnið er styrkt af Evrópusambandinu. Orkusetur er sjálfstætt starfandi eining.