Fara í efni
Umræðan

Gerum bæinn okkar að snyrtilegasta bæ landsins með sameiginlegu átaki

Þau sem hafa starfað með mér í pólitík vita að umgengnismál í umhverfi okkar brenna á mér. Þess vegna fagna ég því að í málefnasamningi meirihlutans sé komið inn á þetta þó ég hefði viljað sjá kveðið fastar að orði. Það þarf að kortleggja hvar ábyrgðin liggur og hvaða verkferlum við getum beitt. Gámar með útrunnin stöðuleyfi, númeralausir bílar út um allan bæ, iðnaðar- og atvinnulóðir fullar af drasli og dóti sem ætti frekar heima innandyra eða í förgun heyra vonandi bráðlega sögunni til. Atvinnustarfsemi og íbúðabyggð verða að geta farið saman ef við ætlum að halda áfram að byggja hér upp sterkt atvinnusvæði.

Ég settist í umhverfis- og mannvirkjaráð fyrir áramót og talaði þar fyrir því að farið væri í úttekt á þessum málum. Þegar ráðið tók fyrir fundargerð heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra þann 11. febrúar síðastliðinn var bókað: ,,Óskar ráðið eftir því að upplýsinga sé aflað um heimildir og ábyrgðarskiptingu milli umhverfis- og mannvirkjasviðs, þjónustu- og skipulagssviðs og heilbrigðiseftirlitsins”. Enn hefur ekkert sést af þeirri vinnu en nauðsynlegt er að kortleggja hvar ábyrgðin liggur nákvæmlega.

Umræðan í bænum verður sífellt háværari

Við í Framsókn heimsóttum fjölda fyrirtækja í vor og bar þetta málefni oftar en einu sinni á góma. Í einu iðnaðarhverfinu spurði mig eigandi fyrirtækis hvort við ætluðum ekki að gera eitthvað í þessum málum. Bærinn væri að kafna úr rusli og bætti við að um leið og honum yrði gert að taka til á lóð sinni myndi hann hiklaust gera það. Þetta þarf bara að koma við veskið hjá fólki sagði hann.

Það hlýtur að vera hluti af markaðssetningu bæjarins að gera gangskör í þessum málum og samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja að hafa snyrtilegt í kringum sig og sjálfsagður hluti af þeirra markaðssetningu. Sem betur fer eru mörg fyrirtæki í bænum sem ganga mjög snyrtilega um og eru öðrum til fyrirmyndar og því skal haldið til haga að Akureyrarbær er alls ekki saklaus hér.

Hvað getum við gert?

Þegar umhverfis- og mannvirkjaráð fékk kynningu á drögum af nýsamþykktri umhverfis- og loftlagsstefnu benti ég á að umgengnisþátturinn fengi alltof lítið vægi og svo aftur á vinnufundi með bæjarstjórn um stefnuna. Lagði ég til að bætt yrði við sjötta kaflanum sem tæki á umgengni en því miður fékk það ekki hljómgrunn. Meginstefið í stefnunni eru loftlags- og úrgangsmál sem er vel en það eina sem ég fann sem kemst næst því sem ég tala um er: ,,Til að bæta nærumhverfi íbúa er mikilvægt að reglulega fari fram hreinsunarátak í bænum” Þetta snýst ekki um reglulegt hreinsunarátak, við þurfum að breyta umgengninni til framtíðar og koma upp verkferlum til þess.

Nú er verið að auglýsa starf framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra og ætla ég alls ekki að kasta rýrð á það starf sem þar er unnið en með nýju fólki koma oft nýjar áherslur. Á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra er að finna samþykkt um umgengni og þrifnað utan húss á starfssvæði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra. Verkfærið virðist vera til og nú verðum við að sýna þor til að beita þessari samþykkt og leita annarra lausna í bland við hana til að hreinsa bæinn okkar.

Nýsamþykkt umhverfis- og loftlagsstefna: https://fundargatt.akureyri.is/meetingsearch/displaydocument.aspx?itemid=D3cao4JFs0qFOXlkdcBlQQ&meetingid=e73HToNif0uYXtIOyP4e8g1&filename=Umhverfis-og%20loftlagsstefnan%20mai%202022.pdf&cc=Document

Samþykkt um umgengni og þrifnað utan húss á starfssvæði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra: https://www.hne.is/static/files/HNE/Samningar/samthykkt-um-umgengni-og-thrifnad-utan-huss-a-starfssvaedi-hne-nr.-463-2002.pdf

Sunna Hlín Jóhannesdóttir er bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri

 

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15

Ómenning í fjallinu

Adolf Ingi Erlingsson skrifar
12. apríl 2024 | kl. 11:25

Elínborg – meðmæli með biskupsefni

Björg Ágústsdóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 09:15

Í þágu ME-sjúklinga

Freyja Magnúsdóttir og Pétur Þór Jónasson skrifa
10. apríl 2024 | kl. 05:00

Umhyggja, kærleikur og mennska

Elínborg Sturludóttir skrifar
08. apríl 2024 | kl. 16:03