Fara í efni
Íþróttir

Gefur 30 þúsund dali til byggingar krulluhallar

Gwen Krailo á lokahófi Ice Cup krullumótsins í Hofi. Mynd: Krulludeild SA.

Bandarísk kona, Gwen Krailo, sem var þátttakandi á alþjóðlegu móti Krulludeildar Skautafélags Akureyrar um liðna helgi, hefur lagt til hliðar rúmar fjórar milljónir króna sem hún vill gefa Akureyringum með því skilyrði að upphæðin gangi upp í kostnað við byggingu krulluhallar í bænum. Hún tók núna þátt í mótinu í tíunda skiptið.

Gwen kom fyrst til Íslands vorið 2005 til að keppa á alþjóðlega krullumótinu Ice Cup. Hún býr í Nashua í New Hampshire í Bandaríkjunum, norður af Boston í Massachusetts. „Okkur fannst það frábært tækifæri að koma og sjá þessa dásamlegu eyju. Við skemmtum okkur svo vel að við komum aftur og aftur. Þetta er tíunda heimsóknin mín hingað,“ segir Gwen. Við hittum hana þegar öllum þátttakendum mótsins var boðið á sérstakt íslenskt góðgætiskvöld á mótinu þar sem keppendur gæddu sér á harðfiski, hákarli, gröfnum hrossavöðva, svartfugli, sviðum, sviðasultu, fiskisúpu og fleiru. Þessi hefð hefur skapast í kringum mótið og erlendu gestirnir alltaf yfir sig hrifnir af uppátækinu.

Á opnunarhófi á Hótel KEA 2008. Gwen Krailo lengst til vinstri ásamt liðsfélögum sínum á, Judy Melzer (sem nú er látin), Sue Haigney og Sue Porada. Með þeim á myndinni er Kristján Sævar Þorkelsson krullukarl og vegagerðarmaður. Kona Kristjáns, Jóhanna María Gunnarsdóttir, sem lést 2019, prjónaði peysur handa þessum fjórum í tilefni þess að þær voru að koma í þriðja sinn á mótið. Myndin er af vef Krulludeildar SA á sasport.is. Ljósmyndari: Sigurgeir Haraldsson.

Ekki sama krullusvell og skautasvell

Í tengslum við mótið og komu erlendra keppenda hefur oft verið rætt um þörf fyrir sérstakt hús undir krullusvellið þar sem það fer ekki vel saman með skautaíþróttunum á veturna. Gwen hefur lengi starfað í kringum krulluíþróttina í Bandaríkjunum og meðal annars átt þátt í uppbyggingu krullusvells og klúbba á nokkrum stöðum í Bandaríkjunum. Hún hefur frá upphafi hvatt stjórnendur Krulludeildar SA til að hugsa stórt og vera framsýnir og hefur fundað með fólki hér til að miðla af reynslu sinni. Hún er semsagt mjög áhugasöm um að hér rísi sérstakt hús fyrir krullusvell þar sem krullufólk þyrfti ekki að deila svellinu með skautaíþróttinni. Farið var lauslega yfir sögu mótsins og undirbúning á skautasvelli fyrir krullumót í frétt okkar áður en mótið hófst.

Einu sinni sem oftar þegar Gwen og félagar hennar mættu til Akureyrar kvaddi hún sér hljóðs á lokahófi mótsins og tilkynnti um gjöf til Akureyringa. „Ég lagði til hliðar sjóð til að hjálpa þessum klúbbi að koma upp sérstöku krullusvelli,“ segir hún um þessa tilkynningu. Hún hefur hjálpað við að koma á fót krulluklúbbum á nokkrum stöðum í Bandaríkjunum og vildi að vinir hennar á Akureyri fengju alvöru krullusvell. „Af því að ég nýt þess svo mikið að heimsækja eyjuna og fólkið hérna byrjaði ég með tíu þúsund Bandaríkjadali til að hjálpa ykkur að skipta yfir í krullusvell. Sjóðurinn óx og var kominn í 20 þúsund á tímabili og stendur núna í 30 þúsund dölum. Ef eitthvað kemur fyrir mig verður klárt að dánarbúið veit að þessi klúbbur á að njóta góðs af þessum 30 þúsund dölum til að koma á fót krullusvelli,“ segir Gwen.

Hún hefur gengið svo frá málum í samstarfi við lögfræðing sinn vestra að þessi upphæð verði greidd til Akureyrarbæjar eða félagsins þegar og ef - og aðeins ef - hér verður einhvern tíma byggt krulluhús. Á lokahófi Ice Cup krullumótsins síðastliðið laugardagskvöld kom hún síðan með óvænta skreytingu á þá köku, ef svo má orða það, þegar hún tilkynnti að upphæðin stæði núna í 30 þúsund dölum - eða tæpum fjórum milljónum íslenskra króna.

Hátíð í Skautahöllinni, fánaborgir sýna hvaðan keppendur á krullumótinu koma, en þegar á allt er litið hentar skautavell þó ekki sem best þegar útbúa þarf gott svell fyrir krulluíþróttina. Hjónin Þóra Hrönn Njálsdóttir og Sigurjón Pétursdóttir munduðu myndavélar á mótinu og tóku þá þessa mynd af Skautahöllinni. Smellið á myndina til að skoða albúm með fleiri myndum. Mynd: Þóra Hrönn Njálsdóttir (thorahronn.com) og Sigurjón Pétursson (sigurjonpetursson.com).

Tíðasti gesturinn, elskar fólkið, matinn og landslagið

Gwen Krailo er sá erlendi gestur á krullumótinu Ice Cup sem hefur oftast tekið þátt, en hún var með í tíunda skiptið núna í byrjun maí. Af því tilefni fékk hún heiðursskjal frá skipuleggjendum mótsins. Ástæðan fyrir því að Gwen og félagar hennar koma aftur og aftur er einföld. „Ég elska fólkið, það er svo vingjarnlegt og lætur fólki finnast það vera velkomið og að það vilji að þú komir aftur. Mér líkar við matinn, landslagið, hvert sem litið er þá er það gullfallegt.“

Kannski endar þetta með því að Akureyri eignast eigin krulluhöll - eða Krailo-höll?

Gwen Krailo lengst til hægri, ásamt liðsfélögum og keppinautum á opnunarhófi Ice Cup sem haldið var í Flugsafninu. Mynd: Sigurjón Pétursson.

Segja má að krullan sé sérlega myndræn íþrótt og ekki skemmir fyrir að á mótum eins og Ice Cup leggja margir þátttakendur mikið upp úr skrautlegum og frumlegum búningum. Þóra Hrönn Njálsdóttir og Sigurjón Pétursson mynduðu keppendur á mótinu og hér er hluti afrakstursins í stuttu myndbandi.