Fara í efni
Mannlíf

Gamall draumur í kúluhúsi

Hjónin Helga Björg og Jóhannes og hundurinn Mosi á framtíðarheimilinu. Þau reikna með að flytja inn í kúluhúsið seinnipart ársins 2026. Mynd: Skapti Hallgrímsson

„Ég hvet fólk alltaf til þess að fylgja sínum draumum og hugsjónum. Það er eitthvað sem maður á að gera í lífinu,“ segir Helga Björg Jónasdóttir, vöruhönnuður og kennari, sem er með kúluhús í byggingu rétt fyrir ofan Akureyri ásamt eiginmanninum, Jóhannesi Má Jóhannessyni.

Þessi óvenjulega bygging, sem stendur stutt frá Lögmannshlíðarkirkju, í landi Hesjuvalla, hefur nú þegar vakið athygli, þótt hún sé ekki fullkláruð. Helga Björg segir að þau hjónin séu lítið fyrir athygli, bygging kúluhússins hafi einfaldlega verið gamall draumur hjá henni. Þá segir hún að allt sem þau hafi gert á jörðinni hingað til tengist í raun hugmyndum um mannrækt og sjálfbærni og því að þau vilji skila landinu í betra ástandi en þau tóku við því.

Þetta er síðari hluti af umfjöllun akureyri.net um kúluhús Helgu Bjargar og Jóhannesar. Fyrri hlutinn birtist í gær.

Í GÆRKÚLUHÚS RISIÐ OFAN AKUREYRAR

Bílskúrsþakið er bogadregið og íbúðarhúsið kúlulaga. Hvolf er sannarlega óhefðbundið hús. Mynd: SNÆ

Óuppfylltur draumur við Eyjafjörð

Helga Björg og Jóhannes, sem bæði eru Akureyringar, festu kaup á Hesjuvöllum árið 2010. Á þeim tíma var fjölskyldan búsett á Reykjavíkursvæðinu í mjög góðu húsnæði sem þau voru búin endurnýja að miklum hluta að sögn Helgu Bjargar. Hún rifjar upp göngutúr þar sem hún spurði Jóhannes hvort hann ætti sér einhvern óuppfylltan draum sem hann vildi láta rætast. Hann hafi þá nefnt að sig hefði alltaf langað til að eignast jörð við Eyjafjörð. „Við höfðum reyndar skoðað slíkt löngu áður og jafnvel gert tilboð í jarðir einhvern tímann fyrir aldamót. Þessi orð hans kveiktu hins vegar aftur neistann að skoða þetta,“ segir Helga Björg.

Framkvæmdir við byggingu kúluhússins hófust árið 2023 en áður höfðu hjónin ráðist í ýmsar endurbætur og breytingar á húsakosti sem fyrir var á jörðinni. Mynd: Skapti 

Þegar þau sáu Hesjuvelli á sölu féllu þau fyrir útsýninu og staðsetningunni. Þau slógu til, festu sér jörðina og fluttu norður síðsumars 2011 með tvö yngri börnin. „Ég hafði aldrei búið í sveit áður en fannst það spennandi tilhugsun,“ segir Helga Björg og bætir við að hún hafi sannarlega ekki orðið fyrir vonbrigðum. Hún lýsir því hvernig þau fái í raun það besta af þéttbýli og dreifbýli í einum pakka. Það sé stutt í þjónustu og menningu en samt séu þau „komin alveg út í sveit“ um leið og þau koma heim úr vinnu þar sem þau horfa yfir Akureyrarbæ út um stofugluggann.


Kúluhúsið er 100 fm að stærð. Innandyra verður opið eldhús- og stofurými á aðalhæðinni ásamt forstofu, baðherbergi, þvottahúsi og svefnherbergi með baðherbergi. Hálf hæð er líka í kúlunni þar sem verða tvö svefnherbergi og setustofa. Í kjallara er tækjarými, geymslur og innangengt í bílskúr. Frábært útsýni yfir Akureyri og út Eyjafjörð er úr húsinu. Mynd:SNÆ

Ræktun og endurbætur

Framkvæmdir við byggingu kúluhússins hófust árið 2023 en áður höfðu þau ráðist í ýmsar endurbætur og breytingar á húsakosti sem fyrir var á jörðinni. Helga Björg nefnir m.a. að þau hafi tekið inn hitaveitu og gert einhverjar breytingar á íbúðarhúsinu sem byggt var árið 1936 með viðbyggingu frá 1974. Þá tóku þau fjósið alveg í gegn og breyttu því í fjölnota rými. Kálfahúsinu breyttu þau í hesthús fyrir 12 hesta og þá hafa þau einnig ræktað upp 20 hektara af útivistarskógi og útbúið tvo matjurtargarða og breyttu einum hálfónýtum skúr í gróðurhús. „Við erum frístundabændur og erum að nýta landið á margvíslegan hátt,“ segir Helga Björg og leggur áherslu á að allt sé þetta gert í skrefum, samhliða öðrum verkefnum.

Staðurinn þar sem kúluhúsið er nú risið var ákveðinn fyrir 9 árum síðan en þá endurnýjuðu hjónin hjúskaparheitin á hólnum í tilefni af 25 ára brúðkaupsafmælinu sínu. „Þannig að það má segja að við höfum eiginlega verið búin að helga okkur þennan stað löngu áður en framkvæmdirnar hófust,“ segir Helga Björg og brosir.

Fjölskyldumynd frá 2016.  Helga Björg og Jóhannes með börnum sínum þremur: Ísaki, Bjarneyju og Fríðu. Myndin er tekin þegar hjónin endurnýjuðu heitin á hólnum þar sem kúluhúsið er nú risið. Mynd: Aðsend

Seinlegt og flókið ferli

Leiðin að fyrstu skóflustungu kúluhússins var hins vegar frekar löng, því það tók langan tíma að fá breytingu á deiliskipulagi til að mega byggja „Þetta er búið að vera ótrúlega seinlegt ferli og flókið, þó að um eigin jörð sé að ræða,” dæsir Helga Björg, sem hefur ýmislegt út á ferlið að setja. Til að mynda gagnrýnir hún gjaldtöku sveitarfélagsins. Segir hún að þau hjónin þurfi að greiða fullt gatnagerðargjald, um 11 milljónir króna, eins og þau séu í þéttbýli, en þurfi á sama tíma sjálf að kosta veglagningu að húsinu. Þetta tengist því að þéttbýlismörk Akureyrar voru færð ofar, þannig að jörðin telst í raun innan þéttbýlis á pappírunum, þrátt fyrir að hún sé lögbýli í dreifbýli. „Við þurfum sem sagt að borga gjöld eins og við séum að byggja niðri í bæ en fáum ekki samsvarandi þjónustu eða innviði,“ segir Helga og bætir við að þetta sé kerfisgalli og mjög ósanngjarnt.

Þessi mynd er tekin sumarið 2023 þegar framkvæmdir hófust við húsgrunninn. Mynd: Aðsend

Kúlan klædd með gróðri?

Eins og áður segir hófust framkvæmdir við húsgrunninn sumarið 2023. Húsið varð svo fokhelt í haust og stefna hjónin á að flytja inn seint á nýju ári. Spennandi tímar séu því fram undan sem snúast um frágang innandyra. Þá eru skemmtilegar pælingar í gangi varðandi fráganginn á kúlunni utanhúss. Forstofubyggingin og bílskúrinn verða klædd með íslensku lerki en helst vilja þau klæða kúluna sjálfa með gróðri og láta þannig húsið falla sem best inn í landslagið, en verið sé að skoða og meta lausnir varðandi það.

Aðspurð um ráð til þeirra sem finnst kúluformið spennandi ráðleggur Helga Björg fólki að skoða málið vel áður en farið er út í byggingu á kúluhúsi. Gott er að kynna sér vel allar þær lausnir sem eru í boði, leita til fólks með reynslu og umfram allt að gera sér grein fyrir að svona bygging er hvorki einfaldari né ódýrari en hefðbundin húsbygging. „Þetta hefur alveg reynt á bæði þolinmæðina og fjárhagshliðina en við sjáum ekki eftir því að hafa farið út í þetta,” segir Helga Björg húsfreyja á Hvolfi að lokum.

Séð heim að Hesjuvöllum. Mynd: Skapti

Þetta er síðari hluti af umfjöllun akureyri.net um kúluhús Helgu Bjargar og Jóhannesar. Fyrri hlutinn birtist í gær.

Í GÆRKÚLUHÚS RISIÐ OFAN AKUREYRAR