Fara í efni
Íþróttir

Fyrsta mark Ásgeirs og frumraun Kristófers

Ásgeir Marinó Baldvinsson, til vinstri, og Kristófer Kristjánsson eftir leikinn í kvöld. Ljósmynd: S…
Ásgeir Marinó Baldvinsson, til vinstri, og Kristófer Kristjánsson eftir leikinn í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Knattspyrnumaðurinn Ásgeir Marinó Baldvinsson skoraði í fyrsta skipti fyrir meistaraflokk Þórs í kvöld, þegar liðið lagði Þrótt að velli, 5:1, á Þórsvellinum (Salt Pay vellinum).Leikurinn var í Lengjudeild Íslandsmótsins, þeirri næst efstu.

Ásgeir, sem er 19 ára, lék fyrst með meistaraflokki Þórs í fyrrasumar og nú að baki alls 18 leiki í deild og bikar; 15 leiki og eitt mark í B-deild Íslandsmótsins og þá hefur hann tekið þátt í þremur bikarleikjum.

Leikurinn í gærkvöldi var líka sögulegur fyrir Kristófer Kristjánsson. Hann er nýorðinn 17 ára, á afmæli 1. júlí, lék fyrsta meistaraflokksleikinn í kvöld og lagði strax upp eitt mark.

Kristófer lék síðustu 18 mínúturnar í kvöld; vallarklukkan sýndi 77 mínútur þegar hann kom af varamannabekknum en 90 mínútur voru liðnar og fimm mínútna uppbótartíma var að ljúka þegar hann fór illa með varnarmann Þróttar hægra megin á vellinum átti flotta fyrirgjöf á Jóhann Helga Hannesson, sem átti auðvelt með að skora.