Frumbyggjarnir eru fluttir í Móahverfi
Fyrstu íbúar hins nýja Móahverfis á Akureyri fluttu inn í dag. Súsanna Karlsdóttir og Sindri Davíðsson eru frumbyggjar hverfisins ásamt börnum sínum, dótturinn Míu sem er sex ára og syninum Nökkva, tveggja ára. Þau voru að flytja búslóðina á nýja heimilið þegar akureyri.net leit við í dag og hyggjast sofa fyrsta sinni í Hrísmóa 9 í nótt.
Íbúðirnar fimm í raðhúsinu Hrísmóa 1-9 voru þær fyrstu í hverfinu sem boðnar voru til sölu fullbúnar og seldust allar á einum sólarhring eins og akureyri.net greindi frá í september. Íbúð Súsönnu og Sindra er fimm herbergja, 155 fermetrar að stærð. Þau voru vitaskuld alsæl í dag og stolt af því að teljast frumbyggjar!
Það er fyrirtækið Katla Byggir ehf. sem byggir umrætt hús við Hrísmóa. Sveinn Elías Jónsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir þetta gleðidag. „Það er gaman að fyrstu íbúarnir séu fluttir í hverfið,“ sagði hann. Flutt verður í fjórar íbúðanna fyrir jól og sú síðast verður afhent í janúar, að sögn Sveins.
Annað fjögurra íbúða raðhús er í byggingu við hliðina, Hrísmói 11-17, og Sveinn Elías telur ólíklegt að þær íbúðir verði auglýstar; allar eru að líkindum þegar seldar.
Mikið var um að vera í Móahverfi þegar akureyri.net var þar í dag, fjöldi manns að störfum á vegum nokkurra verktaka. Katla Byggir á þrjár raðhúsalóðir til viðbótar í hverfinu og Sveinn Elías og hans menn munu halda áfram af fullum krafti í hverfinu eftir að vinnu við húsin tvö við Hrísmóa lýkur. „Það er greinileg eftirspurn eftir því að komast í hverfið,“ sagði Sveinn Elías í dag. „Íbúðirnar okkar eru vel hannaðar, við höfum til dæmis fengið mikið hól fyrir að það séu tvö salerni og tvær sturtur, og dálítill íburður.“

