Fara í efni
Fréttir

Auglýstu 5 fullbúnar íbúðir – seldust í hvelli

Horft yfir Móahverfi; raðhúsið sem um ræðir er það með dökka þakinu lengst til vinstri á myndinni. Mynd: Þorgeir Baldursson

Nýlega voru auglýstar til sölu fimm íbúðir í raðhúsi í hinu nýja Móahverfi á Akureyri, sem munu afhendast fullbúnar fyrir áramót. Þetta eru fyrstu íbúðirnar í hverfinu sem fasteignakaupendum býðst að kaupa fullbúnar. Íbúðirnar seldust allar á einum sólarhring og að sögn fasteignasala fengu færri en vildu.

Um er að ræða raðhús sem stendur við Hrísmóa 1-9. Það er Katla Byggir ehf. sem byggir húsið og íbúðirnar voru til sölu hjá Eignaveri og Kasa á Akureyri. Íbúðirnar í húsinu eru ýmist fjögurra eða fimm herbergja og 145-156 fermetrar að stærð með bílskúr. Verðmiðinn var 114,9 milljónir fyrir fjögurra herbergja íbúðirnar en 119,9 milljónir fyrir fimm herbergja íbúðir.

Frumbyggjar Móahverfis verða á öllum aldri

Tryggvi Gunnarsson hjá fasteignasölunni Eignaveri segir áhugann á þessum íbúðum hafa verið gríðarlegan og kaupendahópurinn sé fjölbreyttur. „Þarna verða bæði eldra fólk sem er að minnka við sig og fjölskyldufólk. Fólk á öllum aldri,“ segir Tryggvi um þessa væntanlegu frumbyggja Móahverfis. Katla Byggir mun líka reisa annað raðhús við Hrísmóa og Tryggvi býst við að þau sem misstu af íbúðunum í þessu húsi muni sitja um þær íbúðir. „Þetta er Hrísmói 11-17, fjögurra íbúða raðhús. Svipaðar íbúðir og í hinu húsinu en aðeins öðruvísi byggingarform,“ segir Tryggvi og á honum er að heyra að hann búist við skjótri sölu þegar þessar íbúðir fara í sölu, líklega rétt eftir áramót.

Tryggvi hlakkar líka til þegar byrjað verður að selja íbúðir í fjölbýlishúsum í hverfinu á næsta ári. Um sé að ræða mjög vel skipulagðar íbúðir og húsin verði svipuð þeim sem risu í Hagahverfi. Að sögn Tryggva virðast fasteignakaupendur spenntir fyrir Móahverfinu. „Þetta er bara mjög spennandi hverfi og skemmtilega uppbyggt,“ sagði Tryggvi Gunnarsson hjá Eignaveri að lokum.