Fara í efni
Fréttir

Framkvæmdir við innilaugina tefjast

Flísalögn er ekki hafin á innilauginni í Sundlaug Akureyrar. Framkvæmdum hefur seinkað og stefnt að því að þær klárist um áramót. Mynd: SNÆ

Framkvæmdir við innisundlaugina í Sundlaug Akureyrar hafa dregist á langinn. Vonir stóðu til að laugin yrði tilbúin nú í haust en nú er horft til áramóta.

Að sögn Gísla Rúnars Gylfasonar, forstöðumanns sundlauga Akureyrar, hefur lítið gerst í sumar eða síðan Akureyri.net tók síðast púlsinn á verkinu.

Segir hann að þessa hægu framvinduna megi skýra að hluta til með sumarfríum og því að verktakar hafa þurft að klára önnur aðkallandi útiverk fyrir veturinn. Þá kemur glerið í gluggana sem snúa út að Andapollinum ekki fyrr en í nóvember-desember og því sé ljóst að framkvæmdum ljúki ekki fyrr en í fyrsta lagi um áramót. „Múrarar hafa verið að steypa kanta og ganga frá smáatriðum. Flísarnar eru komnar og allt tilbúið fyrir flísalögn, en það þurfti að klára grunnvinnu áður en hægt er að flísaleggja,“ útskýrir Gísli Rúnar.

Framkvæmdir við innilaugina hófust í oktober í fyrra.  Austurhliðin er enn opin, nýir gluggar koma í nóvember-desember. 

Áhrif á skólasund

Vegna seinkana á verkinu hefur skólasundið verið leyst með sama hætti og í fyrravetur. „Við notum lendingarlaugina í kennslu fyrir yngstu börnin í staðinn fyrir innilaugina,” segir Gísli Rúnar. Þetta hefur gefist ágætlega en þó hægt sé að leysa skólasundið með þessum hætti séu aðrir hópar sem ekki hafa í nein hús að venda á meðan á framkvæmdum stendur. Segir Gísli Rúnar að þeir sem finni hvað mest fyrir því að hafa ekki aðgang að innilauginni séu einkaaðilar og viðkvæmir hópa, svo sem hópar í vatnsleikfimi, meðgöngusundi eða fatlaðir. „Einhverjir hafa fundið sér annan stað en aðrir bíða bara eftir því að þetta klárist,“ segir Gísli Rúnar.

Lendingarlaugin við rennibrautirnar verður nýtt undir skólasund hjá allra yngstu nemendunum á meðan á framkvæmdum á innilaug stendur eins og gert var síðasta vetur.

Nýtt geymslurými skapast

Fyrr í sumar var spennistöð Norðurorku, sem var staðsett í kjallararými sundlaugarinnar flutt norðanmegin við sundlaugarhúsið í forsmíðað hús, en við það skapaðist mikilvægt aukarými. 

„Við fáum nú meira pláss sem nýtist bæði sundlauginni og sundfélaginu. Þetta leysir úr ákveðnum þrengingum sem urðu þegar við fórum yfir í nýtt klórframleiðslukerfi. Þannig að það hjálpar gríðarlega að fá þetta rými,“ segir Gísli Rúnar. Hann bendir á að frá upphafi hafi mikil óvissa fylgt framkvæmdunum „Við vissum aldrei alveg hvað kæmi í ljós þegar farið var að opna svona gamalt mannvirki. Þetta hefur í heildina gengið vel, þó að tímalínan hafi lengst en það er bara eðli svona verka,“ segir Gísli Rúnar vongóður um að hægt verði að taka innilaugina í notkun í byrjun næsta árs.

Nýtt geymslurými hefur myndast þar sem spennistöð Norðurorku var áður til húsa.