Fara í efni
Mannlíf

Forsetafrúin sló í gegn í Vísindaskólanum

Vísindaskóli unga fólksins í Háskólanum á Akureyri var í síðustu viku, eins og áður hefur komið fram á Akureyri.net. Skólanum var slitið með hátíðlegri athöfn á föstudaginn var, að viðstaddri Elizu Reid forsetafrú. Nemendur voru 80 og komust færri að en vildu.

Þetta er í sjöunda skipti sem skólinn er haldinn en hann er ætlaður börnum á aldrinum 11 til 13 ára. Skólinn stendur yfir í eina viku og fá nemendur ný verkefni á hverjum degi. Að þessu sinni var lögð áhersla á að kenna börnum um lýðræði og hvernig störfum Alþingis er háttað, jarðfræði var eitt af þemunum, orkumál, heilbrigðisþema og loks björgunarsveitarstörf og náttúrufræði.

Alltaf ný viðfangsefni

Í fyrsta skipti voru mun fleiri drengir þátttakendur en stúlkur en fram að þessu hafa hlutföllin verið nokkuð jöfn. Lögð er mikil áhersla á gæði í kennslu og á að nemendur fái að upplifa og rannsaka, að sögn aðstandenda skólans. Að þessu sinni voru tveir starfsmenn Alþingis virkir í kennslunni.

Á hverju ári eru kynnt ný viðfangsefni þannig að nemendur geta komið þrjú ár í röð, sem margir gera. Sigrún Stefánsdóttir og Dana Rán Jónsdóttir bera ábyrgð á uppbyggingu og rekstri þessa verkefnis sem er hýst hjá Háskólanum á Akureyri. Vísindaskólinn er opinn börnum óháð búsetu. Fjölmörg fyrirtæki og félög og Akureyrarbær styrkja reksturinn, en sá stuðningur er forsenda þess að hægt sé að reka skólann, að sögn stjórnenda hans.

Ananas á pítsu? Ó, já!

Óhætt er að segja að Eliza Reid hafi slegið í gegn með skemmtilegri ræðu við útskriftina, og ekki síður með því að svara hraðaspurningum sem nemendur lögðu fyrir hana. „Ó, já!“ svaraði hún þá meðal annars þegar spurt var hvort hún vildi ananas á pítsu – sjá hér – en svar eiginmanns hennar, Guðna Th Jóhannessonar, fyrir nokkrum árum er mörgum í fersku minni. Hann sagðist þá helst vilja banna áleggið!

Eliza Reid ávarpar nemendur, foreldra og fulltrúa Háskólans á Akureyri þegar Vísindaskólanum var slitið. Eyjólfur Guðmundsson rektor HA sitjandi, Katrín Emma Símonardóttir til hægri. 

Fjörugar umræður voru á þingundi í Vísindaskólanum. „Herra forseti“ situr til vinstri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Fundur á „Alþingi“ þar sem meðal annars var rætt um að setja lög um að börn réðu stundarskránni í skólanum.

 

Mikið var rætt um möguleg lög um stundarskrá nemenda, en tillaga um að nemendur réðu gangi mála var felld.

Eliza Reid, forsetafrú, afhenti öllum börnum lítið tré við útskrift úr skólanum.

Börnin fóru út í náttúruna og söfnuðu ýmiskonar sýnum sem rannsökuð voru í skólanum.

Atkvæði greiddi á fundi „Alþingis“ í skólanum.

Júdó var á meðal þess sem nemendur Vísindaskólans kynntust að þessu sinni.

Nemendurnir Benedikt Már Þorvaldsson og Katrín Emma Símonardóttir ávörpuðu samkomuna og lögðu síðan ýmsar skemmtilegar spurningar fyrir forsetafrúna.

Mikill fjöldi var við útskrift úr Vísindaskólanum.

Sólrún Svava Kjartansdóttir lék á fiðlu og Rún Árnadóttir á selló við útskrift úr skólanum. Sitjandi eru Sigrún Stefánsdóttir og Dana Rán Jónsdóttir, stjórnendur Vísindaskóla unga fólksins.