Fara í efni
Mannlíf

Ananas á pítsu? Ó, já sagði Eliza Reid!

Eliza Reid, forsetafrú, ræddi m.a. við „háttvirta alþingismenn“ sem sátu á fundi þegar hún sótti Vísindaskólann heim. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Eliza Reid, eiginkona Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, var heiðursgestur við útskrift úr Vísindaskóla unga fólksins í Háskólanum á Akureyri í gær. Þar lærðu 80 börn á aldrinum 11 til 13 ára um eitt og annað í heila viku, til dæmis störf Alþingis og eldgosið á Reykjanesi.

Við brautskráninguna ávarpaði Eliza nemendur, foreldra þeirra og starfsfólk og svaraði síðan ýmsum spurningum barnanna. Ekki kom á óvart að forsetafrúin var meðal annars spurð hvort hún vildi hafa ananas á pítsu eða ekki. „Ó, já!“ svaraði Eliza ákveðið og vakti mikla kátínu í salnum.

Frægt varð þegar forseti lýðveldisins svaraði sömu spurningu frá nemendum Menntaskólans á Akureyri snemma árs 2017. Guðni sagðist alfarið á móti því að setja ananas á pítsu. Lýsti því meira að segja yfir að gæti hann sett lög myndi hann banna ananas sem álegg! Yfirlýsingar forseta Íslands rötuðu í heimspressuna og svo fór að hann baðst afsökunar á ananas-hatrinu.

Guðni Th. Jóhannesson á afmæli í dag. Verði pítsa í matinn á Bessastöðum í tilefni dagsins virðist, skv. svörum hjónanna, nauðsynlegt að hafa í það minnsta tvær mismunandi tegundir á boðstólum.

Til hamingju með daginn, Guðni!

Nánar um Vísindaskóla unga fólksins síðar.

Forsetahjónin á fjölmennum fundi í Lystigarðinum á Akureyri fyrir forsetakosningarnar á síðasta ári. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.