Fara í efni
Íþróttir

„Fólk hefur gaman af spennandi keppni!“

Stefanía Kristín Valgeirsdóttir, Akureyrarmeistari í sjötta skipti, eftir að hún lauk keppni á laugardaginn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Stefanía Kristín Valgeirsdóttir varð Akureyrarmeistari kvenna í golfi um helgina og er þar með komin upp í annað sæti á lista þeirra sem oftast hafa fagnað þeim titli. Sigrar hennar eru sex en fjóra vantar til að jafna árangur þeirrar bestu, Ingu Magnúsdóttur. „Þegar ég vann í fyrsta skipti sagðist ég ekki myndu hætta fyrr en ég næði Ingu,“ sagði Stefanía með bros á vör þegar sigurinn var í höfn. 

Þessar þrjár eru sigursælustar í sögu Akureyrarmótanna:

  • 10 – Inga Magnúsdóttir – vann 10 ár í röð, 1979 til 1988!
  • 6 – Stefanía Kristín Valgeirsdóttir – 2012, 2013, 2014, 2015, 2019, 2021
  • 6 – Andrea Ásgrímsdóttir – 1990, 1994, 1997, 1999, 2000, 2001

Stöðugleiki einkenndi leik Stefaníu þrjá fyrstu dagana í mótinu að þessu sinni; hún notaði 79, 77 og 77 högg, og fyrir síðasta dag hafði hún mjög örugga forystu. Ólöf María Einarsdóttir, sem var í öðru sæti, var 11 höggum á eftir.

Fáir ef nokkrir áttu von á mikilli spennu síðasta daginn en þannig fór nú samt. „Fólk hefur gaman af spennandi keppni. Verður maður ekki að bjóða uppá smá show fyrir áhorfendur? Ég grínaðist að minnsta kosti með þá skýringu, vegna þess hve illa ég spilaði í dag!“ sagði Stefanía við Akureyri.net eftir að sigurinn var í höfn – eins höggs sigur.

Farin að skjálfa á 17. braut!

Spurð um hátt skor síðasta daginn, svarar Stefanía: „Skrokkurinn gaf sig. Þegar maður er orðinn mjög þreyttur verður sveiflan léleg. Hina dagana var ég heppin og púttaði vel, en í dag hafði ég enga heppni með mér og púttaði illa. Það var einhvern veginn allt búið; það fór svo mikill kraftur í hina þrjá dagana,“ segir hún.

„Ég er í fullu starfi sem kennari hjá klúbbnum og spila aðallega vegna þess að ég hef svo gaman af því. Ég hef reyndar ekki spilað neitt að ráði síðustu tvö til þrjú ár, aðallega vegna meiðsla,“ segir Stefanía, sem þjálfar m.a. meistarann frá því í fyrra, Andreu Ýr Ásmundsdóttur, sem er með landsliðinu á Írlandi og tók því ekki þátt. Stefanía hælir Andreu í hástert. „Hún varð fyrst Akureyrarmeistari í meistaraflokki 2016, aðeins 14 ára og spilaði rosalega vel þá. Yngst allra til að vinna titilinn. Hún spilaði líka rosalega vel í fyrra þegar hún vann í annað skipti.“ En fyrst meistarinn ungi var ekki með kom ekki annað til greina en að stefna á titilinn, og Ólöf María hefur án efa hugsað eins.

Stefanía segist hafa leikið sérlega illa fyrri níu holurnar á laugardaginn. „Ólöf spilaði mjög vel og munurinn var kominn niður í fimm högg eftir níu holur, hún hélt sínu striki og ég náði aðeins að keyra mig í gang en hún saxaði smám saman á forskotið. Það er langt síðan ég hef tekið þátt í keppni þar sem spennan er svona mikil og ég skal viðurkenna að þegar við vorum komnar á 17. braut var ég farin að skjálfa!“

Hélt þær hefðu orðið jafnar

Stefaníu fannst keppnin skemmtileg, þótt á brattann væri að sækja síðasta daginn. „Ólöf var í landsliðinu í mörg ár og var hrikalega góð. Hún hefur verið að glíma við einhver meiðsli og mér finnst það frábært afrek hjá henni að ná svona góðum hring á fjórða degi.“

Spennan var reyndar örlítið minni en Stefanía hélt sjálf. „Ég hélt utan um skráninguna til að setja á netið og skráði vitlaust á Ólöfu á 10. braut; hélt hún hefði fengið par en hún var á einu höggi yfir pari.“

Fyrir síðustu holuna var munurinn þrjú högg, en Stefanía hélt að munaði tveimur. Hún lék 18. holuna á fimm höggum, tveimur yfir pari, en Ólöf á pari. „Ég hélt því að við værum jafnar eftir 18. holuna og þótt ég væri þreytt var ég alveg klár í bráðabana. En það var Ólöf sem sagði mér að ég hefði unnið!“

Stefanía Kristín og Ólöf María Einarsdóttir takast í hendur á 18. flöt í lok annars keppnisdags, á fimmtudag. Kara Líf Antonsdóttir til hægri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Já! Stefanía Kristín fagnar eftir að hún púttaði á 18. flöt á fimmtudaginn. Kara Líf Antonsdóttir til vinstri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.