Fara í efni
Fréttir

Flugsafnið fær muni úr vél sem fórst 1942

Hluti af þeim 30 kalibera patrónum og byssukúlum sem tilheyrðu patrónunum. Þetta var hluti af vopnabúri vélarinnar sem fórst.

Flugsafn Íslands fékk í dag afhenta til varðveislu gripi úr flugvél ameríska hersins sem fórst á Melgerðismelum í ágúst 1942 og muni úr fórum flugmannsins, John G. Kassos, sem lést í slysinu. 

Það var hópur sem kallar sig Varðveislumenn minjanna sem fann munina. Hópurinn hefur undanfarin ár rannsakað veru breskra, amerískra og norskra setuliðsmanna í Eyjafirði á stríðsárunum.

Einn úr hópi Varðveislumanna, Brynjar Karl Óttarsson, hefur gert Kassos-slysinu skil í hlaðvarpsþáttaseríunni Leyndardómar Hlíðarfjalls. Tenglar á þættina á Spotify eru neðst í fréttinni.

Níels Ómarsson einn Varðveislumanna minjanna og Steinunn María Sveinsdóttir safnstjóri Flugsafns Íslands í dag.

Varðveislumenn minjanna er félagsskapur áhugafólks um sögu, varðveislu minja og útivist. Stríðsminjar og varðveisla þeirra hefur frá upphafi skipað stóran sess í starfi VM, að bjarga gripum frá glötun. Meðal þess sem VM leggja áherslu á er miðlun til almennings á lifandi og skemmtilegan hátt – að segja sögu gripanna sem finnast og þeirra manna og kvenna sem handléku þá á hernámsárunum.

Varðveislumenn minjanna í kaffipásu í sumar á slysstaðnum þar sem þeir voru við rannsóknir. Frá vinstri: Karl Jónsson (í hvítri skyrtu), Brynjar Ingi Hannesson, Arnar Birgir Ólafsson, Níels Ómarsson. 

Á nýliðnu sumri hafa Varðveislumenn beint athyglinni að Melgerðimelum þar sem P-39 Airacobra flugvél ameríska hersins fórst í ágúst 1942 ásamt flugmanni vélarinnar, John G. Kassos. Afrakstur þeirrar vinnu eru nýjar upplýsingar um flugmanninn unga og slysið auk ýmissa gripa úr flugvélinni og úr fórum John Kassos sem fundust á vettvangi slyssins. Orðið hefur að samkomulagi milli Varðveislumanna og Flugsafns Íslands að safnið taki gripina til varðveislu og hafi þá til sýnis fyrir safngesti. Níels Ómarsson varðveislumaður afhenti Steinunni Maríu Sveinsdóttur safnstjóra Flugsafns Íslands gripina í dag. Von er á fjölskyldu John Kassos til Akureyrar um helgina, hópurinn mun vitja staðarins þar sem Kassos lét lífið fyrir 80 árum síðan og heimsækja Flugsafnið í kjölfarið.

Þrjú heil 30 kalibera skot úr einni af vélbyssum flugvélarinnar. Enn má sjá málmhringina sem héldu skotunum saman í belti.

Fimm heil 50 kalibera skot úr stærri vélbyssu vélarinnar. Eitt 30 kal. skot til viðmiðunar. Enn má sjá málmhringina sem héldu skotunum saman í belti.

Varðveislumenn minjanna hafa löngum beint sjónum að Hlíðarfjalli ofan Akureyrar. Þar voru þjálfuðu hermenn norskrar skíðaherdeildar breska og ameríska setuliðsmenn í vetrarhernaði á sínum tíma. Sprengja varð á vegi VM hópsins í einum leiðangrinum á um svæðið og á dögunum fóru sérfræðingar úr sprengjudeild Landhelgisgæslunnar upp í Hlíðarfjall til að eyða sprengjunni.

  • Brynjar Karl Óttarsson, hefur gert Kassos-slysinu skil í hlaðvarpsþáttaseríunni Leyndardómar Hlíðarfjalls sem fyrr segir. Báðir þættirnir eru á Spotify.

Smellið hér til að hlusta á fyrri þáttinn.

Smellið hér til að hlusta á seinni þáttinn.

Varðveislumenn minjanna í kaffipásu í sumar á slysstaðnum þar sem þeir voru við rannsóknir. Frá vinstri: Brynjar Karl Óttarsson, Brynjar Ingi Hannesson, Níels Ómarsson, Karl Jónsson, Arnar Birgir Ólafsson. 

Mynt sem var í eigu John Kassos og VM hópurinn fann á brotlendingarstaðnum.