Fara í efni
Mannlíf

Fjölmenningin er komin til þess að vera

Róbert Theodórsson, verkefnastjóri málefna flóttafólks hjá Rauða krossinum við Eyjafjörð. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

„Þetta er mjög fjölbreytt og nýlegt starf,“ segir Róbert Theodórsson, verkefnastjóri málefna flóttafólks hjá Rauða krossinum við Eyjafjörð. „Það er ekki langt síðan að Ísland fór að taka á móti flóttafólki í auknum mæli. Áður var auðveldara að hafa yfirsýn yfir málaflokkinn en á síðastliðnum árum, ekki síst eftir að átökin í Úkraínu brutust út, þurfti að sníða móttökukerfið að breyttum aðstæðum.“ Akureyrarbær gerði samning við ríkið í upphafi árs 2023 um að taka á móti 350 flóttamönnum á ári. Róbert telur að þeim fjölda sé ekki alveg náð - en nálægt því

Rauði krossinn á Íslandi hefur aðstoðað við móttöku flóttafólks síðan árið 1956. „Þetta hefur verið með ýmsu móti í gegnum tíðina. Í dag erum við fyrst og fremst að sinna félagsvirkni í breiðum skilningi og tungumálaþjálfun,“ segir Róbert. Á síðasta ári var boðið upp á félagsmiðstöð, sem samanstóð af tungumálaklúbbum og opnum húsum til dæmis. „Við erum að reyna að greina þörfina,“ segir Róbert. „Málið er svo, að það er mikið um félagslega viðburði í bænum. Við erum til dæmis með eitt flottasta bókasafn landsins sem er alltaf með eitthvað spennandi í gangi. Nú leggjum við áherslu á að vekja athygli skjólstæðinga okkar á því sem er á döfinni í bænum og hvetja þau til þátttöku.“

Birta og Salka, félagsmiðstöðvar, eru til dæmis fyrir 18 ára og eldri en margir halda að þær séu aðeins fyrir eldri borgara. „Þarna er rosalega flott starf og allskonar virkni í gangi,“ segir Róbert. „Það er líka spurning, hvort það sé sniðugt að búa til afmarkað félagsstarf fyrir utanaðkomandi hóp fólks, frekar en að hvetja það til að taka þátt í því sem þegar er í boði.“ Það sem eftir stendur af því félagsstarfi sem Róbert og kollegar hans í Rauða krossinum hafa komið á fót fyrir flóttafólk í bænum eru tungumálaklúbbarnir og tilfallandi félagslegir viðburðir. Spjallhópar í íslensku og ensku eru haldnir á okkar vegum vikulega á Amtsbóksafninu þar sem öll eru velkomin. 

Innflytjendur, sem ekki eru flóttafólk, eru líka velkomnir til þess að hafa samband og nýta sér aðstoð okkar

Einstaklingar sem koma til landsins í boði stjórnvalda, það sem oft hefur verið nefnt „kvótaflóttafólk“, eru valdir úr hópi flóttafólks vegna þess að það telst, af einhverjum ástæðum, vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu,“ segir Róbert. „Mögulega hefur viðkomandi verið í mörg ár í flóttamannabúðum áður en hann/hún/hán kemur til Íslands. Það getur verið erfitt að koma sér af stað inn í nýtt samfélag með slíka reynslu á bakinu. Við erum að sjá að fólk sem kemur hingað á eigin vegum er oft miklu meira tilbúið til þess að takast á við aðlögunarferlið. Þannig er þessi hópur fólks, þ.e. flóttafólk, mjög fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir.“

 

Tungumálahóparnir hafa gefið góða raun, þar sem sjálfboðaliðar Rauða krossins halda utan um starfið. Mynd: Rauði krossinn

Eitt af þeim verkefnum, sem hefur gefið góða raun, er verkefnið 'Tölum saman'. „Þá pörum við saman sjálfboðaliða og notanda,“ segir Róbert. „Þau hittast svo vikulega til þess að æfa sig í íslensku. Sjálfboðaliðinn verður oft og tíðum einskonar tengiliður inn í samfélagið og getur ráðlagt varðandi íslenskt samfélag og daglegt líf hér á landi. Þannig getur fólk líka ræktað með sér dýrmætt vinasamband í verkefninu.“

Mikilvægt er að koma því á framfæri varðandi starf Rauða krossins í Eyjafirði að það stendur öllum til boða. „Innflytjendur, sem ekki er flóttafólk, eru líka velkomnir til þess að hafa samband og nýta sér þjónustu okkar,“ segir Róbert. „Þetta er galopið! Þetta er fyrir alla sem hafa áhuga og þurfa stuðning við að aðlagast íslensku samfélagi. Þá skiptir engu máli hvort þú ert með alþjóðlega vernd eða komir til landsins á öðrum forsendum.“ 

Það eru sjálfboðaliðar sem halda utan um tungumálaklúbbana, en sjálfboðaliðastarfið er ofboðslega mikilvægt og Róbert tekur glaður við fleirum

Í tungumálaklúbbana á Amtinu eru einnig öll velkomin. „Það eru alveg dæmi um að innfæddir Íslendingar mæti í enskuspjall til þess að æfa sig í enskunni,“ segir Róbert. „Svo er fólk stundum að mæta bara til þess að vera með og kynnast nýju fólki.“ Það eru sjálfboðaliðar sem halda utan um tungumálaklúbbana en sjálfboðaliðastarfið er ofboðslega mikilvægt og Róbert tekur glaður við fleirum.

„Við höldum sérstök nýliðanámskeið fyrir sjálfboðaliða í verkefni með flóttafólki,“ segir Róbert. „Það er hægt að skrá sig á slíkt námskeið á raudikrossinn.is eða með því að hafa samband við mig. Það eru svo fleiri gagnleg námskeið sem standa sjálfboðaliðum okkar til boða, þeim að kostnaðarlausu. Til dæmis námskeið í sálrænum stuðningi, skyndihjálp, að setja mörk og fleira.“ Róbert bendir á að það sé allt í lagi að vilja fá eitthvað út úr því persónulega að vera sjálfboðaliði. “Það eru ólíkar ástæður fyrir því að fólk vill koma inn sem sjálfboðaliðar og það er fjölbreyttur hópur í því, rétt eins og skjólstæðingar okkar er fjölbreyttur hópur.“

Ég held að það séu ekki allir endilega að kveikja á því að það sé að fjölga í hópi innflytjenda hér, eins og annars staðar á landinu

Róbert segir frá því að á döfinni sé samstarf við Háskólann á Akureyri, þar sem nemendur í kennslufræði geta fengið 6 einingar fyrir að taka kúrs sem sjálfboðaliðar í verkefnum með flóttafólki. Þetta verkefni hefst í haust.

„Í mínu nærsamfélagi hef ég ekki upplifað neikvæðni eða andúð í garð fólks af erlendu bergi brotnu,“ segir Róbert. „Ég held samt að það séu ekki allir endilega að kveikja á því að það sé að fjölga í hópi innflytjenda hér, eins og annars staðar á landinu.”

Það er sláandi að fólk skuli reyna að kenna flóttafólki um vandamál okkar á Íslandi

„Stundum finnst mér eins og neikvæðu hliðar umræðunnar um móttöku flóttafólks á Íslandi séu svolítið undarlegar,“ segir Róbert. „Það er sláandi að fólk skuli reyna að kenna flóttafólki um vandamál okkar á Íslandi. Það fengu u.þ.b. 2000 manns alþjóðlega vernd hér á landi á síðasta ári, sem getur varla sett allt á hliðina. Staðreyndin er sú að við höfum bara ekki verið að hlúa að innviðum. Fólk nefnir gjarnan húsnæðisskort í þessu samhengi en árið 2022 var t.a.m. metár í móttöku flóttafólks. Þá fengu 3500 manns vernd en á sama tíma komu 17.000 innflytjendur til þess að manna störf.“

„Ef við erum ekki að gera það mannúðlega í stöðunni, það er að segja, að taka á móti fólki í erfiðri stöðu sem þarf á vernd að halda,“ segir Róbert, „Þá munum við þurfa að fá einstaklinga frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins, því við þurfum á fleira fólki að halda. Við fáum gjarnan misvísandi upplýsingar í fjölmiðlum og oft eru það háttsettir einstaklingar sem koma með óábyrgar yfirlýsingar. Að benda á einhverja 2000 einstaklinga og kenna þeim um erfiðan húsnæðismarkað stenst bara enga skoðun. Svo er auðvitað til þess að líta að þau sem þurfa á vernd að halda eiga rétt á því að sækja um hana – það er grundvallaratriði.“