Fara í efni
Íþróttir

Fimm daga alþjóðleg fjallahjólakeppni

Myndir af Instagram

The Rift MTB er alþjóðleg fimm daga fjallahjólakeppni um Norðurland, sem hófst í gær og lýkur á sunnudaginn. Rúmlega 30 tveggja manna lið taka þátt í keppninni og koma keppendur víða að úr heiminum. Skipulagning keppninnar er á vegum Lauf Cycles í samvinnu við innlenda og erlenda aðila. Alls eru hjólaðir 274 kílómetrar í alls konar landslagi þessa fimm daga og lýkur keppninni við Skógarböðin á sunnudag.

The Rift er annars þekkt vörumerki á sviði malarhjólreiða og sjötta slíka keppnin fór fram við Hvolsvöll í júlí síðastliðnum. Þar mættu um 1.000 hjólarar til leiks, að stærstum hluta erlendis frá. Núna er athyglinni beint að fjallahjólum og erfiðari hjólaleiðum en malarvegum.

Fimmta og síðasta dagleiðin á sunnudaginn er 63 km og liggur frá Akureyri um Vaðlaheiði, gegnum Vaglaskóg og Vaðlaheiði til baka. Endamarkið er við Skógarböðin.

Fyrstu tvo keppnisdagana hjóluðu keppendur þekktar fjallahjólabrautir ofan Akureyrar, þar sem rásmark og endamark var við Hótel Akureyri. Föstudagurinn fer í að hjóla frá Siglufirði til Dalvíkur og á laugardag er hjólað frá Reykjahlíð í Mývatnssveit til Húsavíkur.

Síðasta daginn hefja keppendur leik við Hótel Akureyri kl. 9 að morgni, hjóla gamla veginn yfir Vaðlaheiði upp á heiðina og þræða síðan slóða til suðurs eftir heiðinni að Þingmannaleið. Þeirri leið er fylgt til austurs, niður í Systragil í Fnjóskadal, hjólað eftir stígum gegnum Vaglaskóg og síðan aftur upp gamla Vaðlaheiðarveginn. Aftur er beygt af veginum inn á heiðina og hjólað til suðurs að Þingmannaleið og henni síðan fylgt til vesturs alla leið niður á Eyjafjarðarbraut. Lokaspretturinn er síðan tekinn að Skógarböðunum, þar sem keppni lýkur.

Myndir af Instagram frá The Rift MTB, alþjóðlegu fjallahjólakeppninni sem stendur yfir á Norðurlandi.