Féll fyrst fyrir konunni – svo læknisfræðinni

Í tilefni af Degi lækna í dag, þann 17. maí, deilir Sigurður M. Albertsson, yfirlæknir og skurðlæknir á SAk, leið sinni í læknisfræði, áskorunum starfsins og hugleiðingum um framtíð heilbrigðiskerfisins í skemmtilegu viðtali á vef Sjúkrahússins á Akureyri.
„Hver læknir á sögu af því hvernig það kom til að þeir völdu sér nám og starfsvettvang, en hjá Sigurði hófst sú saga ekki með draumi um læknisfræði, heldur sjálfri ástinni,“ segir í upphafi greinarinnar. Akureyri.net fékk góðfúslegt leyfi til að birta viðtalið í heild. Gjörið svo vel!
Ástríðan augljós
Sigurður hefur áratuga reynslu af starfi sem læknir og er ástríða hans fyrir starfinu augljós þeim sem við hann ræða, sem hann lýsir sem köllun. Þó er ekki um neinn sérstakan æskudraum að ræða og það sést í glampa í augunum þegar hann segir brosandi frá tildrögum þess að hann fór í læknisfræði.
„Í lok menntaskólaáranna kynntist ég yndislegri stúlku sem síðar varð konan mín og er það sem betur fer enn, þrátt fyrir alla mína mörgu galla. Hún ákvað að fara í læknisfræði og ég bara elti hana þangað. Ég hafði mun meiri áhuga á henni en á læknisfræðinni sem ég hafði ekkert verið að velta fyrir mér áður. Á þeim tíma hafði ég ekki mótað mér neina drauma um ákveðið framtíðarstarf. Áhuginn á faginu óx svo jafnt og þétt eftir því sem námsárunum fjölgaði og smám saman varð maður heillaður af þessum fræðum og fékk þessa „köllun“ sem vel er þekkt. Maður varð svo smám saman orðinn fastur í mótaðri vinnumenningu sem reyndist ekki „fjölskylduvæn“ og er ekki enn þó svo að barátta yngri kynslóðar lækna sé hægfara að skila árangri í þá átt.“
Kerfi sem býr við innviðaskuld
Aðspurður um þær áskoranir sem starfinu fylgja þá stendur ekki á svörum hjá Sigurði: „Stærsta áskorunin er líklega sú að finna eða skapa sér starfsumhverfi sem gerir manni kleift að nýta að fullu það nám og sérþekkingu sem maður hefur og að geta veitt þá þjónustu sem maður er menntaður til að veita í heilbrigðiskerfi sem er verulega undirfjármagnað. Í kerfi sem býr við innviðaskuld sem m.a. birtist í undirmönnun, löngum biðlistum, skorti á tækjabúnaði, úr sér gengnu húsnæði og tækjakosti og starfsfólki sem víða er við það að brenna út eða kulna af álagi. Þetta er ekki góður jarðvegur fyrir starfsánægju sem er ein af forsendum þess að geta starfað sem góður læknir. Þannig er undirfjármögnun undirrót hins illa og ekki í takti við aukið álag og þá þróun sem á sér stað innan læknisfræðinnar. Fólki fjölgar og það verður sífellt eldra. Fólk leitar til læknis af minna tilefni en áður fyrr. Kröfur hafa aukist um skrásetningu og pappírsvinnu almennt. Okkur hefur ekki tekist að auka mönnun í samræmi við þetta sem sést t.d. berlega hjá heilsugæslunni. Þar er mikill læknaskortur og langur biðtími eftir viðtali hjá lækni og þetta eykur mjög álag á þá sem starfa þar. Þetta veldur svo auknu álagi á bráðamóttökum sjúkrahúsanna og öðrum sem ekki eiga að sinna þessari framlínu.“
Sigurður M. Albertsson, yfirlæknir og skurðlæknir á SAk: „Það er mjög gefandi að vera í þeirri stöðu að geta hjálpað fólki með hin ýmsu vandamál sín og stuðlað að betra heilbrigði þess, lífsgæðum og vellíðan.“
Sigurður segir að starf læknis sé virkilega skemmtilegt og gefandi, aðspurður um hvað það skemmtilegasta sé segir hann: „Fjölbreytnin, samskiptin við afar gott samstarfsfólk og dagleg samskipti við sjúklinga. Það er mjög gefandi að vera í þeirri stöðu að geta hjálpað fólki með hin ýmsu vandamál sín og stuðlað að betra heilbrigði þess, lífsgæðum og vellíðan. Flest dagleg verkefni eru að jafnaði áhugaverð, skemmtileg og spennandi, ekki síst kennsla unglækna og læknanema sem færst hefur mikið í aukana í seinni tíð.“
Lífsstíll eða köllun?
Þá færist samtalið að því hvernig störf lækna hafa breyst á síðustu árum. Sigurður telur að það sé eflaust mismunandi eftir fræðigreinum hvernig breytingarnar hafi lýst sér. „Almennt má segja að enn sé tekist á um það meðal lækna hvort læknisstarfið eigi að vera lífsstíll eða köllun þar sem viðkomandi færir fórnir í þágu samfélagsins á kostnað eðlilegs fjölskyldulífs og eigin heilsu eða venjulegt starf með hefðbundnum vinnutíma. Það er einkum yngri kynslóð lækna sem hefur barist fyrir hinu síðara og starfsumhverfið hefur hægfara verið að þróast í þá átt.“
Sigurður nefnir líka stafrænu byltinguna, frá pappír til hins pappírslausa umhverfis, en einnig framfarir í þekkingu á sjúkdómum: „Til dæmis hinar ýmsu tegundir krabbameina og meðferð við þeim. Ný og betri lyf hafa komið fram auk mikilla tækniframfara t.d. við myndgreiningu. Gamla „klíníska augað“ við greiningu á sjúkdómum hefur á móti þurft að gjalda fyrir þetta og er ekki á sama stalli og áður sem er miður og því full ástæða til að standa vörð um það eftir bestu getu.“
Aukin sérhæfing hefur bæði kosti og galla
Sigurður nefnir að samfara aukinni þekkingu og framförum í tækni þá hafi sérhæfing innan læknisfræðinnar aukist til muna og að margir læknar starfi jafnvel á þröngu sviði innan sinnar: „Þetta hefur bæði kosti og galla. Betri og skilvirkari meðferð en að sama skapi er orðið erfiðara að manna vaktir sem þarfnast breiðari þekkingar.“
Vinnuálag hefur áhrif á vinnugleði
Eins og tíðrætt hefur verið eru áskoranir íslenska heilbrigðiskerfisins talsverðar og er ljóst að Sigurður hefur áhyggjur af þeirri þróun: „Afleiðingar undirfjármögnunar á húsakost, tækjabúnað og mannauð hafa stöðugt verið að versna. Þetta ásamt stöðugt auknum kröfum um skrásetningu í kerfinu hefur jafnt og þétt breytt verklagi og vinnudegi lækna og víða skapað óhóflegt vinnuálag þannig að minni vinnugleði og kulnun í starfi er orðið stærra vandamál á meðal lækna en áður fyrr. Af einhverjum ástæðum sem mér eru huldar þá hefur hámarksálag á lækni ekki enn verið skilgreint, öfugt við margar aðrar stéttir, flugmenn, atvinnubílstjóra o.fl.“
Nægt fjármagn er grundvallaratriði
Við fáum Sigurð aðeins til að velta framtíðinni fyrir sér, en hann telur að ef hlutverk lækna eigi að geta breyst í takt við tímann til hins betra með nýrri tækni og aðferðum, þá verði að kaupa þann búnað sem til þess þarf. „Að öðrum kosti sitjum við eftir í gömlu og óbreytanlegu kerfi sem eykur svo innviðaskuldina enn meira. Læknisfræðin breytist einungis ef nægu fjármagni verður veitt í að kosta breytingarnar. Með aukinni og dýrari tækni og aðferðum gæti orðið erfiðara en áður að halda sérfræðiþjónustu sem næst sjúklingunum þ.e. í heimabyggð og það verður áskorun fyrir lækna og stjórnvöld að finna þarna milliveg sem sátt verður um.“
Rödd hins almenna læknis þarf meira vægi
Sigurður segist hafa áhyggjur af því að aðkoma lækna að stjórnun og stefnumótun í heilbrigðiskerfinu hafi minnkað. „Vandi lækna við skipulagningu á heilbrigðisþjónustu og starfsumhverfi sínu hefur aukist jafnt og þétt því virðing stjórnenda fyrir læknum og skoðunum þeirra hefur stöðugt farið dvínandi. Aðkoma lækna að stjórnun og stefnumótun í heilbrigðiskerfinu hefur minnkað. Það er t.d. búið að leggja niður læknaráðin og lengra bil hefur myndast á milli lækna og stjórnenda. Læknar í stjórnunarstöðum hafa enn sinn atkvæðisrétt en sitja nú oft báðum megin borðs. Rödd hins almenna læknis á verkstæðisgólfinu hefur ekki sama vægi og áður. Lýðræðið er víða á undanhaldi.“
Gervigreindin gæti verið hjálpleg
Þegar rætt er um gervigreindina þá segist Sigurður eiga erfitt með að sjá að hún sendi lækna í frí „en hún á eflaust eftir að verða mjög hjálpleg þar sem hún á við t.d. við greiningu á sjúkdómum, túlkun á niðurstöðum rannsókna og við myndgreiningu. Sérhæfing innan fagsins mun halda áfram að aukast með þeim kostum og göllum sem ég nefndi áður.“
Skoða ætti ívilnanir til lækna á landsbyggðinni
Eins og áður hefur komið fram telur Sigurður nauðsynlegt að auka það fjármagn sem lagt er í heilbrigðiskerfið. „Af því myndu svo leiða fjölmargar aðrar breytingar til hins betra. Við gætum jafnt og þétt greitt til baka innviðaskuld kerfisins, endurnýjað húsnæði og tækjabúnað á ásættanlegum hraða, ráðið mun fleira fólk til starfa og greitt því þau laun sem til þess þarf. Þannig myndum við bæta starfsumhverfi og launakjör. Við gætum veitt umbun í einhverju formi fyrir vinnu á landsbyggðinni til að ná þangað fleira heilbrigðisstarfsfólki eins og tíðkast víða erlendis. Þessar ívilnanir gætu t.d. verið í formi aðstoðar með húsnæði, leikskólapláss, skattaafsláttar og niðurfelling námslána.“
Vegakerfi hinna veiku – Moka þarf stóra skafla
Talið færist að hjúkrunarheimilum sem Sigurður telur að sé eitt af forgangsverkefnum í því að bæta heilbrigðiskerfið: „Við þurfum að búa betur í haginn fyrir aldraða. Þarna þarf að gera stórátak og hugsa forgangsröðun á skattfé almennings upp á nýtt. Ef Landsvirkjun annar ekki eftirspurn eftir raforku þá byggjum við nýjar virkjanir, reisum fleiri raflínumöstur og leggjum línur. Ef vegagerðin annar ekki snjómokstri á heiðum og langar bílaraðir myndast þá er spýtt í lófana og mokað meira. Annað yrði aldrei samþykkt. Nú er löng og vaxandi biðröð sjúklinga á Kristnesi og hvað gerum við? Við mokum ekki. Við lokum í sumar. Þeim verkefnum í þjóðfélaginu sem kostuð eru af skattpeningum okkar þarf að forgangsraða betur. Heilbrigðiskerfið er vegakerfi hinna veiku og þar eru tafir og margir stórir skaflar sem þarf að moka.“
Væri líklega kennari ef ekki læknir
Eftir miklar vangaveltur um heilbrigðiskerfið förum við í örlítið léttara hjal, aðspurður að því við hvað hann myndi starfa ef hann væri ekki læknir, þá segist hann ekki alveg vita það, þó sennilega kennslu af einhverju tagi: „Ég hef alltaf haft gaman af að kenna öðrum eitthvað sem ég kann vel og held að ég sé bara með þokkalega hæfileika til þess. Ég velti þessu svolítið fyrir mér á táningsaldri en hvaða fag yrði þá fyrir valinu var ég aldrei með á hreinu. Ég hafði á tímabili mikinn áhuga á ljósmyndun og tók mikið af myndum á menntaskólaárunum og hefði ekki haft neitt á móti því að læra það fag. Ég var alltaf veikur fyrir öllu sem tengdist flugi. Ég var langt kominn með einkaflugmannsprófið en kláraði það þó ekki. Námið var þó afar áhugavert og fræðandi. Ég hafði enga drauma um atvinnumennsku í flugi en hefði vel getað hugsað mér eitthvað starf tengt þeirri starfsemi. Sjómennska kom aldrei til greina vegna sjóveiki.“
Verð kannski bassaleikari í hljómsveit aldraðra
Sigurður segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á tónlist, hann hafi þó ekki haft tök á því að ganga í tónlistarskóla frá barnsaldri, þar sem það hafi einfaldlega ekki verið í boði í hans heimabyggð. „Ég hef mjög gaman af að fikta við ýmis hljóðfæri, spila í hljómsveitum og semja og taka upp tónlist. Ég byggði mér ágætt hljóðver í gamla húsinu mínu í Hrísey þar sem ég hef ásamt góðum vinum átt margar góðar stundir. Kannski fæ ég fast starf sem bassaleikari í hljómsveit aldraðra á Akureyri þegar starfi mínu á SAk er lokið. Hver veit?“