Fara í efni
Fréttir

Faglegt mat að afstýra verði lokun endurhæfingardeildar í Kristnesi um helgar

Kristnesspítali í Eyjafjarðarsveit. Mynd af vef Sjúkrahússins á Akureyri.

Starfsfólk lyflækningadeildar Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) lýsir yfir verulegum áhyggjum vegna ákvörðunar þess efnis að frá áramótum verði endurhæfingardeild stofnunarinnar í Kristnesi breytt í fimm daga deild; að hún verði lokuð um helgar.

„Það er einlæg ósk okkar og faglegt mat að afstýra þurfi þessari ákvörðun, leggja þarf allan þunga í að leysa þau vandamál sem lokunin mun valda áður en alvarleg atvik verða vegna álags á deildinni. Hagsmunir almennings eru í húfi,“ segir í opnu bréfi til stjórnvalda frá hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum og öðru starfsfólki lyflækningadeildar SAk sem akureyri.net birti í morgun.

Öryggi bráðveikra sjúklinga gæti verið ógnað

Í greininni kemur fram að Kristnes sé eina deildin sem sinni sérhæfðri endurhæfingu fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Starfsfólk þar muni áfram sinna endurhæfingu þeirra „sem geta þegið hana fimm daga vikunnar og farið heim um helgar“ en þeir sem komist ekki heim um helgar muni fá endurhæfingu inni á bráðadeildum SAk, ljóst sé að það muni þyngja verulega róðurinn á lyflækningadeildinni sem sé verulega þungur nú þegar vegna fráflæðisvanda og álags. Starfsfólk lyflækningadeildar hafi lengi viðrað áhyggjur sínar hvað þetta varðar.

„Unnið hefur verið að aukningu á mannafla og hagræðingu í starfi með tilliti til þessa og því skýtur þessi ákvörðun skökku við,“ segir í greininni. Hætt sé við að lífsfæði þeirra sem fá ekki fullnægjandi endurhæfingu skerðist „sem og að öryggi bráðveikra sjúklinga gæti verið ógnað ef farið verður í að útskrifa of snemma vegna plássleysis.“

Mikil óánægja sjúklinga og aðstandenda

Greinarhöfundar, starfsfólk lyflækningadeildar SAk, segjast nú þegar finna fyrir mikilli óánægju sjúklinga og aðstandenda. „Nú eru inniliggjandi sjúklingar á vegum lyflækninga sem munu ekki komast í sérhæft endurhæfingaúrræði á Kristnesi og hafa jafnvel fengið neitun á sérhæfðu endurhæfingarúrræði í Reykjavík. Þetta eru sjúklingar sem eru of þungir hjúkrunarsjúklingar fyrir fimm daga pláss en í brýnni þörf fyrir endurhæfingu.“ Þar sé um að ræða endurhæfingu sem starfsfólk lyflækningadeildarinnar hafi oft á tíðum ekki tök á að sinna á fullnægjandi hátt, vegna anna á deildinni.

„Við höfum því áhyggjur af því hvaða áhrif lokunin mun hafa á þennan sjúklingahóp sem og starfsfólk deildarinnar. Það hefur mikil áhrif á líðan starfsfólks og eykur streitu þegar við höfum ekki tíma til að sinna starfinu nógu vel og endurhæfing mætir því miður afgangi þegar þarf að forgangsraða verkefnum á bráðalegudeildum en þetta þekkjum við af eigin reynslu.“

Hér má sjá greinina alla: Opið bréf til stjórnvalda

  • Tilkynnt var á vef SAk 2. október að endurhæfingardeildinni í Kristnesi yrði breytt í „5 daga deild ásamt dagdeild, með skýra áherslu á sérhæfða þverfaglega endurhæfingu fyrir fólk á öllum aldri,“ eins og það var orðað.
  • Þetta var ákveðið sem liður til að ná því markmiði „að veita gæðaþjónustu, á réttum stað og á réttum tíma, þeim hópum sem eru í mestri þörf fyrir sérhæfða þverfaglega endurhæfingu.“
  • „Samhliða þessum breytingum verður unnið að því að styrkja endurhæfingarþjónustu á bráðadeildum sjúkrahússins ásamt því að setja á laggirnar öldrunarteymi lyflækninga sem hefur það hlutverk að styrkja þjónustu við aldraða á bráðadeildum sjúkrahússins,“ sagði á vef SAk.