Fara í efni
Pistlar

Eyrarrokk – Uppáhalds helgin

Í fimm ár hefur fyrsta helgin í október verið mín uppáhalds. Af hverju? Jú, Eyrarrokkið, maður lifandi. Þetta er nefnilega helgi þar sem maður skiptir út virðulegu jakkafötunum og gerist pönkari á ný.

Eins og öll hin árin var tónleikastaðurinn Vitinn, aðal sprauturnar voru eins og áður Sumarliði Hvanndal, Helgi á Vitanum og Rögnvaldur gáfaði. Uppleggið var eins og alltaf tólf hljómsveitir, sex á föstudagskvöldinu og sex á laugardagkvöldinu. Kynnir var enginn annar en hinn geðþekki útvarpsmaður allra landsmanna, Ólafur Páll Gunnarsson eða bara Óli Palli eins og við þekkjum hann. Það var að sjálfsöðu uppselt enda seldust allir 200 helgarpassarnir strax í maí.

Baldvin Z, kvikmyndaleikstjórinn kunni, er trommuleikari hljómsveitarinnar Toy Mchine. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Það er óhætt að segja að föstudagskvölið hafi byrjað einstaklega vel þegar menningar-, nýsköpunar og háskólaráðherra, Logi Már Einarsson, mætti á svæðið og rifjaði upp hvernig var að vera tónlistarmaður á Akureyri hér áður fyrr enda sjálfur alvanur í bransanum. Í þá daga fengu hljómsveitir á Akureyri að æfa í húsnæði á vegum bæjarins yfir vetrartímann gegn því að ganga vel um. En eitt sinn þegar eftirlitsmaður húsanna kom í heimsókn þá gat hann ekki annað en skammað hljómsveitarmeðlimi fyrir allt þetta nammi át og að kasta öllum þessum álpappírsbréfum um allt hús, þannig að þeir voru látnir þrifa upp eftir sig sem og þeir gerðu.

Vilhelm Anton Jónsson – Villi naglbítur.

Logi sagði einnig frá því að menn urðu ekkert sérlega ríkir af öllu þessu hljómsveitarbrölti og einhverju sinni þegar ónefnd hljómsveit var í upptökum hjá Stúdíó Bimbó sem var staðsett hér á Akureyri, þá sá Bimbó, eigandinn, aumur á meðlimum hljómsveitarinnar og gat bara alls ekki rukkað fyrir upptökutímana enda menn það fátækir að þeir þurftu allir að reykja úr sömu pípunni! Logi endaði síðan sitt stutta innlegg með því að afhenda Summa, Rögga og Helga einhvern viðurkenningarvott fyrir þetta frábæra framlag þeirra í þágu tónlistar hér á Akureyri.

En þá var komið að því sem allir biðu eftir, þ.e að hljómsveitirnar færu að gera sig klárar. LOST átti að vera fyrst á sviðið en því miður forfölluðust þeir og því þurfti að hafa hraðar hendur og redda öðru bandi hið snarasta. Fyrir valinu varð stórhljómsveitin Skálmöld sem keyrði upp kraftinn, hávaða og lætin við mikinn fögnuð viðstaddra. Já, þetta byrjaði stórkostlega.

Björn Baldvinsson, hinn kraftmikli söngvari Bleiku Bastanna tryllti lýðinn á föstudagskvöldinu. Honum var heitt í hamsi!

Næstur á svið var Biggi í Maus & hljómsveitin Memm og ekki voru þeir síðri. Þriðja hljómsveit kvöldsins var Toy Machine frá Akureyri sem bara keyrði fulla ferð áfram enda Jenni söngvari gamall og marg reyndur rokkhundur. Ef menn héldu að það ætti eitthvað að slaka á þá var það svo sannarlega rangt því Bleiku Bastarnir voru næstir á svið og hreinlega keyrðu þetta áfram af miklum krafti, það miklum að söngvarinn reif sig úr að ofan enda rennandi sveittur af þeim látum sem þeir félagar settu í þetta.

Næst síðasta bandið var svo 200.000 naglbítar og vá! Þeir hafa sko engu gleymt og svei mér þá held ég bara að allir í húsinu hafi kunnað textana þeirra. Lokaatriði kvöldsins var svo drykkfellda gleðisveitin frá Akureyri, sjálfir Skriðjöklar með Karl Örvarsson í brúnni sem söngvara, í stað Ragga Sót. Þeir stóðu svo sannarlega fyrir sínu með glaðlegri framkomu og núna voru allir í húsinu byrjaðir að syngja með og þegar Logi mætti á sviðið til að dansa og syngja þá var gleðin og glensið fullkomnað.

Karl Örvarsson leysti Ragnar Gunnarsson – Ragga Sót – af sem söngvari Skriðjökla á Eyrarrokki. Jóhann Ingvason hljómborðsleikari til vinstri.

Eftir geggjað föstudagskvöld var maður að rifna úr spenningi fyrir laugardagskvölinu. Texas Jesús voru fyrstir á sviðið og hér er virkilega skemmtilegt band á ferðinni en bandið var stofnað á fyrri hluta tíunda áratugarins og dustaði rykið af hljóðfærunum fyrir Eyrarrokk. Stúlknabandið Skandall mætti næst á svæðið við mikinn fögnuð og hér er band sem verður virkilega gaman að fylgjast með í framtíðinni. Svörtu Kaggarnir er gamalt og goðsagnakennt band frá Akureyri með Kristján Ingimarsson innanborðs. En hann er betur þekktur sem sviðslistamaður og kom gagngert frá Danaveldi til að taka þátt í Eyrarrokki.

Meðlimir SúEllen frá Norðfirði sýndu svo og sönnuðu að þeir höfðu engu gleymt og keyrðu sitt efni áfram og hrifu áhorfendur með sér. Óli Palli steig óvænt á svið með þeim félögum í SúEllen og tók lagið Rockin in the Free World eftir Neil Young og já, hann er ekki bara góður útvarpsmaður, það blunder asskolli góður rokkari í kallinum og hann kann meira en bara að fjalla um tónlist.

Atli Hergeirsson bassaleikari Toy Machine fór hamförum – sem má líklega segja um hvern einasta tónlistarmann sem kom fram á Eyrarrokki.

Jeff Who tók við boltanum af SúEllen og þrátt fyrir að það væri langt liðið á kvöldið þá voru allir gestir enn í stuði enda ekki hægt annað en að hrífast með þessu bandi. Brain Police áttu síðan loka tónana á þessari hátíð og eins og við var að búast þá voru þeir geggjaðir. Þvílíkt band og þvílíkur þéttleiki og kraftur.

Þegar hér var komið sögu þurfti maður að þurrka svitann af enninu þrátt fyrir að hafa ekki lagt til einn tón á þessari hátið sem var hreinlega geggjuð í alla staði og ég vona svo sannarlega að undirbúningur fyrir næstu hátið sé þegar hafinn. Það eru bönd eins og Purkur Pillnink, Þeysararnir, Utangarðsmenn og eflaust fullt fullt af fleiri böndum sem eiga eftir að mæta á svæðið.

Eins og einn góður maður sagði: „það er geggjað að vera sextugur og fá að vera pönkari einu sinni á ári.“ Það er svo sannarlega rétt, pönkari, rokkari skiptir ekki máli – bara lifa og njóta.

Jens Ólafsson kom fram með tveimur hljómsveitum á hátíðinni; söng með Toy Machine á föstudagskvöldinu og Brain Police kvöldið eftir.

Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, er önnum kafinn en gaf sér tíma til að syngja og dansa með félögum sínum í Skriðjöklum í tveimur síðustu lögunum á föstudagskvöldið. Ráðherrann brá sér í betri fötin í tilefni dagsins. Frá vinstri: Jóhann Ingvason, Karl Örvarsson, Logi og  Jakob Rúnar Jónsson.

Frumbyggjar Vopnafjarðar

Jóhann Árelíuz skrifar
05. október 2025 | kl. 11:30

Þegar maður flýgur of hátt

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
04. október 2025 | kl. 06:00

Stirðastur í mannkynssögunni?

Orri Páll Ormarsson skrifar
03. október 2025 | kl. 15:30

Saga elris

Sigurður Arnarson skrifar
01. október 2025 | kl. 10:00

Fretur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
29. september 2025 | kl. 11:30

Ytri-Tjarnir, gamla íbúðarhúsið

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
29. september 2025 | kl. 09:00